Helga Aradóttir

Helga Aradóttir (um 15381614) var íslensk hefðarkona á 16. öld, kona Staðarhóls-Páls Jónssonar og húsfreyja á Staðarhóli í Saurbæ og Reykhólum. Hún var dóttir Ara Jónssonar lögmanns, sonar Jóns Arasonar biskups, og konu hans Halldóru Þorleifsdóttur Grímssonar sýslumanns á Möðruvöllum í Eyjafirði.

Eftir að faðir Helgu var tekinn af lífi 1550 ólst hún upp hjá Þórunni Jónsdóttur á Grund, föðursystur sinni. Hún var sögð uppivöðslusöm og ódæl, mjög skapmikil og er sagt að allt heimilisfólk á Grund hafi fagnað þegar hún fór þaðan. Páll Jónsson frá Svalbarði við Eyjafjörð var fáeinum árum eldri en Helga og urðu þau hrifin hvort af öðru á unglingsárum. Páll bað hennar en Þorleifur afi hennar sagði þvert nei. Páll hélt þó áfram að sækjast eftir ráðahagnum og orti eldheit ástarljóð til Helgu. Eitt þeirra hefst á ljóðlínunum: „Ég leit í einum garði / yfrið fagurt blóm.“

Hann hafði stuðning séra Sigurðar Jónssonar á Grenjaðarstað, föðurbróður Helgu. Sjálf sagðist hún vilja ganga með Páli ef það álitist jafnræði sitt því hún vildi ekki taka niður fyrir sig. Voru menn nefndir í dóm á Skriðu í Hörgárdal 1556 og úrskurðuðu þeir að jafnræði væri með Helgu og Páli því hann hafði þá komið höndum yfir Staðarhól í Saurbæ og bætt mjög hag sinn, en þó voru eignir hennar mun meiri. Var brúðkaup þeirra haldið á Grund rétt eftir nýár 1558. Fór miklum sögum af því hve heitar ástir þeirra voru og er sagt að þau hafi ekki risið úr rekkju í margar vikur eftir brúðkaupið. Ástarbríminn kulnaði þó fyrr en varði.

Ungu hjónin bjuggu fyrstu búskaparárin á Eyrarlandi í Eyjafirði og Einarsstöðum í Reykjadal. Þau fluttust svo vestur að Staðarhóli um 1562. Þar bjuggu þau þó ekki nema til 1570 en þá fluttu þau að Reykhólum, sem Páll átti einnig. Þá var sambúð þeirra farin að stirðna mjög, enda voru bæði mjög skapstór og ágjörn, drambsöm, stórlynd og ráðrík. Helga vildi sjálf ráða yfir þeim eignum sem hún hafði fært í búi, en það samþykkti Páll alls ekki. Hann var líka drykkfelldur og mjög stóryrtur og orðljótur og vandaði konu sinni ekki kveðjurnar þegar þau deildu. Sagt er að þegar hún hótaði einu sinni sem oftar að fara frá honum hafi hann ort:

Ef leiðist þér grey að ganga
gefa vil ég þér hest
segi ég upp sambúð langa
svo trúi ég fari best.
Hafir þú fornt á fótum
fá skaltu skæðin ný
gakktu hart á grjótum
og ganaðu upp í ský
með bandvettlinga og traf
styttuband og staf
farðu norður í Gýgjarfoss
og stingdu þér þar á kaf
sökktu til botns sem blý
og komdu aldrei upp frá því.

Árið 1578 skildu þau svo að borði og sæng, sem þá var mjög fátítt, en þó var Helga stundum hjá Páli en skeytti lítið um búið. Árið 1590 fór hún svo til Elínar dóttur þeirra og var þar líklega upp frá því. Ári síðar stefndi Páll henni fyrir dóm og bar á hana ýmsar sakir, meðal annars samvistarslit, brottför af heimili og fjáreyðslu; „hér með hefur hún verið þrálynd, keppin og óhlýðin og sagt upp á sig óheyrilega hluti.“ Málinu var vísað til Alþingis en ekki tekið fyrir fyrr en 1594. Þá taldi lögrétta það ekki löglega undirbúið þar sem Helga var ekki kölluð fyrir og enginn fulltrúi hennar. Oddur biskup Einarsson stóð á móti Páli og sagði hann standa í þessum klögumálum þvert gegn vilja ættingja og væri hann öðrum til hneykslunar. Páll skrifaði biskupi þá bréf, mótmælti þessu og sagði lítt sæma að börn sín og gamalmenni eins og séra Sigurður á Grenjaðarstað og Þórunn á Grund væru talinn vitrari en hann og myndi hann ekki leita ráða hjá þeim.

Ástæðan fyrir þessu brölti Páls var að hann vildi fá lögskilnað frá Helgu, þar sem hann hafði fest ást á Halldóru Guðbrandsdóttur Þorlákssonar Hólabiskups, sem að vísu var um fjörutíu árum yngri en hann, og hafði hug á að giftast henni. Hún hafði þó engan áhuga á þeim ráðahag.

Börn þeirra Helgu og Páls voru Ragnheiður, sem fyrst giftist Gissuri Þorlákssyni sýslumanni á Núpi og síðar Sveini Símonarsyni presti í Holti í Önundarfirði, móðir Brynjólfs Sveinssonar biskups; Pétur, sýslumaður á Staðarhóli; og Elín, kona Björns Benediktssonar sýslumanns á Munkaþverá.

Heimildir

  • „Illa konu eiga hlaut. Fálkinn, 4. tbl. 1963“.
  • „Staðarhóls-Páll. Sunnudagsblað Tímans, 19. apríl 1964“.
  • „Staðarhóls-Páll. Þjóðviljinn, 24. desember 1954“.