Ellert Borgar Þorvaldsson

Ellert Borgar Þorvaldsson
Fæddur
Ellert Borgar Þorvaldsson

12. maí 1945 (1945-05-12) (79 ára)
Þekktur fyrirSkólastjóri Ártúnsskóla (1987-2006)
Meðlimur hljómsveitarinnar Randver (1978-?)

Ellert Borgar Þorvaldsson (fæddur 12. maí 1945) er íslenskur athafnamaður, kennari, stjórnmálamaður, tónlistarmaður og fyrrverandi skólastjóri Ártúnsskóla.

Ellert útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands og starfaði sem kennari í nokkurn tíma áður en hann varð fyrsti skólastjóri Ártúnsskóla árið 1987 en þar vann hann í 19 ár. Árið 2006 hlaut Ártúnsskóli íslensku menntaverðlaunin og hlaut Ellert sérstaka viðurkenningu fyrir stjórnun skólans.

Ellert hefur verið í hljómsveitunum Pónik á námsárum sínum í Kennaraháskólanum og seinna í hljómsveitinn Randver sem hann stofnaði ásamt samkennurum sínum í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.

Árin 2002 til 2004 sat Ellert í stjórn Regnbogabarna. Hann hefur einnig setið í dómnefnd stóru upplestrarkeppni Reykjavíkur sem formaður dómnefndar nokkur ár í röð.

Ævisaga

Æska

Ellert fæddist þann 12. maí árið 1945 á Eskifirði. Foreldrar hans voru Þorvaldur Friðriksson, sjálflærður harmonikkuspilari og lagasmiður, og Kristín Pétursdóttir og var Ellert næstelstur fjögurra barna þeirra. Fjölskyldan var tónelsk og ólst Ellert upp við tónlistariðkun og fóru bræðurnir snemma að spila í hljómsveitum eystra.[1]Hann söng oft með eldra fólkinu og var farinn að radda 10 ára gamall og fékk þá að vera lengur á fótum en endranær.[2]

Unglingsárin

Árið 1960 stofnuðu Ellert og eldri bróðir hans, Haukur Helgi hljómsveit ásamt fjórum öðrum. Hljómsveitin var kölluð Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar. Þeir spiluðu á klarinett, trompet, gítar, píanó, bassa og trommur og héldu tónleika með ýmsum atriðum inn á milli. [3]

Ellert spilaði í fleiri hljómsveitum, meðal annars í hljómsveitinni Ómar. Þeir spiluðu alveg þindarlaust á sumrin á síldarböllum allt að fimm til sex kvöld á viku eftir fulla vinnudaga. [4]

Kennaraárin

Eftir að Ellert lauk landsprófi þá var hann enn óviss hvað hann ætlaði að vera, „Það kom tvennt til greina, að verða prestur eða kennari.“ Að lokum ákvað Ellert að hefja nám við Kennaraháskóla Íslands og lauk hann kennaraprófi árið 1967 og fór hann þá austur á land og kenndi fyrsta árið eftir það við grunnskólann á Eskifirði og tók síðan við stjórn skólans.

Vorið 1972 ákváðu Ellert og konan hans, Erna, að flytjast til Hafnarfjarðar og um haustið það ár hóf hann störf við Öldutúnsskóla þar sem að hann kenndi til ársins 1978. Sama ár varð Ellert varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann tók einnig við starfi skólafulltrúa Hafnarfjarðar.

Ellert starfaði á Skólaskrifstofunni til ársins 1987 þegar að hann varð skrifstofustjóri á Fræðsluskrifstofu Reykjanes í nokkra mánuði þangað til að honum gafst kostur á að taka við Ártúnsskóla sem að var þá bara á teikniborðinu. „Starfið sem skólafulltrúi eða skrifstofustjóri gaf mér ekki nóg og mér fannst ég þurfa að vera meira úti á akrinum,“ sagði Ellert í viðtali við Morgunblaðið árið 2006. Á þeim árum var Ellert líka í pólitíkinni en engu að síður langaði honum mikið að vinna með börnum.

Randver

Veturinn 1974 stofnuðu Ellert Borgar og fjórir aðrir kennarar úr Öldutúnsskóla hljómsveitina Randver fyrir árshátíð skólans. Ellert Borgar spilaði á bassa og söng en hinir meðlimir hljómsveitarinnar voru Guðmundur Sveinsson, Jón Jónasson, Ragnar Gíslason og Sigurður R. Símonarson. Atriði þeirra sló í gegn og fljótlega voru þeir komnir á kaf í skemmtanabransanum. Nafn sveitarinnar tók nokkrum breytingum fyrst um sinn en að lokum festist nafnið Randver, úr skáldsögunni Barn náttúrunnar eftir Halldór Laxness, við hljómsveitina. Fyrsta plata þeirra, „Randver“, kom út árið 1975 og var mjög vinsæl. Seinna gáfu þeir út tvær aðrar plötur, „Aftur og nýbúnir“ frá árinu 1977 og „Það stendur mikið til“ árið 1978. Eftir að sú plata kom út hætti Ellert að kenna við Öldutúnsskóla og fór hann að vinna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Þá ákváður Randver-menn að taka sér langt hlé en hljómsveitin kom saman aftur árið 1993. Þá fóru þeir að skemmta aftur á nokkrum hátíðum og lengi stóð það til að safna saman vinsælustu lögum sveitarinnar og gefa þau út á geisladisk. Platan, „Aftur og loksins búnir“, kom út árið 2003 og varð hún sú síðasta sem að hljómsveitin gaf út. [5][6][7][8]

Tenglar

Ártúnsskóli
Vefsíða ártúnsskóla

Heimildir

  1. Starfsmaður Morgunblaðsins (1. ágúst 2003), http://timarit.is/files/7903110.pdf#navpanes=1[óvirkur tengill], Morgunblaðið
  2. Unnur H. Jóhannsdóttir (9. júlí 2006), http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1092018, Morgunblaðið
  3. Starfsmaður Fréttablaðsins (10. apríl 2010), http://epaper.visir.is/media/201004100000/pdf_online/1_44.pdf Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, Fréttablaðið
  4. Unnur H. Jóhannsdóttir (9. júlí 2006), http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1092018, Morgunblaðið
  5. Jón Jónasson (2007), http://notendur.hi.is/jonjonas/ahugi.htm[óvirkur tengill]
  6. Tonlist.is (2003), http://www.tonlist.is/Music/Album/4481/randver/aftur_og_loksins_bunir/
  7. Jens Guð (2. mars 2008), http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/462710/, Blog.is
  8. Tonlist.is (2003), https://web.archive.org/web/20100830023112/http://www.tonlist.is/Music/ArtistBiography/4212/randver/