Sumarólympíuleikarnir 1908

Frægasta atvik leikanna varð þegar Dorando Pietri var hjálpað yfir marklínuna í maraþonhlaupinu.

Sumarólympíuleikarnir 1908 voru haldnir í London 27. apríl til 31. október 1908. Þetta teljast fjórðu formlegu Ólympíuleikar nútímans, en leikarnir 1906 teljast í dag ekki fullgildir Ólympíuleikar. Íslendingar tóku í fyrsta sinn þátt í þessum leikum, sendu sýningarhóp glímumanna á vettvang auk þess sem Íslendingur var í danska keppnisliðinu í fangbrögðum.

Aðdragandi og skipulag

Upphaflega stóð til að halda leikana í Róm en eldgos í Vesúvíusi sem olli miklu tjóni í Napólí varð til þess að staðnum var breytt. Sérstakur leikvangur, White City Stadium sem tók 68.000 manns í sæti, var reistur fyrir leikana.

Skráning þátttakenda var einungis leyfð í gegnum ólympíunefndir þátttökulandanna eins og verið hafði á leikunum 1906. 22 ólympíunefndir tóku þátt og liðin gengu flest inn á leikvanginn með þjóðfána. Finnar hefðu átt að ganga undir fána Rússlands þar sem Finnland var þá hluti af Rússneska keisaradæminu en þeir neituðu heldur að taka þátt í opnunarathöfninni. Hið sama gerðu Svíar þar sem gleymst hafði að setja sænska fánann upp við leikvanginn.

Keppnisgreinar

Keppt var um 110 gullverðlaun í 24 íþróttaflokkum. (Fjöldi gullverðlauna gefinn upp í sviga.)

Þáttakendur

Einstakir afreksmenn

Guðfræðineminn Smithson í hlaupabúningi með Biblíu í hönd á Ólympíuleikunum 1908.

Suður-Afríkumaðurinn Reggie Walker varð yngstur allra sigurvegara Ólympíusögunni í 100 metra hlaupi, 19 ára og 128 daga gamall.

Bandaríski guðfræðineminn Forrest Smithson sigraði í 110 metra grindahlaupiá nýju heimsmeti, 15,0 sekúndum. Afrekið var þeim mun meira í ljósi þess að hlaupið var á grasi en ekki hefðbundinni hlaupabraut.

Fræg uppstillt ljósmynd af Smithson á leikunum sýnir hann með Biblíu í hönd. Vegna hennar varð til sú flökkusögn, sem ratað hefur inn í fjölda bóka um sögu Ólympíuleikanna, að Smithson hafi verið ósáttur við að þurfa að hlaupa úrslitahlaupið á sunnudegi, en gert þá málamiðlun við sjálfan sig að hlaupa með hina helgu bók. Í raun fór hlaupið fram á laugardegi.

Hjónin Madge og Edgar Myers sigruðu í parakeppni í listdansi á skautum.

Keppnin í Maraþonhlaupi varð hádramatísk. Ítalinn Dorando Pietri kom fyrstur inn á leikvanginn, aðframkominn af þreytu og vatnsskorti. Hann byrjaði á að hlaupa í ranga átt og féll síðan nokkrum sinnum til jarðar, en starfsmenn mótsins hjálpuðu honum á fætur og studdu yfir marklínuna. Fyrir vikið var Pietri dæmdur úr leik og kom gullið í hlut Bandaríkjamannsins Johnny Hayes. Pietro varð þó hetja keppninnar. Honum var veittur sérstakur silfurbikar og tónskáldið Irving Berlin samdi tónverk honum til heiðurs.

Keppt var í kappgöngu í fyrsta sinn á þessum leikum. Bretinn George Lamer fór með sigur af hólmi í báðum keppnisvegalengdunum: 3.500 metrum og 10 mílum.

