Alþingiskosningar 2021

Alþingiskosningar 2021
Ísland
← 2017 25. september 2021 2024 →

63 sæti á Alþingi
32 sæti þarf fyrir meirihluta
Kjörsókn: 80,1% 1,1%
Flokkur Formaður % Sæti +/–
Sjálfstæðisflokkurinn Bjarni Benediktsson 24,4 16 0
Framsóknarflokkurinn Sigurður Ingi Jóhannsson 17,3 13 +5
Vinstri græn Katrín Jakobsdóttir 12,6 8 -3
Samfylkingin Logi Einarsson 9,9 6 -1
Flokkur fólksins Inga Sæland 8,8 6 +2
Píratar enginn 8,6 6 0
Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir 8,3 5 +1
Miðflokkurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 5,4 3 -4
Hér eru skráðir þeir flokkar sem náðu manni á þing.
Sjá heildarúrslitin neðar í grein.
Seinasta ríkisstjórn Ný ríkisstjórn
Katrín Jakobsdóttir I
 B   D   V 
Katrín Jakobsdóttir II
 B   D   V 

Alþingiskosningar fóru fram 25. september 2021. Þingmeirihluti stjórnarinnar hélt velli í kosningunum. Innan stjórnarinnar töpuðu Vinstri græn nokkru fylgi en Framsóknarflokkurinn bætti við sig. Af stjórnarandstöðuflokkunum bætti Flokkur fólksins við sig nokkru fylgi en Miðflokkurinn tapaði. Fylgi annarra flokka breyttist minna. Allir flokkar sem voru kjörnir í kosningunum 2017 héldu áfram á þingi og enginn nýr flokkur kom inn, það var í fyrsta skipti sem það gerðist síðan árið 2007. Í kjölfar kosninganna hófu formenn stjórnarflokkanna viðræður um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur tók svo við völdum 28. nóvember.

Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við talningu atkvæða og vörslu kjörgangna í Norðvesturkjördæmi og var framkvæmdin kærð til kjörbréfanefndar Alþingis og lögreglu. Samkvæmt rannsókn undirbúningskjörbréfanefndar voru talsverðir ágallar á geymslu á kjörgögnum og starfsháttum kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Hins vegar var niðurstaða meirihluta nefndarinnar að ekkert benti til þess að þessir ágallar hefðu haft áhrif á úrslit kosninganna og því skyldu niðurstöðurnar standa.

Bakgrunnur

Fráfarandi ríkisstjórn var ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur sem samanstóð af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum en sú ríkisstjórn varð fyrsta þriggja flokka stjórnin í íslenskri stjórnmálasögu til að sitja heilt kjörtímabil. Stjórnin tók við eftir óróatímabil í íslenskum stjórnmálum þar sem tvær undangengnar ríkisstjórnir höfðu fallið. Við upphaf kjörtímabilsins hafði ríkt nokkur uppgangur í efnahagslífinu, sérstaklega vegna áhrifa ferðaþjónustu en seinni hluti kjörtímabilsins markaðist af þungum áföllum á borð við gjaldþrot WOW Air og heimsfaraldur kórónuveiru.

Heimsfaraldurinn og viðbrögðin við honum mótaði mjög öll stjórnmál á Íslandi á síðari hluta kjörtímabilsins. Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson hefur lýst því þannig að hefðbundin stjórnmál hafi í raun verið tekin úr sambandi þar sem hefðbundin þingmál voru sett til hliðar stjórnarandstaða náði ekki vopnum sínum og ágreiningur milli stjórnarflokkanna varð ekki mjög áberandi þrátt fyrir ólíkar áherslur þeirra.[1][2] Viðbrögð við faraldrinum voru einnig að miklu leyti í höndum embættismanna og sérfræðinga fremur en stjórnmálamanna, ólíkt því sem sást í ýmsum öðrum löndum.[3]

Framkvæmd

Kjörtímabilinu hefði lokið 23. október 2021 og kosningar hefðu í síðasta lagi getað farið fram á þeim degi en þeim var flýtt um mánuð til að minnka líkur á að slæmt veður og ófærð myndi raska framkvæmd kosninganna.[4] Þetta urðu því þriðju alþingiskosningarnar í röð sem fóru fram að hausti en frá endurreisn Alþingis hefur oftast hefur verið kosið að vor- eða sumarlagi.[5]

