George McGovern

George McGovern
McGovern árið 1972.
Öldungadeildarþingmaður fyrir Suður-Dakóta
Í embætti
3. janúar 1963 – 3. janúar 1981
ForveriJoseph H. Bottum
EftirmaðurJames Abdnor
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 1. kjördæmi Suður-Dakóta
Í embætti
3. janúar 1957 – 3. janúar 1961
ForveriHarold Lovre
EftirmaðurBen Reifel
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. júlí 1922
Avon, Suður-Dakóta, Bandaríkjunum
Látinn21. október 2012 (90 ára) Sioux Falls, Suður-Dakóta, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiEleanor Stegeberg (g. 1943; d. 2007)
TrúarbrögðMeþódismi
Börn6
HáskóliDakota Wesleyan-háskóli (BA)
Garrett Evangelical Theological Seminary
Northwestern-háskóli (MA, PhD)
Undirskrift

George Stanley McGovern (19. júlí 1922 – 21. október 2012) var bandarískur sagnfræðingur og stjórnmálamaður sem sat um árabil á Bandaríkjaþingi, fyrst á fulltrúadeildinni og síðan á öldungadeildinni fyrir Suður-Dakóta. McGovern var frambjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum 1972 á móti Richard Nixon en galt þar eitt versta afhroð í bandarískri stjórnmálasögu og hlaut aðeins sautján kjörmenn á móti 520 sem Nixon hlaut.[1]

Æviágrip

George McGovern fæddist þann 19. júlí árið 1922 í Suður-Dakóta og var sonur meþódistaprests af skoskum ættum. Hann gekk í skóla í Mitchell fram að tvítugsaldri en skráði sig þá til þjónustu í bandaríska flughernum. Í seinni heimsstyrjöldinni stýrði McGovern sprengjuflugvélum af gerðinni B-24 og flaug alls 35 árásarferðir. Í þeirri þrítugustu var vél McGoverns skotin niður en honum tókst að nauðlenda henni á eyju í Adríahafi. McGovern var sæmdur æðsta heiðursmerki Bandaríkjahers og lauk þjónustu sinni undir lok stríðsins árið 1945.[2]

Að lokinni herþjónustu hóf McGovern nám í Dakota Welseyan-háskólanum og lauk þar BA-prófi í sagnfræði með ágætiseinkunn. Hann útskrifaðist árið 1949 með mastersgráðu frá Northwestern-háskóla í sagnfræði og stjórnvísindum. Hann vann síðan í fjögur ár sem prófessor við Dakota Welseyan og vann að doktorsritgerð sem hann varði síðar við Northwestern-háskólann.[2]

Árið 1945 gekk McGovern í Demókrataflokkinn. Á meðan hann vann við Welseyan-háskóla var hann ráðinn sem framkvæmdastjóri flokksins í Suður-Dakóta og vann eftir það við að endurskipuleggja flokkinn til að bæta gengi hans í fylkiskosningum. Árið 1956 bauð McGovern sig fram á fulltrúadeild Bandaríkjaþings og sigraði sitjandi þingmann Repúblikana. Á þinginu sat McGovern í atvinnu- og menntamálanefnd og lagði þar áherslu á endurbætur á menntakerfinu og aðstoð við bandaríska bændur.[2]

Árið 1960 bauð McGovern sig fram á öldungadeild Bandaríkjaþings en náði ekki kjöri. Í kosningabaráttu sinni talaði McGovern fyrir afvopnun, fyrir viðurkenningu á aðild Alþýðulýðveldisins KínaSameinuðu þjóðunum og afléttingu á kynþáttaaðskilnaði í Bandaríkjunum. Andstæðingar McGoverns úr röðum Repúblikana vændu hann um að vera kommúnisti og um að hyggjast flytja fjölda blökkumanna frá suðurríkjunum til Suður-Dakóta. Jafnframt kom það McGovern í koll að hann studdi framboð Johns F. Kennedy í forsetakosningunum sem fóru fram samhliða þingkosningunum, en íbúar Suður-Dakóta voru flestir fylgjandi Richard Nixon.[3] McGovern lét því af þingstörfum í byrjun ársins 1961 en þegar Kennedy varð forseti Bandaríkjanna réð hann McGovern, sem hafði talað fyrir því á þingi að Bandaríkin deildu umframmatarbirgðum sínum með hungruðum löndum, til að fara fyrir Food for Peace-áætluninni. Áætlunin gekk út á matvælaaðstoð við þróunarlönd og þótti McGovern standa sig vel við stjórn hennar.[2]

