Bólivaríska bandalagið fyrir Ameríkuþjóðir[1] (spænska: Alianza Bolivariana para los Pueblos de Nuestra América; skammstafað ALBA) er alþjóðastofnun sem byggir á hugsjóninni um pólitískan og efnahagslegan samruna ríkja í Rómönsku Ameríku og á Karíbahafinu.
Frumkvæðið að stofnun Bólivaríska bandalagsins fyrir Ameríkuþjóðir kom frá ríkisstjórn Venesúela á stjórnartíð Hugo Chávez.[5] Samtökin áttu að vera annar valkostur við Fríverslunarsvæði Ameríku (FTAA eða ALCA), fríverslunarsamningi sem Bandaríkin stungu upp á en varð aldrei að veruleika.
Chávez og Fidel Castro, forseti Kúbu, undirrituðu samkomulag um stofnun samtakanna þann 14. desember 2004[6] Samstarfið gekk þá út á að ríkin myndu deila með sér hráolíu og gögnum í mennta- og heilbrigðisgeirunum. Venesúela byrjaði á því að flytja um 96.000 olíutunnur frá ríkisrekna olíufélaginu PDVSA til Kúbu á hverjum degi á mjög hagstæðu verði. Í staðinn sendi Kúba 20.000 heilbrigðisstarfsmenn og þúsundir kennara til fátækustu svæðanna í Venesúela. Samkomulagið heimilaði jafnframt Venesúelum að ferðast til Kúbu til að gangast undir sérstaka læknismeðferð án endurjalds.[7][8]
Þegar ALBA var stofnað árið 2004 voru aðildarríkin aðeins tvö.[8][9] Fleiri ríki gerðust síðar aðilar að „Verslunarsamningi þjóðanna“, sem á að lögfesta meginreglur ALBA. Bólivía gerðist aðili að ALBA á stjórnartíð Evo Morales árið 2006, Níkaragva á stjórnartíð Daniels Ortega árið 2007 og Ekvador á stjórnartíð Rafaels Correa árið 2009. Manuel Zelaya leiddi Hondúras inn í bandalagið árið 2008 en ríkið sagði upp aðild sinni árið 2010 eftir valdaránið í landinu árið áður.[10] Karíbahafsríkin Antígva og Barbúda, Dóminíka, Sankti Vinsent og Grenadínur og Sankti Lúsía gengu einnig í bandalagið.[11]
Hugo Chávez bauð Jamaíku,[12]Mexíkó[13] og ríkjum Mið-Ameríku að ganga í ALBA[14] og bauð Argentínu að nota rafmiðilinn SUCRE.[15] Á 11. þingi ALBA í febrúar 2012 sóttu Súrínam, Sankti Lúsía og Haítí um aðild að samtökunum. Haíti hlaut fasta áheyrnaraðild og hin tvö ríkin hlutu tímabundna aðild á meðan unnið væri að fullri aðlögun þeirra.[8]
Eftir dauða Chávez heiðruðu níu aðildarríki ALBA hann á 12. forsetafundi samtakanna í júlí 2013 ásamt gestaríkjunum Úrúgvæ, Argentínu, Brasilíu, Súrínam, Gvæjana og Haítí.[16]
Grenada og Sankti Kristófer og Nevis voru samþykkt sem fullgild aðildarríki á þrettánda fundi samtakanna í Havana á Kúbu í desember 2014.[17]
Ekvador sagði sig úr ALBA í ágúst árið 2018.[18] Starfsstjórn Bólivíu sagði upp aðild Bólivíu í nóvember 2019[19] en nýkjörin stjórn Luis Arce gekk í samtökin á ný eftir kosningar í landinu árið 2020.[20][21]
Bandalagið bauð Rússlandi að taka þátt í íþróttakeppni ALBA árið 2023 eftir að Rússland hafði einangrast nokkuð á alþjóðasviðinu vegna innrásarinnar í Úkraínu.[22]
Stafrænn gjaldmiðill
Í október 2009 sammældust leiðtogar ALBA um að búa til stafrænan gjaldmiðil eftir fund í Bólivíu. Evo Morales, forseti Bóliviu, staðfesti að samkomulag hefði náðst um rafeyrinn. Hugo Chávez tilkynnti í kjölfarið að SUCRE væri „sjálfstætt og fullvalda peningakerfi“ sem yrði virkjað árið 2010.[23] Árið 2015 var gjaldmiðillinn notaður í verslun milli Bólivíu, Kúbu, Níkaragva og sér í lagi Ekvador og Venesúela.[8]