Kosningarnar voru síðustu Alþingiskosningarnar sem fóru fram samkvæmt kosningalögunum frá árinu 2000. Ný kosningalög höfðu verið samþykkt 25. júní 2021 en þau áttu ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2022. Fram að þessu höfðu þrír mismunandi lagabálkar gilt um kosningar til Alþingis, sveitarstjórna og forseta en í nýju lögunum eru samræmd ákvæði um allar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur.[6] Engar breytingar urðu á kjördæmaskipan eða skiptingu þingsæta með lagabreytingunum og sætti það nokkurri gagnrýnni vegna þess að í undanförnum þingkosningum hefur skipting þingsæta niður á flokka ekki verið í fullu samræmi við skiptingu atkvæða á landsvísu.[7]

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst 13. ágúst hjá sýslumönnum innanlands og hjá sendiráðum og kjörræðismönnum erlendis.[8] Sérstakir kjörstaðir fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar opnuðu 23. ágúst í Kringlunni og Smáralind.[9]

Vegna kórónuveirufaraldursins voru sérstök úrræði í boði fyrir þá sem ekki gátu kosið á kjördag vegna sóttkvíar eða einangrunar. Útbúnir voru sérstakir bílakjörstaðir þar sem kjósendur gátu kosið með því að sýna starfsmanni kjörstjórnar listabókstaf á blaði í gegnum bílrúðu. Þá var einnig í boði fyrir kjósendur í þessari stöðu að fá starfsmann kjörstjórnar að heimili sínu og greiða atkvæði með því að sýna listabókstaf í gegnum glugga eða úr öruggri fjarlægð.[10]

Framboð

Framboðsfrestur rann út 10. september og voru þá komnir fram ellefu flokkar Þeir átta stjórnmálaflokkar sem þegar höfðu sæti á Alþingi voru allir í framboði en að auki buðu Sósíalistaflokkurinn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn fram í öllum kjördæmum. Ábyrg framtíð bauð eingöngu fram í Reykjavíkurkjördæmi norður. Landsflokkurinn hugði á framboð en var synjað um listabókstaf vegna galla á undirskriftalista.[11] Fjórir aðrir flokkar með skráða listabókstafi buðu ekki fram: Alþýðufylkingin, Björt framtíð, Dögun og Frelsisflokkurinn.[12] Hér að neðan fylgir umfjöllun um hvert og eitt framboð og töflur yfir efstu menn á framboðslistum.

Yfirlit framboða

Merki og stafur Flokkur Formaður Úrslit 2017 Breytingar á
kjörtímabilinu
Fylgi Þingsæti
D Sjálfstæðisflokkurinn Bjarni Benediktsson 25,2%
16 / 63
V Vinstrihreyfingin
grænt framboð
Katrín Jakobsdóttir 16,9%
11 / 63
AIJ til  P 
RBB til  S 
S Samfylkingin Logi Már Einarsson 12,1%
7 / 63
RBB frá  V 
M Miðflokkurinn Sigmundur Davíð
Gunnlaugsson
10,9%
7 / 63
KGH frá  F 
ÓÍ frá  F 
B Framsóknarflokkurinn Sigurður Ingi Jóhannsson 10,7%
8 / 63
P Píratar Formannslaust framboð 9,2%
6 / 63
AIJ frá  V 
F Flokkur fólksins Inga Sæland 6,9%
4 / 63
KGH til  M 
ÓÍ til  M 
C Viðreisn Þorgerður Katrín
Gunnarsdóttir
6,3%
4 / 63
J Sósíalistaflokkur
Íslands
Gunnar Smári Egilsson Ekki í framboði
O Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn Guðmundur Franklín Jónsson Ekki í framboði
Y Ábyrg framtíð Jóhannes Loftsson Ekki í framboði

(B) Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn hafði verið þátttakandi í ríkisstjórn á undanliðnu kjörtímabili með þrjá ráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson leiddi flokkinn sem formaður líkt og í tvennum undangengnum Alþingiskosningum. Ásmundur Einar Daðason, Félags- og barnamálaráðherra, var áður oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi en ákvað að sækjast eftir forystusæti í Reykjavík norður þar sem flokkurinn hefur jafnan haft lakara fylgi en á landsbyggðinni.[13] Í báðum Reykjavíkurkjördæmunum var stillt upp á framboðslista en í öðrum kjördæmum fóru fram prófkjör.

