Nýfrjálshyggja

Nýfrjálshyggja er hugtak notað um frjálshyggju, stjórnleysisstefnu eða lágríkisstefnu, eða sambland af öllu. Hugtakið er einkum notað af andstæðingum frjálshyggju og hefur þá neikvæðan blæ.[1] Það var fyrst notað af Alexander Rüstow árið 1938.

Hinar ýmsu myndir nýfrjálshyggjunnar

Enda þótt fæstir frjálshyggjumenn kalli sig nýfrjálshyggjumenn hefur hugtakið nýfrjálshyggja þó verið notað um ýmis ólík afbrigði frjálshyggju.

Íhaldsfrjálshyggja

Stundum er orðið „nýfrjálshyggja“ haft um íhaldsfrjálshyggju, sem sameinar félagslega íhaldssemi hefðbundinnar íhaldsstefnu annars vegar og einstaklingshyggju, trú á frjálsan markað og takmörkuð ríkisafskipti hins vegar. Meðal fulltrúa íhaldsfrjálshyggju í stjórnmálum má nefna Ronald Reagan og Margréti Thatcher.[2] Íhaldsfrjálshyggja sótti meðal annars innblástur til Chicago-hagfræðinganna og austurrísku hagfræðinganna og fékk byr undir báða vængi í valdatíð Reagans og Thatcher. Vegna endurnýjaðra áhrifa frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum og Bretlandi á þessum tíma var þetta afbrigði frjálshyggju stundum nefnt nýfrjálshyggja.

Lágríkisfrjálshyggja

Lágríkisfrjálshyggja hefur einnig verið nefnd nýfrjálshyggja en aðaláhersla lágríkisfrjálshyggjunnar er á eignarrétt, frjálsan markað og eins lítil ríkisafskipti og mögulegt er. Hún er á hinn bóginn ekki (endilega) innblásin af félagslegri íhaldssemi íhaldsstefnunnar. Meðal þeirra sem haldið hafa fram lágríkisfrjálshyggju má nefna bandaríska heimspekinginn Robert Nozick sem varði slíka kenningu í riti sínu Stjórnleysi, ríki og staðleysa (e. Anarchy, State and Utopia). Áherslur lágríkisfrjálshyggjunnar höfðu ekki verið áberandi í ritum frjálshyggjuhugsuða á 18. og 19. öld, svo sem Adams Smith og Johns Stuarts Mill og því þótti andstæðingum lágríkisfrjálshyggjunnar, sem margir hverjir sóttu einnig innlástur til klassískrar frjálshyggju, við hæfi að nefna hana nýfrjálshyggju.

Nokkrir hinna róttækustu lágríkissinna hafna jafnvel lágríkinu, til dæmis David Friedman og Murray Rothbard, sem telja, að leysa megi öll mál á frjálsum markaði. Slíkir lágríkissinnar eru oft taldir stjórnleysingjar.

Neðanmálsgreinar

  1. Atli Harðarson. „Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju?“. Vísindavefurinn 8.6.2001. http://visindavefur.is/?id=1687. (Skoðað 14.9.2009).
  2. Atli Harðarson. „Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju?“. Vísindavefurinn 8.6.2001. http://visindavefur.is/?id=1687. (Skoðað 14.9.2009).

Tengt efni

Tenglar

  • „Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju?“. Vísindavefurinn.
  • Hvað er frjálshyggja?; grein í Morgunblaðið 1987
  • Nýfrjálshyggja, barnasjúkdómur eftirkommúnismans; grein Vikublaðinu 1993