Varaforseti Bandaríkjanna er efstur á lista embættismanna, sem tekur við forsetaembættinu, ef forseti Bandaríkjanna deyr, segir af sér eða er á einhvern annan hátt leystur frá störfum. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður á um, að varaforsetinn sé einnig forseti öldungardeildar Bandaríkjaþings og megi greiða oddaatkvæði ef atkvæðagreiðsla fellur á jöfnu. Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti beitti þessu valdi sínu átta sinnum á valdatíma sínum, 2001 - 2009. Núverandi varaforseti Bandaríkjanna er Kamala Harris, sem er fyrst kvenna til að gegna embættinu.
Kjörgengi
Tólfti viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna segir, að varaforseti verði að uppfylla sömu skilyrði og forseti, þ.e. að vera 35 ára, að vera fæddur bandarískur ríkisborgari og að hafa búið síðustu 14 árin í Bandaríkjunum, til að vera kjörgengur. Kjörtímabil varaforsetans er hið sama og forsetans. Þeir sverja embættiseið sama dag, varaforsetinn fyrst og síðan forsetinn. Samkvæmt stjórnarskránni er forsetanum óheimilt að sitja lengur en tvö kjörtímabil. Engar slíkar reglur gilda um varaforsetann; hann má sitja eins lengi og hann kýs, eða hefur fylgi til.
Hlutverk og skyldur
Formleg völd og hlutverk varaforseta Bandaríkjanna eru ekki mikil. Um þau segir í stjórnarskrá Bandaríkjanna, að auk þess að taka við forsetaembætti við fráfall eða afsögn forsetans, þá sé hann forseti öldungardeildar þingsins.
Sem forseti öldungardeildarinnar hefur varaforsetinn einkum tvö hlutverk: Annars vegar að greiða oddaatkvæði, ef demókratar og repúblikanar greiða akvæði að jöfnu (50-50) og hinsvegar að hafa umsjón með og staðfesta talningu atkvæða sem kjörmenn hafa greitt í forsetakosningum. Auk þessa, er varaforsetinn yfirmaður NASA og situr í stjórn Smithsonian-stofnunarinnar.
Óformegt vald varaforsetans ræðst fyrst og fremst af sambandi hans við forsetann. Hann er náinn ráðgjafi forsetans og getur því haft töluverð áhrif á gang mála. Hann er oft talsmaður út á við og talar þá fyrir ríkisstjórn landsins.
Dick Cheney var til dæmis einn af nánustu ráðgjöfum George Bush forseta og Al Gore var mikilvægur ráðgjafi Bill Clinton þegar sá síðarnefndi var forseti, 1993 – 2001, og voru það einkum utanríkismál og umhverfismál, þar sem Clinton reiddi sig á ráðgjöf hans.
Þar sem bandaríski forsetinn er bæði þjóðhöfðingi og æðsti maður ríkisstjórnarinnar lenda oft viðhafnarverk tengd því fyrrnefnda á varaforsetanum. Hann mætir gjarnan í jarðarfarir annarra þjóðhöfðingja fyrir hönd forsetans, hittir háttsetta erlenda embættismenn, þjóðhöfðingja og fleira.
Nokkrir Varaforsetar hafa náð kjöri sem forseti án þess að hafa tekið við vegna fráfalls eða afsagnar forseta Bandaríkjanna. Það eru John Adams, Thomas Jefferson, Martin Van Buren, Richard Nixon, George H. W. Bush og núverandi forseti Bandaríkjanna Joe Biden.
Þrír varaforsetar hafa tekið tímabundið við embættisskyldum forseta í fjarveru forsetans. Það eru George H. W. Bush, Dick Cheney og Kamala Harris.
Ef atkvæði falla á jöfnu í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur varaforsetinn heimild til að beita oddaatkvæði við úrlausn máls. Í öldungadeild Bandaríkjaþings sitja tveir þingmenn frá hverju ríki og því hefur tala öldungadeildarþingmanna alltaf verið slétt tala sem gerir það að verkum að atkvæði falla á jöfnu öðru hvoru. Varaforseti Bandaríkjanna er forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings en felur aldursforseta að fara með það vald. Í stjórnarskrá Bandaríkjanna segir að varaforsetinn skuli ekki hafa atkvæðisrétt í öldungadeildinni nema þegar atkvæði þingmanna falla á jöfnu. Í sumum málum þarf aukinn meirihluta (þrjá fimmtu hluta atkvæða eða tvo þriðju hluta atkvæða) og í þeim tilvikum mun ekki reyna á oddaatkvæði ef atkvæði falla á jöfnu.
Kamala Harris hefur beitt oddaatkvæðinu oftast allra varaforseta eða alls 33 sinnum en fyrra metið átti John C. Calhoun sem beitti því 31 sinni en hann hélt metinu í 191 ár. Eftir kosningarnar til öldungadeildar 2020 voru Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn með jafn marga þingmenn sem gerði það að verkum að það reyndi mjög oft á oddaatkvæðið. Demókrataflokkurinn bætti við sig einu þingsæti í kosningunum 2022 og það hefur sjaldnar reynt á oddaatkvæðið síðan þá.