(C) Viðreisn

Viðreisn bauð fram í sínum þriðju Alþingiskosningum en flokkurinn hafði verið í stjórnarandstöðu á undangengnu kjörtímabili eftir að hafa tapað nokkru fylgi í kosningunum 2017 eftir skammvinnt ríkisstjórnarsamstarf. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var formaður flokksins líkt í síðustu kosningum. Allir framboðslistar Viðreisnar voru valdir af uppstillingarnefndum. Benedikt Jóhannesson, fyrsti formaður flokksins, sóttist eftir oddvitasæti í einhverju af kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu en var hafnað af uppstillingarnefnd og boðið „heiðurssæti“ í staðinn, þ.e. neðsta sæti á framboðslista í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Benedikt þáði það ekki.[14]

(D) Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið þátttakandi í ríkisstjórn á undangengnu kjörtímabili með fimm ráðherra. Bjarni Benediktsson leiddi flokkinn í fimmtu Alþingiskosningunum frá því að hann tók við formennsku flokksins fyrir kosningarnar 2009. Framboðslistar í öllum kjördæmum voru valdir með prófkjöri. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Haraldur Benediktsson, sitjandi oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, kepptust um oddvitasætið í Norðvestur þar sem Þórdís hafði betur. Haraldur hafði lýst því yfir fyrir prófkjörið að hann myndi ekki þiggja annað sæti listans og hlaut hann nokkra gagnrýni fyrir það. Á endanum þáði Haraldur þó annað sæti listans.[15] Sameiginlegt prófkjör var haldið fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, hafði þar betur gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, en bæði sóttust eftir 1. sæti í prófkjörinu.[16] Sigríður Andersen sagði af sér embætti dómsmálaráðherra á kjörtímabilinu vegna Landsréttarmálsins. Hún sóttist eftir 2. sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík en varð ekki á meðal átta efstu.[17]

(F) Flokkur fólksins

Flokkur fólksins bauð nú fram í annað sinn og sem fyrr undir forystu Ingu Sæland. Flokkurinn hóf síðasta kjörtímabil með fjóra þingmenn en í kjölfar Klaustursmálsins voru Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson reknir úr þingflokkinum. Báðir gengu þeir síðar í þingflokk Miðflokksins. Stillt var upp á alla framboðslista flokksins.[18] Helstu baráttumál flokksins voru sem fyrr málefni öryrkja og eldri borgara. Lögð var áhersla á afnám tekjutenginga í bótakerfinu og hækkun skattleysismarka.

(J) Sósíalistaflokkur Íslands

Sósíalistaflokkur Íslands bauð nú fram til Alþingis í fyrsta skiptið en hafði áður náð manni inn í borgarstjórn Reykjavíkur 2018. Gunnar Smári Egilsson var formaður framkvæmdastjórnar flokksins og kom fram sem leiðtogi flokksins í kosningabaráttunni. Uppstillingarnefndir sem slembivaldar voru úr hópi flokksmanna röðuðu upp á framboðslista. Helstu áherslumál flokksins voru kjarabætur fyrir láglaunafólk, öryrkja og eldri borgara, hærri skattar á hæstu tekjur og uppbrot stórútgerða.

(M) Miðflokkurinn

Miðflokkurinn bauð nú í fram í sínum öðrum þingkosningum og sem fyrr undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Flokkurinn hóf síðasta kjörtímabil með sjö þingmenn en Í kjölfar Klaustursmálsins bættust þeir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson við úr Flokki fólksins. Að Gunnari Braga Sveinssyni undanskildum sóttust allir þingmenn flokksins eftir forystusætum á listum flokksins. Stillt var upp á lista í öllum kjördæmum. Uppstillingarnefndir í Reykjavíkurkjördæmunum höfnuðu sitjandi þingmönnum Ólafi Ísleifssyni og Þorsteini Sæmundssyni í þágu þess að hafa fleiri konur í efstu sætum. Ólafur vék sjálfviljugur til hliðar til að „leysa þá pattstöðu sem upp er komin“[19] en fylgismenn Þorsteins voru ekki sáttir við þessar málalyktir þannig að tillaga uppstillingarnefndar var felld á félagsfundi. Í kjölfarið fór fram oddvitakjör um efsta sæti listans þar sem Þorsteinn beið lægri hlut fyrir Fjólu Hrund Björnsdóttur.[20]

(O) Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn var stofnaður á seinni hluta ársins 2020 og var því í framboði til Alþingis í fyrsta skiptið. Stofnandi flokksins og formaður var Guðmundur Franklín Jónsson sem áður hafði verið formaður Hægri grænna sem buðu fram 2013. Guðmundur hafði einnig verið í framboði í forsetakosningunum 2020. Í viðtali við Stundina í febrúar 2020 sagði Guðmundur að flokkurinn myndi verða síðastur til að birta framboðslista sína og stefnumál þar sem frambjóðendur væru margir hræddir við fjölmiðla og þar sem hann óttaðist að aðrir flokkar myndu stela stefnumálum flokksins.[21]

