Adlai Stevenson II

Adlai Stevenson II
Stevenson árið 1961.
Fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum
Í embætti
23. janúar 1961 – 14. júlí 1965
ForsetiJohn F. Kennedy
Lyndon B. Johnson
ForveriJames Jeremiah Wadsworth
EftirmaðurArthur Goldberg
Fylkisstjóri Illinois
Í embætti
10. janúar 1949 – 7. janúar 1953
VararíkisstjóriSherwood Dixon
ForveriDwight H. Green
EftirmaðurWilliam Stratton
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. febrúar 1900
Los Angeles, Kaliforníu, Bandaríkjunum
Látinn14. júlí 1965 (65 ára) London, Englandi
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiEllen Borden (g. 1928; d. 1949)
Börn3
HáskóliPrinceton-háskóli
Northwestern-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Adlai Ewing Stevenson II (5. febrúar 1900 – 14. júlí 1965) var bandarískur stjórnmálamaður og ríkiserindreki sem var fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum frá 1961 til dauðadags árið 1965. Hann var áður 31. fylkisstjóri Illinois frá 1949 til 1953. Stevenson var frambjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna árin 1952 og 1956 en tapaði með miklum mun fyrir Dwight D. Eisenhower í bæði skiptin. Afi Stevensons var Adlai Stevenson I, 23. varaforseti Bandaríkjanna.

Æviágrip

Adlai Stevenson fæddist í Los Angeles í Kaliforníu þann 5. febrúar árið 1900 en bjó meirihluta ævi sinnar í Illinois. Hann var sonarsonur og nafni Adlai Stevenson, sem var varaforseti Bandaríkjanna á síðara kjörtímabili Grovers Cleveland forseta árin 1893–1897. Stevenson gekk í skóla í Bloomington í Illinois og síðar í Wallingford í Connecticut. Hann var í varaliði bandaríska flotans til náms í sjómennsku árið 1918 og lauk prófi frá Princeton-háskóla árið 1922. Á námsárum sínum var hann virkur í félagslífi stúdenta og vann við blaðamennsku. Eftir háskólanám vann hann hjá blaðinu Daily Pantograph, sem afi hans hafði stofnað.[1]

Stevenson nam lögfræði við Harvard-háskóla og Northwestern-háskóla og hóf lögmannsstörf í Illinois árið 1926. Hann ferðaðist mikið um Mið-Evrópu og Sovétríkin sem blaðamaður á næstu árum en sneri síðan aftur að lögfræði, nú í Chicago.[1]

Árin 1933 til 1934 vann Stevenson fyrir landbúnaðarráð Bandaríkjanna í Washington. Hann sneri sér aftur að lögmannsstörfum árið 1934 og rak stóra lögmannsstofu ásamt öðrum en var aftur ráðinn til starfa í Washington árið 1941 sem aðstoðarmaður Franks Knox flotamálaráðherra. Stevenson gegndi þessari stöðu þar til Knox lést árið 1944. Árið 1943 sendi Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti Stevenson til Ítalíu til að stýra sendinefnd til að leggja drög að efnahagsaðstoð fyrir landið eftir seinni heimsstyrjöldina.[1]

Stevenson var fylkisstjóri Illinois frá 1949 til 1953. Hann varð frambjóðandi Demókrataflokksins í tveimur forsetakosningum í röð, árin 1952 og 1956. Í báðum þessum kosningum var andstæðingur Stevensons úr Repúblikanaflokknum hershöfðinginn Dwight D. Eisenhower. Eisenhower var vinsæl stríðshetja úr seinni heimsstyrjöldinni og því var mjög á brattann að sækja fyrir Stevenson í þessum kosningum. Stevenson tapaði báðum forsetakosningunum fyrir Eisenhower með miklum atkvæðamun, en ávann sér þó nokkra virðingu og vakti athygli með mælskusnilld sinni.[2]

Þrátt fyrir að koma fram sem frjálslyndismaður valdi Stevenson stjórnmálamanninn John Sparkman frá Alabama, sem talaði opinskátt fyrir yfirburðum hvíta kynstofnsins, sem varaforsetaefni sitt í kosningunum 1952. Tilraunir til að höfða til kynþáttahaturs í suðurríkjum Bandaríkjanna voru á þessum tíma hluti af kosningabaráttum Demókrata í forsetakosningum.[3]

Eftir að Demókratinn John F. Kennedy var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1960 skipaði hann Stevenson fastafulltrúa Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Kennedy og bandamenn hans höfðu ekki mikið álit á Stevenson þar sem þeir töldu hann „smámunasaman og afkastalítinn“.[4] Robert F. Kennedy, bróðir forsetans, hæddist jafnframt af Stevenson fyrir tilraunir hans til að ráða bug á spillingu í Illinois. John F. Kennedy skipaði Stevenson engu að síður í embættið með semingi þar sem hann þótti of áhrifamikill innan Demókrataflokksins til að hægt væri að sniðganga hann.[5]

Sem fastafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum var Stevenson áberandi á tíma Kúbudeilunnar árið 1962. Í október þetta ár mætti Stevenson á fund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og spurði sovéska erindrekann Valerían Zorín ítrekað hvort Sovétríkin væru búin að koma langdrægum kjarnorkuskotflaugum fyrir á Kúbu. Þegar Zorín, sem hafði ekki verið upplýstur um fyrirætlanir sovéskra stjórnvalda, svaraði að Stevenson myndi „fá [sín] svör í fyllingu tímans“ lét Stevenson falla hin fleygu orð: „Ég er reiðubúinn að bíða þeirra þar til botnfrýs í helvíti.“[5]

Stevenson gegndi embætti fastafulltrúa Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðanna til dauðadags árið 1965.[1]

Heimildir

  • Max Hastings (2023). Kúbudeilan 1962. Þýðing eftir Magnús Þór Hafsteinsson. Reykjavík: Ugla útgáfa. ISBN 9789935218186.

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Adlai Stevenson látinn“. Morgunblaðið. 15. júlí 1965. bls. 23.
  2. Sigurður Bjarnason (19. desember 1962). „„Venus hátt í vestri skín": Skothríðin gegn Adlai Stevenson“. Morgunblaðið. bls. 13.
  3. Hastings 2023, bls. 140.
  4. Hastings 2023, bls. 384.
  5. 5,0 5,1 Hastings 2023, bls. 385.