Róbert 1. (11. júlí1274 – 7. júní1329) eða Róbert Bruce (enska: Robert the Bruce) var skoskur aðalsmaður, frægur stríðsmaður, leiðtogi Skota í frelsisstríði þeirra gegn Englendingum og konungur Skotlands frá 1306 til dauðadags. Hann er talinn þjóðhetja í Skotlandi.
Uppruni og erfðatilkall
Róbert var elsti sonur Róberts de Brus, lávarðs af Annandale, og konu hans Marjorie, greifynju af Carrick. Hún var mikill kvenskörungur og er sagt að hún hafi haldið föður hans föngnum þar til hann féllst á að kvænast henni. Þau áttu fjölda barna auk Róberts: Synirnir voru Játvarður, Alexander, Thomas og Neil og dæturnar Christina, Ísabella Noregsdrottning, kona Eiríks prestahatara, Margaret, Matilda og Mary, sem var fönguð og flutt til Englands árið 1306 og höfð þar í búri, almenningi til sýnis, í fjögur ár.
Frá móður sinni erfði Róbert jarldæmið Carrick þegar hún lést 1292 en gegnum föður sinn taldi hann sig eiga erfðarétt að skosku krúniunni þar sem faðirinn var afkomandi Davíðs 1. Skotakonungs. Í erfðadeilunni sem reis eftir lát hinnar barnungu Margrétar drottningar árið 1290 tókst fjarskyldum frænda Róberts, Jóhanni Balliol, að fá sig tekinn til konungs. Feðgarnir hófu fljótlega baráttu gegn honum. Þeir sóru Játvarði 1. Englandskonungi hollustu í ágúst 1296 en töldu hann svo hafa svikið sig og Róbert yngri studdi uppreisn Skota gegn honum ári síðar. Jóhann Balliol hafði þá sagt af sér og Róbert Bruce og John Comyn, náfrændi Balliols, voru saman útnefndir ríkisstjórar Skotlands. Samkomulag þeirra var þó ekki gott, enda töldu þeir sig báðir eiga tilkall til krúnunnar. Árið 1299 var biskupinn af St. Andrews útnefndur þriðji ríkisstjórinn til að reyna að halda frið milli hinna tveggja. Bruce sagði þó af sér árið eftir og hinir árið 1301.
Játvarður 1. réðist inn í Skotland í júlí það ár og var það sjötta innrás hans. Vopnahlé var þó samið í janúar 1302. Um það leyti var á kreiki orðrómur um að Jóhann Balliol, sem var í útlegð í Frakklandi, yrði aftur settur á konungsstól og raunar munu margir aðalsmenn hafa stutt það. Þó varð ekkert af því.
Játvarður gerði enn eina innrásina árið 1303 og varð vel ágengt; í febrúar árið eftir höfðu allir leiðtogar Skota nema William Wallace (Braveheart) beygt sig undir vald hans. Þeir samþykktu að öll lög skyldu vera eins og verið hafði á ríkisárum Alexanders 3. og þeim mætti ekki breyta án þess að bera þau undir Játvarð. Frændi Játvarðs, jarlinn af Richmond, átti að leiða stjórn Skotlands sem yrði undir Játvarð gefin. Um sumarið var William Wallace svo handtekinn nálægt Glasgow og tekinn af lífi í London 23. ágúst.
Konungur
Þótt Róbert Bruce hefði svarið Játvarði hollustu virðist Játvarður ekki hafa treyst honum, heldur grunað hann um græsku, enda hafði hann ýmist stutt Englendinga eða Skota í átökum undangenginna ára. Róbert taldi tilkall sitt til skosku krúnunnar ótvírætt og áleit sig rétta manninn til að leiða baráttuna gegn yfirráðum Englendinga en margir Skotar treystu honum ekki heldur og þar stóð andstæðingur hans og keppinautur, John Comyn, betur að vígi þar sem hann hafði staðið mun harðar gegn Englendingum og erfðatilkall hans var að minnsta kosti jafnsterkt og tilkall Bruce.
