89 á stöðinni

89 á stöðinni var heitið á fyrstu þáttaröð og hluta af annari þáttaröð Spaugstofunnar. Þættirnir voru sýndir í Ríkissjónvarpinu dagana 21. janúar 1989 - 16. desember 1989. Þættirnir voru alls 24 talsins. Fyrst komu út 16 þættir í byrjun ársins 1989 (21. janúar - 13. maí 1989), og eru þeir einungis taldir vera fyrsta þáttaröðin, og átta í lok ársins (28. október - 16. desember), sem að teljast inn í aðra þáttaröðina. Spaugstofuna skipuðu á þessum tíma Karl Ágúst Úlfsson, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Randver Þorláksson og Örn Árnason. Þann 6. janúar 1990 hófu svo framhaldsþættirnir 90 á stöðinni göngu sína, sem að eru í annari þáttaröðinni einnig.

Þættirnir sýndu helstu málefni líðandi stundar í spaugilegu ljósi. Meðal viðfangsefna Spaugstofunnar í þáttunum var þegar sala bjórs var lögleidd þann 1. mars 1989, íþróttir (skák, billiard, handbolti og fimleikar), fannfergi á Norðurlandi, kennaraverkfall, Söngvakeppni Sjónvarpsins, hvalveiðimálið, mál tengd Ölduselsskóla, virðisaukaskattur, vetrardagskrá Sjónvarpsins, olíuleki, sprenging í Reykjavík, loðnuveiðar auk annarra smærri frétta sem þá voru ofarlega á baugi. Frægustu karakterar Spaugstofunnar voru Ragnar Reykás, Kristján Ólafsson, Bogi og Örvar, Krummi, Geir og Grani og Matargats-kokkurinn Sigmar. Helstu fréttamenn þáttanna voru karakterarnir Pétur Teitsson, Ófeigur Bárðarsson, Gunnlaugur Skarann, Erlendur Sigrtyggsson og Óskar.

Haustið 2018 hóf Ríkisútvarpið að endursýna alla þætti Spaugstofunnar. 89 á stöðinni var fyrst í endursýningum.