Marokkóska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Marokkó í knattspyrnu. Liðið hefur tekið þátt á fimm heimsmeistaramótum, og hafa unnið Afríkubikarinn einu sinni.
Saga
Konungsríkið Marokkó var stofnsett árið 1956, en fram að því höfðu Frakkar og Spánverjar farið með yfirráð á svæðinu. Óopinbert marokkóskt landslið hafði verið sett saman þegar árið 1928 og keppt m.a. við b-landslið Frakka og síðar sambærileg úrvalslið frá Alsír og Túnis, engin þessara viðureigna telst þó opinber landsleikur. Í kjölfar mannskæðra jarðskjálfta árið 1954 var efnt til fjáröflunarleiks í París milli franska landsliðsins og úrvalsliðs leikmanna frá Marokkó, Alsír og Túnis með Larbi Benbarek í broddi fylkingar. Leiknum lauk með sigri úrvalsliðsins. Ekkert framhald varð á leikjum þessa sameinaða liðs enda braust sjálfstæðisstríð Alsír út nokkrum vikum síðar sem lauk með sjálfstæði Alsír árið 1962.
1957-63: Fyrstu skrefin
Knattspyrnusamband Marokkó var stofnað árið 1955. Tveimur árum síðar tefldi þjóðin fram landsliði á Arabaleikunum sem fram fóru í Líbanon. Mótherjarnir í fyrstu viðureigninni voru Írakar og lauk henni með 3:3 jafntefli. Marokkó fór alla leið í undanúrslitin á þessu fyrsta móti sínu en tapaði á hlutkesti gegn Sýrlendingum og endaði að lokum í fjórða sæti.
Árið 1959 tók Marokkó þátt í forkeppni Ólympíuleikanna í Róm og gerðist aðili að FIFA. Árið eftir hóf liðið leik í forkeppni HM 1962. Þar vann Marokkó sigur á Túnis (á hlutkesti) og því næst Gana í tveimur leikjum og uppskar að launum umspilsleiki við Spánverja. Fyrri leiknum í Casablanca lauk með 0:1 sigri Spánverja, sem unnu heimaleikinn einnig 3:2. Larbi Benbarek stýrði liðinu í þessum leikjum.
Marokkómenn voru gestgjafar á Arabaleikunum 1961 og unnu knattspyrnukeppnina með því að vinna alla sína leiki. Þar á meðal vannst 13:1 sigur á Sádi-Arabíu sem enn í dag er stærsti sigur landsliðsins. Sama ár vann Marokkó fyrstu leiki sína gegn evrópskum andstæðingum þegar Austur-Þjóðverjar voru lagðir í tvígang.
1964-72: Á stóra sviðinu
Fyrsta úrslitakeppni stórmóts sem marokkóska landsliðið tók þátt í var á Ólympíuleikunum 1964 í Tókýó. Liðið reyndist lítil fyrirstaða fyrir stórlið Ungverja og Júgóslava. 6:0 tapið gegn Ungverjum er enn stærsti ósigur Marokkó á knattspyrnuvellinum.
Ekkert Afríkuland tók þátt í forkeppni HM 1966 vegna deilna um aðskilnaðarstefnu Suður-Afríkustjórnar. Marokkó lék því sína fyrstu forkeppnisleiki fyrir HM 1970 í Mexíkó. Liðið lagði fjóra andstæðinga að velli og tryggði sér eina sæti Afríku í úrslitakeppninni.
Marokkó var fyrsta afríska keppnisliðið á HM frá því að Egyptar tóku þátt á HM 1934 og var ekki búist við stórafrekum. Liðið kom gríðarlega á óvart í fyrsta leiknum gegn Vestur-Þjóðverjum, náði forystunni snemma leiks og hélt henni þar til Þjóðverjar skoruðu tvö mörk í síðari hálfleik, það seinna þegar einungis tíu mínútur voru eftir. Perú ruddi Marokkó auðveldlega úr vegi, 3:0 en í lokaleiknum vannst fyrsta stigið með jafntefli á móti Búlgörum. Frammistaðan var þeim mun merkilegri í ljósi þess að allir leikmenn Marokkó léku í heimalandinu.