(P) Píratar

Píratar buðu nú fram til Alþingis í fjórða skiptið. Flokkurinn hafði sex þingmenn eftir kosningarnar 2017 en bætti við sig einum manni á miðju kjörtímabili þegar Andrés Ingi Jónsson gekk til liðs við flokkinn en hann hafði verið kjörinn á þing fyrir VG. Flokkurinn hefur ekki eiginlegan formann en þingmenn hans skiptast á að gegna embætti formanns þingflokksins. Halldóra Mogensen var sérstaklega útnefnd sem umboðsmaður flokksins í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum.[22] Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy sóttust ekki eftir endurkjöri. Rafræn prófkjör voru haldin í öllum kjördæmum. Eitt prófkjör var haldið fyrir Reykjavíkurkjördæmin í sameiningu.

(S) Samfylkingin

Samfylkingin hafði verið í stjórnarandstöðu á undangengnu kjörtímabili. Flokkurinn fékk sjö þingmenn í kosningunum 2017 en fjölgaði um einn á kjörtímabilinu þegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk til liðs við flokkinn en hún hafði áður verið þingmaður VG. Þetta voru aðrar þingkosningarnar þar sem Logi Már Einarsson leiddi flokkinn sem formaður. Stillt var upp á lista flokksins í öllum kjördæmum nema Norðvestur þar sem kosið var um efstu fjögur sæti listans á kjördæmisþingi. Í Reykjavíkurkjördæmunum lét uppstillingarnefnd framkvæma skoðannakönnun hjá flokksmönnum um röðun í fimm efstu sætin. Niðurstöður könnunarinnar áttu að vera leynilegar en láku út til fjölmiðlar. Samkvæmt þeim var Ágúst Ólafur Ágústsson, sitjandi þingmaður flokksins, ekki í einu af fimm efstu sætum. Niðurstöður uppstillingarnefndar urðu að Ágúst myndi ekki sitja ofarlega á listum flokksins í Reykjavík og urðu af þessu nokkrar deilur.[23]

(V) Vinstri hreyfingin – grænt framboð

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði leitt ríkisstjórn á undangengnu kjörtímabili þar sem formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, hafði verið forsætisráðherra. Flokkurinn fékk 11 þingmenn kjörna í síðustu kosningum en á kjörtímabilinu gengu tveir þeirra úr þingflokknum og til liðs við aðra flokka vegna óánægju með stjórnarsamstarfið með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Skipað var á lista í öllum kjördæmum með rafrænu forvali. Sameiginlegt forval var í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Athygli vakti að nýliðar höfðu betur gegn sitjandi þingmönnum í oddvitasæti í öllum kjördæmum nema Reykjavíkurkjördæmunum.[24] Óli Halldórsson, sigurvegari forvalsins í Norðausturkjördæmi, baðst þó síðar undan því að leiða listann af persónulegum ástæðum þannig að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir færðist upp í efsta sætið. Einn þingmanna flokksins, Kolbeinn Óttarsson Proppé, bauð sig fram í forvali flokksins í Suðurkjördæmi en hafnaði þar í fjórða sæti. Eftir það hugði hann á framboð í forvalinu í Reykjavík en dró það síðar til baka í ljósi #metoo umræðunnar og þess að kvartað hafði verið undan framkomu hans við fagráð flokksins.[25]

(Y) Ábyrg framtíð

Ábyrg framtíð var stofnuð um sumarið 2021 í kringum andstöðu við sóttvarnaraðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins og efasemdir um bólusetningar. Formaður flokksins var Jóhannes Loftsson en hann var jafnframt oddviti eina framboðslista flokksins, í Reykjavíkurkjördæmi norður. Flokkurinn hafði einnig skilað inn framboðslista með undirskriftum í Suðurkjördæmi en framboðinu var hafnað þar sem undirskriftir voru ekki nógu margar.[26]

Oddvitar

Í töflunni hér að neðan má sjá efstu menn á öllum framboðslistum sem boðnir voru fram í kosningunum:

