Juho Kusti Paasikivi (27. nóvember 1870 – 14. desember 1956) var finnskur stjórnmálamaður sem var sjöundi forseti Finnlands frá 1946 til 1956. Paasikivi var meðlimur í Finnska flokknum þar til hann var lagður niður árið 1918 og síðan í Samstöðuflokknum. Hann var áður öldungaráðsmaður, þingmaður (1907–1909, 1910–1914),[1] sendifulltrúi í Stokkhólmi (1936–1939) og Moskvu (1940–1941) og forsætisráðherra Finnlands (1918 og 1944–1946).[2] Hann gegndi ýmsum öðrum ábyrgðarstöðum á ferli sínum og naut mikilla áhrifa í finnskum efnahags- og stjórnmálum í meira en fimmtíu ár.
Paasikivi er minnst sem helsta hönnuðar finnskrar utanríkisstefnu í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.[3] Til dæmis reyndu Paasikivi-samtökin (Paasikivi-seura), sem voru stofnuð árið 1958 að undirlagi Jan-Magnus Janssons, að heiðra pólitíska arfleifð Paasikivi með því að hvetja til „staðreyndamiðaðrar hugsunar í utanríkismálum“ og undirstrika hlutleysisstefnu Finnlands á alþjóðavelli.[4]
Æviágrip
Juho Kusti Paasikivi fæddist þann 27. nóvember árið 1870 í Tampere og var kaupmannssonur af bændaættum. Ættarnafn hans við fæðingu var Hellsten en hann tók síðar upp finnska nafnið Paasikivi. Hann útskrifaðist nítján ára gamall með stúdentspróf frá Tavastehus. Paasikivi nam síðan lögfræði við Háskólann í Helsinki og útskrifaðist með embættispróf. Hann hlaut doktorspróf í lögfræði árið 1901.[5]
Paasikivi vann sem kennari við lagadeild Háskólans í Helsinki frá 1899 til 1903 en var síðan gerður að yfirskrifstofustjóra ríkisstjórnarinnar. Hann hélt því embætti til fyrsta árs fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914. Á þeim tíma var Paasikivi jafnframt þingmaður og var framsögumaður landbúnaðarnefndar þingsins árin 1907 til 1913 og fjárlaganefndar árið 1910. Paasikivi var í flokki íhaldsmanna sem kenndu sig við „gamalfinnsku flokkana“.[5]
Stjórnmálaferill
Paasikivi varð fjármálaráðherra í finnsku stjórninni frá 1908 til 1909 en sú stjórn varð að segja af sér vegna ágangs rússnesku keisarastjórnarinnar, sem sóttist í auknum mæli eftir því að auka stjórn sína í Stórfurstadæminu Finnlandi. Árið 1914 var Paasikivi ráðinn aðalbankastjóri stærsta bankans í Finnlandi og átti að gegna þeirri stöðu til ársins 1934.[5]
Eftir rússnesku byltinguna 1917 hættu Rússar hins vegar kröfum um fulla innlimun Finnlands og Finnland lýsti því yfir sjálfstæði sínu þann 6. desember 1917. Paasikivi varð forsætisráðherra Finnlands vorið 1918. Á meðan hann var forsætisráðherra var eitt helsta viðfangsefni stjórnarinnar að ákvarða hver framtíðarstjórnskipun Finnlands ætti að vera. Paasikivi var fylgjandi því að Finnland yrði sjálfstætt konungsríki og fengi þýskan prins til að gerast konungur, sem átti að innsigla bandalag Finna við Þýskaland. Þessar fyrirætlanir féllu hins vegar um sjálfar sig þegar Þjóðverjar töpuðu fyrri heimsstyrjöldinni árið 1918 og þýska keisaradæmið var leyst upp. Paasikivi varð í kjölfarið að segja af sér og hóf aftur stjórn hjá bankanum.[5]