Þrátt fyrir að hafa verið fulltrúar Afríku á bæði HM og ÓL, mistókst Marokkó að komast í úrslitakeppni Afríkukeppninnar í fimm fyrstu skiptin. Úr því var bætt árið 1972, en mótið var haldið í Kamerún. Þrjú jafntefli í þremur leikjum dugðu Marokkó ekki upp úr riðlakeppninni. Sama ár keppti Marokkó á Ólympíuleikunum í München. Liðið komst upp úr forriðli eftir sigur á Malasíu og jafntefli gegn Bandaríkjunum. Í milliriðlum biðu hins vegar þrjár sterkar Evrópuþjóðir og allir leikir töpuðust, sumir með miklum mun.
1973-85: Meistarar Afríku
Marokkó taldi sig órétti beitt í forkeppni HM 1974. Liðið var dregið úr keppni og í mótmælaskyni tók landið heldur ekki þátt í Afríkukeppninni 1974. Tveimur árum síðar mættu Marokkómenn hins vegar til leiks í úrslitakeppni mótsins sem fram fór í Eþíópíu. Marokkó byrjaði brösulega og gerði jafntefli við Súdan í fyrsta leik en vann svo fjóra næstu leiki sína, tvo í forriðli og tvo í fjögurra liða úrslitariðli. Fyrir vikið dugði jafntefli í lokaleiknum gegn Gíneu. Marokkó fagnaði því sínum fyrsta og enn sem komið er eina Afríkumeistaratitli árið 1976. Marokkó tók aftur þátt í úrslitakeppninni árin 1978 og 1980 og hlaut bronsverðlaunin í seinna skiptið.
Liðinu tókst hvorki að komast á HM 1978 né HM 1982. Í fyrra skiptið tapaði Marokkó fyrir Túnis strax í fyrstu umferð, en fjórum árum síðar mætti liðið Kamerún í hreinum úrslitaleik um annað af tveimur sætum Afríku í úrslitunum. Eins mistókst Marokkó að komast í úrslitakeppni Afríkumótsins árin 1982 og 1984.
1986-98: Aftur á HM
Frá 1986 til 1998 komst Marokkó í úrslitakeppni HM í þrjú af fjórum skiptum. Fyrir vikið hefur verið talað um „gullkynslóðina“ í marokkóskum fótbolta. Á HM 1986 vakti frammistaða Marokkó gríðarlega athygli. Búist var við að liðið ræki lestina í sterkum riðli ásamt þremur Evrópuþjóðum: Englandi, Póllandi og Portúgal. Marokkó gerði sér hins vegar lítið fyrir og náði markalausum jafnteflum gegn Englendingum og Pólverjum og vann svo 3:1 sigur á Portúgal og hirti toppsæti riðilsins. Þetta var í fyrsta sinn sem afrískt lið komst upp úr riðlakeppninni á HM. Óvæntur ósigur Vestur-Þjóðverja gegn Dönum tveimur dögum síðar þýddi að Marokkó mætti sterku vestur-þýsku liði í 16-liða úrslitum. Marokkó varðist vel en tveimur mínútum fyrir leikslok skoraði Lothar Matthäus sigurmark Þjóðverjanna, sem fóru alla leið í úrslitaleikinn.
Fyrr á árinu 1986 hafði Marokkó hafnað í fjórða sæti Afríkukeppninnar. Tveimur árum síðar var landið hins vegar í hlutverki gestgjafa og væntingarnar miklar, enda Marokkó talið öflugasta knattspyrnuland álfunnar um þær mundir og sótti meira að segja eftir því að halda HM 1994. Úrslitin ollu vonbrigðum. Eftir að hafa unnið sinn riðil féll Marokkó úr keppni í undanúrslitum gegn Kamerún og tapaði loks fyrir Alsír í bronsleikum.
Marokkó komst ekki á HM 1990 né Afríkumótið sama ár. Marokkó var meðal tólf keppnisliða á Afríkumótinu 1992 sem frem fór í Senegal en komst ekki í fjórðungsúrslitin. Liðið mátti jafnframt sætta sig við að sitja heima á Afríkumótunum 1994 og 1998.