Flokkur RN RS SV NV NA S
(B) Framsóknarflokkurinn Ásmundur Einar Daðason Lilja Dögg Alfreðsdóttir Willum Þór Þórsson Stefán Vagn Stefánsson Ingibjörg Ólöf Isaksen Sigurður Ingi Jóhannsson
(C) Viðreisn Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Hanna Katrín Friðriksson Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Guðmundur Gunnarsson Eiríkur Björn Björgvinsson Guðbrandur Einarsson
(D) Sjálfstæðisflokkurinn Guðlaugur Þór Þórðarson Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Bjarni Benediktsson Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Njáll Trausti Friðbertsson Guðrún Hafsteinsdóttir
(F) Flokkur fólksins Tómas A. Tómasson Inga Sæland Guðmundur Ingi Kristinsson Eyjólfur Ármannsson Jakob Frímann Magnússon Ásthildur Lóa Þórsdóttir
(J) Sósíalistaflokkur Íslands Gunnar Smári Egilsson Katrín Baldursdóttir María Pétursdóttir Helga Thorberg Haraldur Ingi Haraldsson Guðmundur Auðunsson
(M) Miðflokkurinn Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir Fjóla Hrund Björnsdóttir Karl Gauti Hjaltason Bergþór Ólason Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Birgir Þórarinsson
(O) Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn Guðmundur Franklín Jónsson Glúmur Baldvinsson Hafdís Elva Guðlaugsdóttir Sigurlaug G. I. Gísladóttir Björgvin Egill Vídalín Arngrímsson Magnús Guðbergsson
(P) Píratar Halldóra Mogensen Björn Leví Gunnarsson Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Magnús Davíð Norðdahl Einar Brynjólfsson Álfheiður Eymarsdóttir
(S) Samfylkingin Helga Vala Helgadóttir Kristrún Mjöll Frostadóttir Þórunn Sveinbjarnardóttir Valgarður Lyngdal Jónsson Logi Már Einarsson Oddný Harðardóttir
(V) Vinstri hreyfingin – grænt framboð Katrín Jakobsdóttir Svandís Svavarsdóttir Guðmundur Ingi Guðbrandsson Bjarni Jónsson Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Hólmfríður Árnadóttir
(Y) Ábyrg framtíð Jóhannes Loftsson

Skoðanakannanir

Yfirlit um skoðanakannanir frá kosningunum 2017.

Skoðanakannanir höfðu sýnt miklar fylgissveiflur yfir undangengið kjörtímabil. Sjálfstæðisflokkurinn hafði mælst stærstur yfir allt kjörtímabilið en Samfylkingin næst stærst yfir miðbik tímabilsins. Þegar nær dró kosningum dalaði þó fylgi Samfylkingar í könnunum en fylgi VG og hins nýja Sósíalistaflokks reis. Niðurstöður kosninganna urðu svo nokkuð frábrugðnar skoðanannakönnunum, t.d. var fylgi Sósíalista ofmetið í öllum könnunum í september en fylgi Framsóknarflokks og Flokks fólks vanmetið.

Úrslit kosninganna

FlokkurAtkvæði%Fulltrúar+/–
Sjálfstæðisflokkurinn (D)48.70824,39160
Framsóknarflokkurinn (B)34.50117,2713+5
Vinstri græn (V)25.11412,578-3
Samfylkingin (S)19.8259,936-1
Flokkur fólksins (F)17.6728,856+2
Píratar (P)17.2338,6360
Viðreisn (C)16.6288,335+1
Miðflokkurinn (M)10.8795,453-4
Sósíalistaflokkur Íslands (J)8.1814,100-
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (O)8450,420
Ábyrg framtíð (Y)1440,070
Samtals199.730100,0063
Gild atkvæði199.73097,92
Ógild atkvæði5170,25
Auð atkvæði3.7311,83
Heildarfjöldi atkvæða203.978100,00
Kjósendur á kjörskrá254.58880,12
Heimild: Hagstofa Íslands

Kjörsókn í kosningunum var 80,1% og er það næstversta kjörsókn sem hefur verið í alþingiskosningum á Íslandi.

Úrslit í einstökum kjördæmum

Hlutfallslegt fylgi (%)
Kjördæmi D B V S F P C M
Reykjavík N 20.9 12,3 15,9 12,6 7,7 12,8 7,7 3,5
Reykjavík S 22.8 11,5 14,7 13,3 8,9 10,9 8,6 4,1
Suðvestur 30.2 14,5 12,1 8,1 7,6 8,3 11,4 4,5
Norðvestur 22,5 25,8 11,5 6,9 8,8 6,3 6,2 7,4
Norðaustur 18,5 25,6 12,9 10,5 8,6 5,3 5,4 8,9
Suður 24,6 23,9 7,4 7,6 12,9 5,6 6,2 7,4
Þingsæti
Kjördæmi D B V S F P C M
Reykjavík N 2 1 2 2 1 2 1 0
Reykjavík S 3 1 2 1 1 2 1 0
Suðvestur 4 2 1 1 1 2 2 0
Norðvestur 2 3 1 0 1 0 0 1
Norðaustur 2 3 2 1 1 0 0 1
Suður 3 3 0 1 1 0 1 1