Ríkisstjórn Finnlands fól Paasikivi ýmis frekari ábyrgðarstörf á næstu árum. Árið 1920 var hann formaður finnskrar sendinefndar sem samdi um frið við Sovét-Rússland í Tartu eftir að Finnar höfðu blandast inn í íhlutunarstríð gegn Sovétmönnum.[6] Á árunum 1936 til 1940 var Paasikivi sendiherra Finna í Stokkhólmi. Árið 1939 var hann kallaður frá Stokkhólmi til að semja við Rússa og næsta ár var hann sendur til Moskvu til að undirrita friðarsáttmála við Sovétmenn eftir vetrarstríðið. Paasikivi, sem hafði lengi talað fyrir bættum samskiptum Finna og Rússa, var í kjölfarið gerður að sendiherra Finna í Moskvu.[5]
Paasikivi gegndi sendiherrastöðunni í Moskvu til ársins 1941 en var kallaður heim þegar framhaldsstríðið braust út milli Finnlands og Sovétríkjanna. Hann lét lítið á sér bera á stríðstímanum en lét þó í ljós skoðun sína að Finnar ættu að draga sig úr stríðinu sem fyrst.[5] Í febrúar 1944 var Paasikivi sendur til Stokkhólms til að ræða við Aleksöndru Kollontaj, sendiherra Sovétmanna í Svíþjóð, um möguleikann á friðarsamkomulagi. Hann var sendur aftur til Moskvu í mars til að ræða við sovéska leiðtogann Jósef Stalín og utanríkisráðherrann Vjatsjeslav Molotov um friðarsamninga, sem stuðlaði að því að Finnland varð fyrsta bandalagsríkja Þjóðverja sem samdi um frið við Sovétríkin í seinni heimsstyrjöldinni.[6]
Forsætisráðherra (1944–1946) og forseti (1946–1956)
Eftir lok stríðsins tók Paasikivi að sér að mynda ríkisstjórn. Stjórn hans var samsteypustjórn sem var mynduð á víðum pólitískum grundvelli, jafnvel með aðkomu finnskra kommúnista. Paasikivi sagði af sér sem forsætisráðherra í mars árið 1946 til að taka við af Carl Gustaf Emil Mannerheim sem forseti lýðveldisins. Paasikivi var síðar endurkjörinn forseti til sex ára í mars árið 1950.[5]
Stjórn Paasikivi lét setja á fót sérstakan dómstól að beiðni Sovétmanna og Breta til að refsa finnskum ráðamönnum sem voru taldir eiga sök á framhaldsstríðinu. Paasikivi var mótfallinn þessu fyrirkomulagi en fór eftir því þar sem hann taldi ekki að komist yrði hjá því í ljósi pólitískrar stöðu. Fyrrum forsetinn Risto Ryti var dæmdur í fangelsi ásamt sex ráðherrum í réttarhöldunum en Paasikivi lét síðar veita þeim öllum sakaruppgjöf þegar þeir höfðu afplánað um hálfa fangavistina.[7]
Á stjórnartíð sinni vann Paasikivi markvisst að því að bæta samskipti Finnlands við Sovétríkin. Hann stóð í þeirri trú að Sovétmenn myndu ekki skipta sér að innanríkismálum Finnlands svo lengi sem hugsanlegir óvinir Sovétríkjanna næðu ekki hernaðarlegri fótfestu í Finnlandi. Samskipti ríkjanna bötnuðu verulega á forsetatíð Paasikivi, meðal annars með undirritun vináttusamnings og aukinnar verslunar og samstarfs í menningarmálum.[5] Sovéski herinn hafði sig jafnframt burt frá Porkkala árið 1955, sama ár og Paasikivi fór í síðustu opinberu heimsókn sína til Moskvu, sem þótti til marks um að sáttastefna hans hefði borið árangur.[7] Stefna Paasikivi, sem fól í sér jafnvægisleik á milli varðveislu á fullveldi Finnlands og náinna samskipta við Rússland, var kölluð „Paasikivi-línan“.[8]
Paasikivi lét af forsetaembætti í mars 1956 og lést í desember sama ár. Dagbækur Paasikivi voru gefnar út árið 1986 og komust á metsölulista.[7]
Heimildir
Wilsford, David, ritstjóri (1995). Political leaders of contemporary Western Europe: a biographical dictionary. Greenwood. bls. 347–352.