Rafael Correa

Rafael Correa
Forseti Ekvador
Í embætti
15. janúar 2007 – 24. maí 2017
VaraforsetiLenín Moreno
Jorge Glas
ForveriAlfredo Palacio
EftirmaðurLenín Moreno
Persónulegar upplýsingar
Fæddur6. apríl 1963 (1963-04-06) (61 árs)
Guayaquil, Ekvador
ÞjóðerniEkvadorskur
StjórnmálaflokkurPAIS-bandalagið (til 2018)
Borgarabyltingarhreyfingin (frá 2018)
MakiAnne Malherbe Gosselin (g. 1992)
Börn3
HáskóliKaþólski háskólinn í Leuven
Illinois-háskóli
StarfStjórnmálamaður, hagfræðingur
Undirskrift

Rafael Vicente Correa Delgado (f. 6. apríl 1963) er ekvadorskur stjórnmálamaður og hagfræðingur sem var forseti Ekvador frá 2007 til 2017. Correa er jafnaðarmaður og beitti sér á stjórnartíð sinni fyrir ýmsum vinstrisinnuðum kerfisbreytingum í Ekvador.

Æviágrip

Correa fæddist inn í miðstéttarfjölskyldu í Guayaquil og nam hagfræði í Kaþóska háskólanum í Leuven í Belgíu og síðan í Háskólanum í Illinois. Hann útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í hagfræði árið 2001.[1] Correa sneri aftur til Ekvador og varð árið 2005 efnahagsráðherra í ríkisstjórn Aldredo Palacio forseta. Í því embætti tókst honum að sannfæra ekvadorska þingið að auka fjárframlög til heilbrigðis- og menntamála.

Correa var kjörinn forseti Ekvador árið 2006 eftir kosningaherferð þar sem hann gagnrýndi ríkjandi stjórnmálaelítu landsins. Correa tók við völdum í janúar næsta ár og hófst handa við að víkja landinu burt frá nýfrjálslyndri efnahagsstefnu með því að draga úr áhrifum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Ekvador. Hann lýsti því yfir að ríkisskuldir Ekvador væru ógildar og að landið myndi ekki greiða fyrir ríkisskuldabréf upp á andvirði um 360 milljarða íslenskra króna sem gefin höfðu verið út. Correa tókst á við erlenda kröfuhafa frammi fyrir alþjóðadómstólum og tókst að láta lækka verð skuldabréfanna um rúm 60 prósent.[2] Correa innleiddi einnig nýja stjórnarskrá og var endurkjörinn árin 2009 og 2013.

Correa var einn af mörgum vinstrisinnuðum leiðtogum sem komust til valda í hinni svokölluðu „bleiku flóðbylgju“ í Rómönsku Ameríku á fyrsta áratugi 21. aldar. Hann ræktaði náið bandalag við Hugo Chávez, forseta Venesúela, og leiddi Ekvador í Bólivaríska bandalagið fyrir Ameríkuþjóðir (ALBA) árið 2009.[3] Stjórn Correa jók ríkisútgjöld og einbeitti sér að því að berjast við fátækt og bæta lífsskilyrði með því að hækka lágmarkslaun.[3][4][5] Undir lok forsetatíðar Correa leiddu ofuráhersla á olíuframleiðslu, há ríkisútgjöld, þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu og mannskæður jarðskjálfti árið 2016 til þess að kreppa hófst í efnahagi landsins og stjórn Correa neyddist því til að draga úr útgjöldum.[3][4][5][6]

Frá 2006 til 2016 lækkaði tíðni fátæktar úr 36,7 prósentum niður í 22,5 prósent og verg landsframleiðsla var 1,5 prósent (en var 0,6 prósent síðustu tvo áratugi á undan). Ójöfnuður lækkaði jafnframt úr 0,55 í 0,47.[7]

Undir lok þriðja kjörtímabils síns árið 2016 lýsti Correa því yfir að hann hygðist setjast í helgan stein og studdi ekki tilraunir aðdáenda sinna til að breyta stjórnarskránni svo hann gæti boðið sig fram í fjórða sinn. Flokkur Correa, PAIS-bandalagið, útnefndi hans í stað Lenín Moreno, fyrrum varaforseta Correa frá 2006 til 2013, sem forsetaframbjóðanda. Moreno vann sigur í forsetakosningum árið 2017 með stuðningi Correa og tók við af honum sem forseti landsins þann 24. maí.

Á stjórnartíð Moreno kom upp ósætti milli þeirra Correa. Moreno veik frá yfirlýstri stefnu sinni og sneri við ýmsum af vinstriumbótum Correa frá því að hann tók við embætti, meðal annars með því að draga landið úr ALBA í viðleitni til að bæta samskipti Ekvador og Bandaríkjanna. Þann 11. apríl árið 2019 gerði Moreno Julian Assange brottrækan úr sendiráði Ekvador í London, en Assange hafði hlotið hæli þar með leyfi Correa árið 2012. Correa brást illa við ákvörðun Morenos, vændi hann um spillingu og kallaði hann „mesta landráðamann í sögu Ekvador og Suður-Ameríku“.[8]

Þann 7. apríl árið 2020 dæmdi ekvadorskur dómstóll Correa í átta ára fangelsi fyrir spillingu og bannaði honum að hafa afskipti af stjórnmálum í aldarfjórðung.[9]

Tilvísanir

  1. „Econ. Rafael Correa Delgado“ (PDF) (spænska). Sótt 12. apríl 2019.
  2. "Avenger against oligarchy" wins in Ecuador[óvirkur tengill] The Real News, 27. apríl 2009.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Ecuador election: Who will succeed Rafael Correa?“. BBC News. 18. febrúar 2017. Sótt 24. febrúar 2017.
  4. 4,0 4,1 „What to expect from Ecuador's elections“. The Economist. 16. febrúar 2017. Sótt 24. febrúar 2017.
  5. 5,0 5,1 Schipani, Andres (22. febrúar 2017). „Ecuador's Lasso looks to overturn Correa's revolution“. Financial Times. Sótt 24. febrúar 2017.
  6. Solano, Gonzalo (19. febrúar 2017). „Official: Ecuador's presidential election headed to runoff“. The Seattle Times. Sótt 24. febrúar 2017.
  7. http://cepr.net/images/stories/reports/ecuador-2017-02.pdf
  8. Þórgnýr Einar Albertsson (12. apríl 2019). „Svipting hælis Assange hættulegt fordæmi“. Fréttablaðið. Sótt 12. apríl 2019.
  9. Andri Eysteinsson (7. apríl 2020). „Fyrrverandi forseti Ekvador dæmdur fyrir spillingu“. Vísir. Sótt 28. maí 2020.


Fyrirrennari:
Alfredo Palacio
Forseti Ekvador
(15. janúar 200724. maí 2017)
Eftirmaður:
Lenín Moreno