Gísli Magnússon eða Vísi-Gísli (1621 – 4. júní 1696) var sýslumaður og frumkvöðull í búnaðarfræði á Íslandi. Hann var sonur Magnúsar Björnssonar lögmanns og Guðrúnar Gísladóttur. Hann lærði í Hólaskóla og síðan í Kaupmannahafnarháskóla. Hann stundaði nám í Hollandi frá 1643-1646 og dvaldist einnig í Englandi um tíma.
Hann varð sýslumaður í Múlaþingi að hluta 1649 og fékk Skriðuklaustur þar sem hann bjó. 1653 flutti hann að Hlíðarenda í Fljótshlíð og varð sýslumaður í Rangárþingi 1659. Jafnframt embættisverkum stundaði hann ýmis vísindastörf. Á Hlíðarenda gerði hann meðal annars tilraunir með kornrækt og var fyrstur manna til að rækta ýmsar matjurtir á Íslandi. Vitað er að hann hafði áhuga á að reyna kartöflurækt og í bréfi frá 1670 biður hann Björn son sinn, sem þá var við nám í Kaupmannahöfn, um að senda sér kartöflur til útsæðis en ekki er vitað til þess að neitt hafi orðið úr kartöfluræktunartilraunum hjá honum. Árið 1686 flutti hann til dóttur sinnar og tengdasonar í Skálholti þar sem hann lést tíu árum síðar úr steinsótt.
Kona Gísla var Þrúður dóttir Þorleifs sýslumanns á Hlíðarenda, Magnússonar prúða. Á meðal barna þeirra voru Guðríður, kona Þórðar Þorlákssonar biskups í Skálholti og Björn sýslumaður í Bæ á Rauðasandi, sem dó tæplega þrítugur en Guðrún Eggertsdóttir ekkja hans bjó í Bæ um langan aldur og var nafnkunn.