Margt er óljóst um atburðarásina en svo mikið er víst að þegar Robert Bruce var við ensku hriðina síðsumars 1305 ætlaði Játvarður konungur að láta handtaka hann, en tengdasonur konungs, Ralph de Monthermer, sem var vinur Róberts, varaði hann við svo að hann náði að flýja og komst norður til Skotlands. Þann 10. febrúar1306 hittust þeir Comyn á fundi í Grábræðrakirkjunni í Dumfries og þar kom til átaka á milli þeirra og Róbert drap Comyn fyrir framan háaltari kirkjunnar. Hann flýtti sér síðan til Glasgow, játaði voðaverkið og vanhelgun kirkjunnar fyrir Robert Wishart biskupi og fékk aflausn. Wishart gaf klerkum landsins fyrirmæli um að styðja Róbert. Þrátt fyrir það var hann fallinn í bann af verknaði sínum. Hann sá þá að nú væri að hrökkva eða stökkva og setti fram tilkall sitt til krúnunnar. Fáir urðu til andmæla og hann var krýndur konungur Skota 25. mars.
Skæruliðaforingi
Ekki blés byrlega fyrir hinum nýja konungi fyrst í stað í átökum við Englendinga. Hann tapaði hverri orrustunni af annarri. Kona hans, dóttir og systur voru teknar til fanga og sendar til Englands, þar sem þær áttu illa vist. Bróðir hans var tekinn til fanga og líflátinn. Sjálfur flúði Róbert ásamt tryggustu fylgismönnum sínum út í eyjar við strönd Skotlands. Þeir sneru aftur til meginlandsins í febrúar árið eftir og hófu þar skæruhernað. Tveir bræðra Róberts til viðbótar náðust og voru líflátnir, en smám saman fór honumað ganga betur í baráttu sinni við Englendinga og aðra óvini sína, þar á meðan John Comyn, son hins gamla fjandmanns síns. Í maí vann hann sigur á liði Comyns í orrustunni við Inverurie og sigraði síðan setulið Englendinga í Aberdeen.
Róbert reyndist afar snjall skæruliðaforingi. Í ágúst 1309 réði hann öllu norðanverðu Skotlandi og ári síðar viðurkenndi skoska kirkjan hann sem konung á kirkjuþingi þótt hann væri enn í banni. Næstu árin vann hann hvern sigurinn á fætur öðrum og fór jafnvel herferðir inn í Norður-England. Endahnúturinn var svo rekinn á þessa baráttu í orrustunni við Bannockburn 1314. Hernaðarsigrar Róberts stigu honum til höfuðs og hann sendi herlið til Írlands. Hann sagðist vilja hjálpa Írum í baráttu þeirra gegn Englendingum en sá um leið sjálfan sig eða ætt sína fyrir sér sem þjóðhöfðingja allra gelískra landa. Bróðir hans, Játvarður Bruce, var kjörinn yfirkonungur Írlands en þeim gekk þó ekki nægilega vel að fá Íra á sitt band og þegar Játvarður féll í orrustunni við Faughart14. október1318 var draumurinn úti.
Fjölskylda
Róbert giftist fyrst 1295 Ísabellu af Mar, dóttur hertogans af Mar, og er sagt að þau hafi verið afar ástfangin hvort af öðru. Hjónabandið var skammvint því Ísabella dó af barnsförum 19 ára að aldri í desember 1296. Barnið var stúlka, Marjorie Bruce. Hún dó einnig 19 ára eftir að hafa fætt barn.
Seinni kona Róberts, sem hann giftist 1302, var Elizabeth de Burgh, sem samkvæmt sumum heimildum var aðeins um 13 ára að aldri. Hún var fönguð sumarið 1306, ekki löngu eftir krýningu þeirra hjónanna, og flutt til Englands ásamt Marjorie stjúpdóttur sinni og mágkonum, Christina og Mary, og höfð þar í haldi í átta ár. Þá var hún látin laus í fangaskiptum eftir orrustuna við Bannockburn. Þau Róbert áttu þrjú börn sem komust upp, soninn Davíð 2. Skotakonung og dæturnar Matilda og Margaret.
Róbert átti líka allmörg lausaleiksbörn en um mæður þeirra er ekkert vitað. Hann lést 7. maí 1329 og hafði átt við veikindi að stríða um tíma. Lík hans var grafið í Dumferline-klaustri.