McGovern bauð sig aftur fram á öldungadeildina árið 1962 og vann í þetta sinn nauman sigur. Aðeins nokkur hundruð atkvæði skildu að McGovern og keppinaut hans úr Repúblikanaflokknum og McGovern varð þannig fyrsti öldungaþingmaður Demókrata fyrir Suður-Dakóta í rúman aldarfjórðung. Þegar McGovern tók sæti sitt á þinginu varð hann hávær gagnrýnandi Víetnamstríðsins og framgangs Bandaríkjanna í því, sem hann kallaði „tilraun til þjóðarmorðs“.[3]

Á öldungadeildinni varð McGovern návinur Roberts F. Kennedy, sem var myrtur árið 1968 á meðan hann keppti í prófkjöri Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar það ár. Ráðgjafar Kennedy fengu McGovern til að gerast frambjóðandi í hans stað en þá voru aðeins átján dagar eftir af kosningabaráttunni. Að endingu var Hubert Humphrey valinn forsetaframbjóðandi Demókrata en hann tapaði fyrir Richard Nixon í kosningunum í nóvember 1968.[3]

Forsetakosningarnar 1972

McGovern gaf aftur kost á sér í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar 1972. Honum var í fyrstu ekki spáð góðu gengi í forvalinu en honum tókst að vinna sér sterkt grasrótarfylgi meðal frjálslyndra og vinstrisinnaðra Demókrata.[4] McGovern lofaði róttækum efnahagsumbótum, meðal annars skattahækkunum á hina efnameiri, árlegum borgaralaunum til allra Bandaríkjamanna og fjárstyrkjum til fátækra fjölskyldna.[5] McGovern vann að endingu útnefningu flokksins á landsþingi Demókrata þrátt fyrir umtalsverða andstöðu flokksforystunnar. Útnefning hans þótti boða kynslóðaskipti og sveiflu í átt að róttækni og framfarastefnu innan flokksins.[6]

Eitt helsta baráttumál McGoverns í baráttunni gegn Nixon var að flýkka brottflutningi bandarískra hermanna frá Víetnam. Nixon hafði lofað því við forsetakjör sitt að binda enda á Víetnamstríðið og hafði fækkað hermönnum í landinu talsvert, en stríðinu var enn ekki lokið. McGovern sakaði Nixon um að hafa í reynd framlengt Víetnamstríðið um fjögur ár, fórnað bandarískum lífum og fjármunum og framið stríðsglæpi í því eina skyni að halda lífi í einræðisstjórn Nguyễn Văn Thiệu í Suður-Víetnam.[7]

McGovern valdi öldungadeildarþingmanninn Thomas Eagleton frá Missouri sem varaforsetaefni sitt í kosningunum. Valið á varaforsetaefninu varð hins vegar mjög umdeilt þegar upplýst var að Eagleton hafði nokkrum sinnum látið vista sig inn á hæli og gengist undir rafmagnsmeðferðir vegna þunglyndis. Gagnrýnendur McGoverns töldu hann ekki hafa ígrundað val sitt vel og gáfu í skyn að Eagleton myndi ekki vera fær um að gegna starfi Bandaríkjaforseta ef McGovern næði kjöri og létist síðan í embætti. Í fyrstu kom McGovern Eagleton til varnar og sagðist standa „þúsund prósent“ með honum. Að endingu lét McGovern hins vegar undan þrýstingi flokksforystunnar og fékk Eagleton til að draga framboð sitt til baka. Þessi viðsnúningur eftir afdráttarlausar fyrri yfirlýsingar hans varð McGovern til verulegrar háðungar.[6] Í stað Eagletons valdi McGovern Sargent Shriver, sem var sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi og mágur Kennedy-bræðranna, sem varaforsetaefni.[8]