Afríka átti þrjá fulltrúa á HM 1994 og voru talsverðar vonir bundnar við frammistöðu þeirra eftir góðan árangur Kamerún í keppninni fjórum árum fyrr. Marokkó mátti sætta sig við botnsætið eftir þrjú naum töp gegn Belgum, Hollendingum og Sádi-Aröbum.
Marokkó komst í fjórðungsúrslit á Afríkumótinu í Búrkína Fasó árið 1998. Sama ár keppti liðið svo í úrslitum HM í Frakklandi, en Frakkland og Marokkó höfðu raunar háð harða baráttu um réttinn til að halda þá keppni. Í lokaleik riðlakeppninnar vann Marokkó 3:0 sigur á Skotum og virtust öruggir um sæti í 16-liða úrslitum. Afar óvæntur sigur Norðmanna á Brasilíu með mörkum undir blálokin, þar á meðal umdeildri vítaspyrnu, þýddu hins vegar að Marokkó sat eftir með sárt ennið.
1999-2016: Harðnar á dalnum
Eftir Heimsmeistaramótið í Frakklandi 1998 liðu tuttugu ár þar til Marokkó komst aftur í úrslitakeppni HM. Á hinn bóginn varð landið fastagestur í Afríkukeppninni enda hafði þátttökuþjóðum í úrslitakeppninni verið fjölgað. Frá 2000 til 2008 féll Marokkó fjórum sinnum út í riðlakeppni Afríkumótsins en í Túnis árið 2004 fór liðið alla leið í úrslit en tapaði 2:1 fyrir heimamönnum.
Marokkó var langt frá sínu besta í forkeppni Afríkumótsins 2010 og komst ekki í úrslitin í Angóla. 2012 og 2013 tókst aðeins betur til en Marokkó féll engu að síður úr leik í riðlakeppninni. 2015 átti keppnin að fara fram í Marokkó, en þegar ebólufaraldur kom upp í Vestur-Afríku og Marokkóstjórn vildi fresta mótinu eða takmarka ferðir sumra keppnisliða var mótið fært til Miðbaugs-Gíneu og Marokkó útilokað frá keppni.
2017-: Ný byrjun
Marokkó var meðal keppnisliða í úrslitum Afríkukeppninnar árið 2017 og 2019. Í Gabon 2017 féll liðið úr leik í fjórðungsúrslitum en 2019 í Egyptalandi 2019 vann það alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni en tapaði fyrir Benín í vítakeppni í 16-liða úrslitum.
Eftir langa bið komst Marokkó loks í úrslitakeppni HM 2018 í Rússlandi. Þar lenti liðið í ógnarþungum riðli með Spáni, Portúgal og Íran. Eins marks tap eftir grátlegt sjálfsmark á fimmtu mínútu uppbótartíma gegn Írönum í upphafsleik þýddi að vonin um að komast áfram var nálega úr sögunni. Næsti leikur, gegn Portúgal, tapaðist 1:0 og þar með var vonin um áframhald í keppninni fyrir bí. Leikmenn Marokkó börðust þó fyrir stoltinu og voru nærri búnir að landa óvæntum sigri á Spánverjum, sem náðu með naumindum að jafna í uppbótartíma, 2:2.
Í mars 2022 tryggði Marokkó sér keppnisrétt í úrslitakeppni HM í Katar. Það var sjötta skiptið sem landið tók þátt í úrslitakeppninni.
Marokkó komst fyrst afrískra liða í undanúrslit keppninnar þegar það sló út Spán í 16. liða úrslitum og Portúgal í 8. liða úrslitum. Lið spilaði við Króatíu um brons eftir að hafa tapað fyrir Frakklandi í undanúrslitum. Marókkó endaði í 4. sæti sem er það hæsta sem afríkuþjóð hefur afrekað.
Leikmenn
Markahæstu menn
Ahmed Faras, 36 mörk í 94 leikjum. Virkur frá 1966 til 1979