Magnús Björnsson (1595 – 6. desember 1662) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. öld. Hann var jafnframt einn auðugasti maður landsins um sína daga.
Magnús var sonur Björns Benediktssonar (1561-1617) sýslumanns á Munkaþverá og Elínar (1571-1637) konu hans, dóttur Staðarhóls-Páls og Helgu Aradóttur. Systur hans voru Sigríður kona Páls Guðbrandssonar sýslumanns á Þingeyrum og Guðrún kona Gísla Oddssonar biskups. Magnús bjó á Munkaþverá eins og faðir hans og afi, tók við sýsluvöldum í Eyjafjarðarsýslu eftir að faðir hans dó og hélt þeim til 1639, þegar hann varð lögmaður norðan og vestan. Hann var í rauninni ekki kosinn til þess embættis, heldur heimtaði Pros Mund höfuðsmaður að hann fengi það og tóku þingmenn því.
Magnús gegndi embættinu í rúma tvo áratugi en árið 1661 var hann veikur og treysti sér ekki að ríða til þings og bað Árna Oddsson að annast lögmannastörfin einn. Árið eftir sagði hann svo af sér og fór ekki til þings, enda dó hann í árslok það ár.
Kona Magnúsar var Guðrún (1558-1671), dóttir Gísla Þórðarsonar lögmanns. Á meðal barna þeirra voru Gísli Magnússon (Vísi-Gísli) á Hlíðarenda, sýslumaður í Rangárþingi, Helga kona Hákonar Gíslasonar sýslumanns í Bræðratungu og Jórunn kona Jóns Magnússonar sýslumanns á Reykhólum og móðir Magnúsar Jónssonar lögmanns.
Heimildir