Undir stjórn nasista rak Þýskaland útþenslustefnu í nafni kenningarinnar um landrými (Lebensraum) og ofsótti Gyðinga og önnur þjóðarbrot innan ríkisins á grundvelli hugmynda um arískan uppruna Þjóðverja og nauðsyn þess að viðhalda eða endurheimta „hreinleika“ kynþáttarins. Í nafni þessara hugsjóna stunduðu Þjóðverjar árásargjarna utanríkisstefnu og lögðu nágrannalönd sín undir sig með hervaldi á fyrstu árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Bæði í Þýskalandi og hinum hernumdu löndum var stunduð skipuleg einangrun og fjöldamorð á gyðingum, sígaunum, stríðsföngum, fötluðum, samkynhneigðum og fleiri hópum sem taldir voru ógnun við hinn aríska kynþátt. Morð á gyðingum voru svo víðtæk, kerfisbundin og skilvirk að þau eru nefnd helförin.
Þriðja ríkið náði hátindi sínum á fyrstu árum styrjaldarinnar og Þýskaland varð stórveldi í Evrópu um 1940. Eftir ósigur Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni var Þýskaland og stór hluti Evrópu í rúst og landinu var skipt í tvö ríki: Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland, sem saman náðu yfir mun minna landsvæði en Þýskaland gerði fyrir styrjöldina. Prússland leið formlega undir lok sem sérstakt fylki. Þýsku ríkin tvö sameinuðust svo á ný árið 1990.
Heiti
Opinbert heiti ríkisins var „þýska ríkið“ (þýska: Deutsches Reich) og seinna „stórþýska ríkið“ (Großdeutsches Reich) eftir 1943. Nasistar töluðu gjarnan um „þúsund ára ríkið“ (Tausendjähriges Reich)[1] eða „þriðja ríkið“ (Drittes Reich). Síðastnefnda heitið kemur upphaflega úr bók eftir Arthur Moeller van den Bruck frá 1923,[2] þar sem Heilaga rómverska ríkið (962–1806) er kallað „fyrsta ríkið“ og Þýska keisaradæmið (1871–1918) „annað ríkið“.[3]
Á íslensku hefur ríkið oft verið nefnt Þýskaland nasismans eða Þýskaland Hitlers.
Neðanmálsgreinar
↑Þann 12. júlí 1933 skipaði innanríkisráðherrann Wilhelm Frick að lagið Horst-Wessel-Lied skyldi ávallt spilað á eftir þjóðsöngnum, „Das Lied der Deutschen“, betur þekktum sem Deutschland Über Alles. Tümmler 2010, bls. 63