Nixon hafði afgerandi forskot á McGovern í skoðanakönnunum mestalla kosningabaráttuna. McGovern gagnrýndi forsetann án afláts fyrir framgöngu Bandaríkjahers í Víetnam en Nixon forðaðist að mestu að svara honum og stillti sjálfum sér upp sem ópólitískum landsföður.[9] Í kosningunum í nóvember 1972 galt McGovern sögulegt afhroð gegn Nixon og hlaut aðeins sautján kjörmenn á móti 520.[1] Þetta var einn versti kosningaósigur í sögu Bandaríkjanna. Nixon varð hins vegar að segja af sér tveimur árum síðar vegna Watergate-málsins.[10]

Seinni æviár

George McGovern flytur ræðu á forsetabókasafni Richards Nixon árið 2009.

McGovern tapaði endurkjöri á öldungadeildina árið 1980 og lét af þingmennsku í byrjun næsta árs.[11] Hann gaf kost á sér í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar 1984[12] en dró sig til hlés eftir að hann lenti í þriðja sæti í forvalinu í Massachusetts, sem var eina fylkið sem McGovern hafði unnið í kosningunum 1972.[13] Hann vann síðar sem gestaprófessor við ýmsa háskóla og vann um skeið sem sendiherra Sameinuðu þjóðanna í Róm. McGovern lést árið 2012.[10]

Einkahagir

Eiginkona McGoverns frá árinu 1943 var Eleanor Stegeberg, sem hann kynntist í rökræðufélagi í háskóla.[3] Þau gengu í hjónaband árið 1943 og eignuðust fimm börn saman. Hjónaband þeirra entist þar til Eleanor lést árið 2007. Dóttir þeirra, Terry McGovern, þjáðist af áfengissýki og lést árið 1994 þegar hún missti meðvitund í snjóskafli í Wisconsin.[10]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 „George McGovern látinn“. RÚV. 21. október 2012. Sótt 18. júní 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „George McGovern: Hann fetar í fótspor Kennedys“. Morgunblaðið. 13. ágúst 1968. bls. 5.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Hann ætlar að fella Nixon“. Vikan. 12. október 1972. bls. 8-9; 45-48.
  4. „George McGovern“. Morgunblaðið. 17. maí 1972. bls. 16.
  5. „McGovern og efnahagsmálin“. Frjáls verslun. 1. ágúst 1972. bls. 17-19.
  6. 6,0 6,1 Þorsteinn Thorarensen (11. ágúst 1972). „Kleppslimur í forsetastól?“. Vísir. bls. 6-7.
  7. William Willinship (14. nóvember 1972). „Hneykslin hjálpa McGovern“. Morgunblaðið. bls. 16.
  8. „Fyrsti yfirmaður friðarsveitanna“. Morgunblaðið. 9. ágúst 1972. bls. 16.
  9. Haukur Helgason (4. nóvember 1972). „Líkur fyrir skriðu“. Vísir. bls. 6.
  10. 10,0 10,1 10,2 „George McGovern látinn“. mbl.is. 21. október 2012. Sótt 18. júní 2021.
  11. Þórarinn Þórarinsson (6. nóvember 1980). „Þekktir menn hverfa af Bandaríkjaþingi“. Tíminn. bls. 6.
  12. Tryggvi Felixson (9. mars 1984). „Jackson og McGovern á leið í Hvíta húsið?“. Þjóðviljinn. bls. 6.
  13. „Hart sigraði í 3 fylkjum og hefur nú forystu“. Dagblaðið Vísir. 14. mars 1984. bls. 9.