Háskólinn í Complutense í Madríd Háskólinn í Brussel Háskólinn í Navarra Háskóli Camilo José Cela
Starf
Stjórnmálamaður
Undirskrift
Pedro Sánchez Pérez-Castejón er spænskur hagfræðingur og stjórnmálamaður sem er núverandi forsætisráðherra Spánar.
Sánchez tók embætti 2. júní, 2018 þegar vantrausti var lýst á Mariano Rajoy þáverandi forsætisráðherra.
Hann hefur unnið sem aðstoðarmaður þingmanna á Evrópuþinginu, borgarfulltrúi í Madríd og aðalritari Spænska sósíalistaflokksins. Hann hefur jafnframt verið forseti Alþjóðasambands jafnaðarmanna frá árinu 2022. Sánchez er með doktorsgráðu í hagfræði og hefur kennt sem háskólaprófessor.
Sanchez talar frönsku og ensku reiprennandi. Hann er trúleysingi og ákvað að sverja ekki við biblíuna við embættistöku sína heldur við spænsku stjórnarskrána.
Í júní árið 2018 samþykkti Sánchez að taka við um 629 flóttamönnum sem björgunarskipið Aquarius hafði bjargað undan strönd Líbíu. Flóttamönnunum hafði áður verið neitað um hæli á Ítalíu og á Möltu og höfðu þeir því verið á siglingu um Miðjarðarhafið á yfirtroðnu björgunarskipinu í um viku. Sánchez sagði það „[skyldu] okkar að koma í veg fyrir stórslys og bjóða þessu fólki örugga höfn, og verða þannig við okkar skyldu í mannúðarmálum“.[1]
Ríkisstjórn Sánchez viðraði snemma áætlanir um að láta flytja lík einræðisherrans Francisco Franco úr ríkisfjármögnuðu grafhýsi í Dal hinna föllnu.[2] Endurgreftrunin var framkvæmd þann 24. október árið 2019 þrátt fyrir andstöðu afkomenda og aðdáenda Francos.[3]
Í febrúar árið 2019 hafnaði spænska þingið fyrsta fjárlagafrumvarpi Sánchez. Sánchez neyddist því til að rjúfa þing og kalla til þingkosninga.[4] Kosningar voru haldnar þann 28. apríl og í þeim stórjók Sósíalistaflokkurinn fylgi sitt. Sósíalistar hlutu tæp þrjátíu prósent atkvæða og urðu stærsti flokkurinn á spænska þinginu.[5][6]
Þrátt fyrir kosningasigurinn tókst Sánchez ekki að afla sér nægs stuðnings á spænska þinginu til að mynda nýja ríkisstjórn. Þegar kosið var um ríkisstjórn á þinginu þann 25. júlí var Sánchez hafnað.[7] Þar sem Sánchez tókst ekki að semja um stofnun ríkisstjórnar var kallað til nýrra kosninga þann 17. september 2019.[8] Þegar nýjar kosningar voru haldnar þann 10. nóvember tapaði Sósíalistaflokkurinn þremur þingsætum en var áfram stærsti flokkurinn á þinginu.[9] Þann 7. janúar 2020 kaus spænska þingið með naumum meirihluta að styðja Sánchez áfram sem forsætisráðherra. Sánchez stofnaði minnihlutastjórn Sósíalíska verkamannaflokksins og Podemos, en þetta er fyrsta samsteypustjórn Spánar frá endurreisn lýðræðisins árið 1975.[10]
Sósíalistar lentu í öðru sæti á eftir Þjóðarflokknum í júlí 2023 en enginn flokkur náði meirihluta á þinginu.[11] Stjórnarkreppa ríkti næstu mánuði á Spáni en í nóvember gerði Sánchez samkomulag við flokk aðskilnaðarsinna í Katalóníu um að þeir myndu styðja áframhaldandi stjórn sósíalista. Sánchez náði fram samkomulaginu með því að lofa að veita leiðtogum katalónskra sjálfstæðissinna sem höfðu staðið að ólöglegri sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu árið 2017 sakaruppgjöf.[12]