Endurtalningar

Samkvæmt birtum lokatölum úr öllum kjördæmum að morgni 26. september voru niðurstöður þær að 33 konur hefðu náð kjöri til Alþingis en það hefði þýtt að þingið hefði í fyrsta skiptið verið skipað konum að meiri hluta. Það hefði jafnframt orðið í fyrsta skiptið á evrópsku þjóðþingi sem það hefði gerst. Samkvæmt sömu tölum hafði Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður náð kjöri sem jöfnunarmaður og síðasti þingmaður kjördæmisins en það hefðu einnig verið tímamót þar sem hún hefði þá verið yngsti þingmaður sögunnar. Fluttar voru fréttir af því í stórum erlendum fjölmiðlum að konur væru nú í meirihluta á Alþingi. Í kjölfar endurtalningar í Norðvesturkjördæmi á sunnudeginum urðu miklar sviptingar á úthlutun jöfnunarmanna sem urðu til þess að konum sem náð höfðu kjöri fækkaði úr 33 í 30 og þær voru því ekki lengur í meirihluta.[27]

Vinstri græn, Sósíalistar, Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar kröfðust endurtalningar í Suðurkjördæmi vegna þess hve fáum atkvæðum munaði til að breyta úthlutun þingsæta.[28] Niðurstöður þar breyttust ekki við endurtalningu.[29]

Kærumál

Í kjölfar endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi kom fram margþætt gagnrýni á endurtalninguna og framkvæmd hennar. Að sögn Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar í kjördæminu, var ráðist í endurtalningu á öllum atkvæðum vegna þess að í ljós kom misræmi í flokkun atkvæða sem greidd höfðu verið C-lista Viðreisnar.[30]. Eftir endurtalningu breyttust atkvæðatölur allra framboða lítillega en einnig fjöldi auðra og ógildra seðla sem og heildarfjöldi talinna atkvæða með þeim afleiðingum að úthlutun jöfnunarsæta á landsvísu breyttist verulega.[31] Í kjölfar endurtalningar gagnrýndi Magnús Davíð Norðdahl, efsti maður á lista Pírata, það að umboðsmaður listans skyldi ekki hafa verið látinn vita af endurtalningunni og að kjörseðlar skuli ekki hafa verið innsiglaðir eftir að fyrri talningu lauk og þar til hafist var handa við endurtalningu.[32] Formaður yfirkjörstjórnar staðfesti að kjörseðlarnir hefðu verið skildir eftir í talningarsalnum á Hótel Borgarnesi á þessu tímabili og að salurinn hafi einungis verið læstur en ekki innsiglaður og bar það fyrir sig að slíkt hefði aldrei verið gert.[33] Skýrslur yfirkjörstjórna úr öðrum kjördæmum leiddu þó í ljós að Norðvesturkjördæmi var eina kjördæmið þar sem geymslustaður atkvæða var ekki innsiglaður eftir að talningu var lokið.[34]

Landskjörstjórn kom saman 1. október til að úthluta þingsætum og fór þar eftir þeim niðurstöðum sem borist höfðu frá yfirkjörstjórnum í hverju kjördæmi. Landskjörstjórn lét þess þó getið í tilkynningu að að hennar mati hefði: „...ekki borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis á að meðferð og varðveisla kjörgagna á talningarstað í kjördæminu hafi verið fullnægjandi.“ Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár væri það hins vegar eingöngu Alþingi sjálft sem gæti úrskurðað um gildi kosninganna.[35]

