Halldór Ólafsson (um 1580 – 8. júlí 1638) var íslenskur lögmaður, sýslumaður og klausturhaldari á 17. öld. Hann bjó á Grund í Eyjafirði.
Foreldrar Halldórs voru Ólafur Jónsson klausturhaldari á Möðruvöllum, sonur Jóns rebba Sigurðssonar í Búðardal, og kona hans Þórunn eldri, dóttir Benedikts ríka Halldórssonar sýslumanns á Möðruvöllum. Halldór fékk Möðruvallaklaustursumboð eftir föður sinn.
Jón Sigurðsson lögmaður norðan og vestan var sviptur embætti 1618 og árið eftir var kosið um lögmann á Alþingi. Þeir voru í kjöri Halldór, Ari í Ögri, bróðir hans Jón eldri Magnússon í Haga og Magnús Björnsson, síðar lögmaður. Var kastað hlutkesti, sem Halldór vann. Enginn höfuðsmaður var á þingi þetta ár því að Friðrik Friis hafði komið til landsins skömmu fyrir þing en dáið þremur dögum seinna. Sór Halldór því ekki embættiseið sinn fyrr en árið eftir, þegar Holgeir Rosenkrantz var kominn til landsins.
Um leið fékk Halldór sýsluvöld í Skagafjarðarsýslu, sem Jón Sigurðsson hafði misst, en sýslan var þó tekin af honum aftur 1628 og fengin Jóni og um leið fékk Halldóra kona Halldórs Möðruvallaklaustursumboð. Það var nærri einsdæmi að kona fengi slíkt umboð en þetta mun hafa verið vegna skulda Halldórs, sem var enginn fésýslumaður. Skagafjarðarsýslu fékk hann þó aftur árið eftir en hún var enn tekin af honum 1636 og veitt Benedikt syni hans.
Halldór veiktist eftir Alþingi 1637 og náði sér ekki aftur. Hann fór þó til þings 1638 en þaðan var hann fluttur aðframkominn í Skálholt, á sömu kviktrjám og lík Gísla Oddssonar biskups hafði verið flutt tveimur dögum áður, og dó þar daginn eftir (8. júlí).
Kona hans var Halldóra Jónsdóttir eldri (um 1585 – 1661), dóttir Jóns sýslumanns á Holtastöðum og Grund, Björnssonar prests á Melstað, Jónssonar Arasonar, og konu hans Guðrúnar Árnadóttur frá Hlíðarenda. Á meðal barna þeirra voru Benedikt sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, Helga kona séra Páls Björnssonar í Selárdal, en þau hjónin koma mjög við sögu íslenskra galdraofsókna, og Margrét kona Brynjólfs Sveinssonar biskups, og dó Halldóra í Skálholti hjá dóttur sinni.
Heimildir