Leikarnir í Lundúnum voru þeir fyrstu sem innihéldu vetraríþróttir. Keppt var í skautadansi nokkrum mánuðum eftir að aðalhluta leikanna lauk.

Tvö lið voru skráð til keppni í ruðningi. Ástralska landsliðið keppti undir merkjum Ástralasíu (sameiginlegs liðs Ástralíu og Nýja Sjálands) og lið frá Cornwall, sem var fulltrúi Bretlands. Ástralarnir sigruðu vandræðalítið, 32:3.

Bretar fóru með sigur af hólmi í knattspyrnukeppninni, lögðu Dani í úrslitaleiknum. Í undanúrslitum höfðu Danir unnið Frakka 17:0 þar sem Sophus "Krølben" Nielsen skoraði tíu mörk. Það var um áratuga skeið heimsmet í landsleik í knattspyrnu.

Þátttaka Íslendinga á leikunum

Sú hugmynd að Ísland tæki þátt í Ólympíuleikunum í Lundúnum mun hafa komið fram á félagsfundi Ungmennafélags Akureyrar snemma árs 1907. Formaður félagsins, Jóhannes Jósefsson, var um þær mundir einn kunnast glímukappi Íslands og tók hugmyndinni opnum örmum. Auk þess að vera glímukóngur Íslands, hafði Jóhannes kynnt sér erlendar tegundir fangbragða og hélt út til æfinga í grísk-rómverskri glímu sumarið 1907, með það að markmiði að keppa á Ólympíuleikum.

Þátttaka Íslands var vandkvæðum háð, enda landið ekki sjálfstætt og hafði því ekki eigin Ólympíunefnd. Fyrir milligöngu Einars Benediktssonar skálds og athafnamanns fékkst hins vegar grænt ljós frá skipuleggjendum leikanna þess efnis að Ísland sendi hóp manna til að sýna íslenska glímu. Sjálfur bjóst Jóhannes við að keppa í grísk-rómverskri glímu.

Úr varð að Íslendingarnir fengu að ganga inn á völlinn undir eigin merkjum, en Jóhannes þurfti að keppa fyrir hönd danska liðsins. Aðrir í íslenska glímuhópnum voru: Hallgrímur Benediktsson, Guðmundur Sigurjónsson, Sigurjón Pétursson, Páll Guttormsson, Jón Pálsson og Pétur Sigfússon. Var góður rómur gerður að glímusýningunni, en einnig sýndi hópurinn íslenska glímu í leikhúsi í Lundúnum í nokkur skipti að leikunum loknum.

Jóhannes Jósefsson keppti í millivigtarflokki í grísk-rómversku glímunni og hóf keppni í 16-manna úrslitum. Hann vann góða sigra í tveimur fyrstu viðureignunum, en viðbeinsbrotnaði í undanúrslitaviðureign gegn Svíanum Mauritz Andersson og hafnaði því í fjórða sæti, sem var besti árangur Íslendings á Ólympíuleikum til ársins 1956.

Verðlaunaskipting eftir löndum

Verðlaunaskjal sem afhent var öllum verðlaunahöfum Ólympíuleikanna 1908.
Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1  Bretland 56 51 38 145
2 Bandaríkin 23 12 12 47
3  Svíþjóð 8 6 11 25
4  Frakkland 5 5 9 19
5 Þýskaland 3 5 6 14
6 Ungverjaland 3 4 2 9
7 Kanada 3 3 10 16
8  Noregur 2 3 3 8
9 Ítalía 2 2 0 4
10  Belgía 1 5 2 8
11 Ástralasía 1 2 2 5
12  Rússland 1 2 0 3
13 Finnland 1 1 3 5
14 Breska Suður-Afríka 1 1 0 2
15 Grikkland 0 3 0 3
16  Danmörk 0 2 3 5
17 Bæheimur 0 0 2 2
Holland 0 0 2 2
19 Austurríki 0 0 1 1
Alls 110 107 106 323