Sérstök kjörbréfanefnd Alþingis hefur það hlutverk að rannsaka kosningakærur og gera tillögu til þingsins um samþykkt eða synjun á kjörbréfum nýkjörinna þingmanna. Þar sem hin eiginlega kjörbréfanefnd er ekki kosin fyrr en þing kemur saman komu flokkarnir sér saman um skipun undirbúningsnefndar kjörbréfa og var Birgir Ármannsson formaður hennar.[36] Alls bárust Alþingi 17 kærur vegna kosninganna, þar á meðal 6 kærur frá öllum frambjóðendunum sem hefðu náð kjöri sem jöfnunarmenn ef fyrri tölurnar úr Norðvesturkjördæmi hefðu gilt. Flestar sneru kærurnar að framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi. Rannsókn undirbúningsnefndarinnar fólst m.a. í vettvangsheimsóknum á talningarstað í Borgarnesi, samtölum við vitni og skoðun á gögnum á borð við upptökur úr eftirlitsmyndavélum frá Hótel Borgarnesi. Niðurstöður þeirrar rannsóknar var sú að annamarkar hafi verið á vörslu kjörgagna í talningasalnum í 5-6 klukkustundir eftir að talningu lauk um nóttina og þar til yfirkjörstjórn mætti aftur á talningarstað upp úr hádegi. Á því tímabili höfðu starfsmenn hótelsins aðgang að salnum þar sem talningin fór fram og staðfest var með upptökum úr öryggismyndavélum að fjórir starfsmenn hefðu farið inn í salinn. Kjörgögnin sjálf hafi verið óinnsigluð í kössum og engin myndavélavöktun á því svæði í salnum þar sem þau voru geymd.[37]

Kjörbréfanefnd var hins vegar klofin í afstöðu sinni til þess hvort að þessi ágalli á framkvæmd kosninganna ætti að verða til þess að ógilda kosningarnar í Norðvesturkjördæmi eða jafnvel á landsvísu. Nýkjörið Alþingi greiddi atkvæði um kjörbréf þingmanna 25. nóvember og samþykkti kjörbréf þingmanna úr Norvesturkjördæmi með 42 atkvæðum á móti 5 en 16 sátu hjá. Magnús D. Norðdahl, frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi, boðaði í kjölfarið að hann myndi fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.[38]

Framkvæmd talningarinnar í Norðvesturkjördæmi var einnig kærð til lögreglu. Í október sektaði lögreglustjórinn á Vesturlandi alla yfirkjörstjórn kjördæmisins fyrir það að hafa ekki innsiglað atkvæði eftir talningu líkt og kosningalög gera ráð fyrir. Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórarinnar, skyldi greiða 250 þúsund krónur í sekt en aðrir í yfirkjörstjórn skyldur greiða 150 þúsund. Enginn meðlimur yfirkjörstjórnarinnar greiddi þó þessa sekt þannig að lögreglustjóri þurfti að taka ákvörðun um það hvort að ákæra ætti í málinu eða fella það niður. Í mars 2022 var svo tilkynnt um að málin á hendur yfirkjörstjórninni hefðu verið felld niður þar sem þau þóttu ekki nægilega líkleg til sakfellingar þar sem ekki væri nógu skýrt í nýjum kosningalögum að refsivert væri að innsigla ekki atkvæðin.[39]

Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu

Mannréttindadómstóll Evrópu gaf út dóm sinn vegna talningamálsins þann 16. apríl árið 2024. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn réttinum til frjálsra kosninga og skilvirkra réttarúrræða við alþingiskosningarnar. Ríkið var dæmt til að greiða Guðmundi Gunnarssyni, frambjóðanda Viðreisnar, og Magnúsi Davíð Norðdahl, frambjóðanda Pírata, hvorum fyrir sig andvirði um tveggja milljóna króna.[40]

Markverðir áfangar

Tómas A. Tómasson þingmaður Flokks fólksins er elsti nýliðinn sem kosinn hefur verið á þing eða 72 ára gamall.

Indriði Ingi Stefánsson varaþingmaður Pírata lagði fram fyrstu breytingartillögu við úrskurð lögmætis kjörbréfa.

Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn tveimur vikum eftir kosningar en það er í fyrsta skipti sem að þingmaður skiptir um flokk svo stuttu eftir kosningar.


Fyrir:
Alþingiskosningar 2017
Alþingiskosningar Eftir:
Alþingiskosningar 2024

Tilvísanir

  1. „Stjórnmálin úr sambandi“. 30. nóvember 2020. Sótt 29. október 2024.
  2. Ólafur Þ. Harðarson (30. desember 2022). „Árið 2022 í stjórnmálaspegli“. Heimildin. Sótt 29. október 2024.
  3. „Áfallastjórnun stjórnvalda í Covid-19“ (PDF). Forsætisráðuneytið. 1. október 2022. bls. 445.
  4. Kosið verður til Alþingis 25. september 2021Fréttablaðið, skoðað 24. júli 2020
  5. „Kjördagar 1908–2021: Almennar alþingiskosningar og landskjör“. Sótt 29. október 2024.
  6. [https://www.althingi.is/altext/151/s/1817.html Lög nr. 112 25. júní 2021.
  7. „Kannski eru þjóð­þing ekki rétti aðilinn til að setja kosninga­lög“ - visir.is, 5. ágúst 2021.
  8. „Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar - Dómsmálaráðuneytið“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. október 2021. Sótt 7. október 2021.
  9. [https://www.ruv.is/frett/2021/08/23/kosning-i-kringlu-og-smaralind-hafin Kosning í Kringlu og Smáralind hafin - ruv.is, 23.8.2021
  10. Co­vid-sýktir bíl­eig­endur fá að kjósa á Skarfa­bakka - visir.is, 17.9.2021
  11. Landsflokknum synjað um listabókstaf - RÚV, 9.8.2021
  12. Þrettán listabókstafir á skrá en færri framboð í haust Rúv, skoðað 15. febrúar 2021.
  13. Ásmundur Einar býður sig fram í Reykjavík - Fréttablaðið.is, 13. janúar 2021
  14. Benedikt skekur Viðreisn - Kjarninn, 29.5.2021.
  15. Þórdís Kolbrún sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi - Kjarninn, 20.6.2021
  16. Guðlaugur Þór sigraði - mbl.is, 6.6.2021
  17. Guðlaugur Þór sigrar - Sigríður ekki meðal átta efstu - RÚV, 5.6.2021.
  18. Minni flokkar huga að framboðslistum - RÚV, 16.6.2021.
  19. Ólafur segist leysa pattstöðu með því að bjóða sig ekki fram - Vísir.is, 19.7.2021
  20. Breytt ásýnd Miðflokksins og ákall um fleiri konur - RÚV, 25.7.2021
  21. Segir frambjóðendur nýstofnaðs stjórnmálaafls óttast fjölmiðla - Stundin, 11.2.2021
  22. Halldóru falið að leiða stjórnarmyndunarviðræður - Vísir.is, 28.7.2021
  23. Ill­ska hlaupin í upp­stillingar­nefnd Sam­fylkingar - Vísir.is, 18.1.2021
  24. Stjórn­ar­þing­mönn­um í­trek­að hafn­að - Fréttablaðid, 18.4.2021
  25. Dregur fram­boð sitt til baka í ljósi um­ræðu síðustu daga - Vísir.is, 11.5.2021
  26. Ábyrg framtíð fékk ekki tilskilinn meðmælafjölda í Suðurkjördæmi - Vísir.is, 11.9.2021
  27. Endurtalning: Konur ekki lengur í meirihluta - RUV.is
  28. Fjórir flokkar óska eftir endurtalningu í Suðurkjördæmi - RÚV, 27.9.2021
  29. Engin breyting við endurtalningu í Suðurkjördæmi - RÚV, 28.9.2021
  30. http://landskjor.is/landkjorstjorn/frettir-tilkynningar/tilkynning-um-urslit-kosninga-til-althingis-25.-september-2021-og-uthlutun-thingsaeta
  31. https://www.ruv.is/frett/2021/09/29/mannleg-mistok-breyttu-ollu-fyrir-tiu-frambjodendur
  32. https://www.frettabladid.is/frettir/segir-alvarlega-agalla-a-talningu-atkvaeda/
  33. https://www.frettabladid.is/frettir/kjorgogn-voru-ekki-innsiglud-thad-hefur-aldrei-verid-gert/
  34. https://www.mbl.is/frettir/kosning/2021/09/30/innsiglad_alls_stadar_nema_i_nordvesturkjordaemi/
  35. http://landskjor.is/landkjorstjorn/frettir-tilkynningar/tilkynning-um-urslit-kosninga-til-althingis-25.-september-2021-og-uthlutun-thingsaeta
  36. https://www.visir.is/g/20212165200d/skipta-ut-konu-fyrir-karl-vegna-jafn-rettis-sjonar-mida
  37. „Greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa“. Alþingi, 23. nóvember 2021, [skoðað 2022-04-23].
  38. „Ætlar að fara með kosninga­málið í Norð­vestur­kjör­dæmi fyrir Mann­réttinda­dóm­stólinn“. Visir.is [á vefnum]. 29. nóvember 2022, [skoðað 2022-04-23].
  39. „Mál yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis fellt niður“. RÚV.is [á vefnum]. 14. mars 2022, [skoðað 2022-04-23].
  40. Alexander Kristjánsson (16. apríl 2024). „MDE: Ísland brotlegt vegna talningarmáls í NV-kjördæmi“. RÚV. Sótt 16. apríl 2024.