Jósef Stalín

Jósef Stalín
Иосиф Сталин
იოსებ სტალინი
Jósef Stalín árið 1942
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
Í embætti
3. apríl 1922 – 16. október 1952
ForveriVjatsjeslav Molotov (sem ábyrgðarritari)
EftirmaðurNíkíta Khrústsjov
Formaður ráðherraráðs Sovétríkjanna[a]
Í embætti
6. maí 1941 – 5. mars 1953
ForsetiMíkhaíl Kalínín
Níkolaj Shverník
ForveriVjatsjeslav Molotov
EftirmaðurGeorgíj Malenkov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. desember 1878
Gori, Georgíu, rússneska keisaradæminu
Látinn5. mars 1953 (74 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiEkaterine Svanidze (g. 1906; d. 1907)
Nadezhda Allílújeva (g. 1919; d. 1932)
TrúarbrögðKristinn, síðar trúlaus
BörnJakov Dzjúghasjvílí
Vasílíj Stalín
Svetlana Allílújeva
Artjom Sergejev (ættleiddur)
StarfStjórnmálamaður
Þekktur fyrirAð vera einræðiherra yfir Sovétríkjunum frá 1927 til 1953 og að fremja næststærsta þjóðarmorð mannkynsögunnar.
Undirskrift

Jósef Víssaríonovítsj Stalín (18. desember 18785. mars 1953; georgíska: იოსებ სტალინი, rússneska: Иосиф Виссарионович Сталин) var sovéskur stjórnmálamaður og byltingarmaður. Hann var um áratugaskeið æðsti leiðtogi Sovétríkjanna, frá árinu 1924 til dauðadags árið 1953. Hann var á þeim tíma aðalritari sovéska kommúnistaflokksins (1922–1952) og formaður ráðherraráðs Sovétrikjanna (1941–1953). Í upphafi stýrði Stalín landinu ásamt sameiginlegri forystu annarra ráðamanna en hann sópaði smám saman að sér völdum og var orðinn einræðisherra á fjórða áratugnum. Stalín fann upp hugtakið marx-lenínisma til að lýsa lenínískri túlkun sinni á marxisma. Hugmyndir hans eru einnig þekktar sem stalínismi.

Stalín er gjarnan álitin ein mikilvægasta sögulega persóna 20. aldarinnar. Persónudýrkun á Stalín var útbreidd innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar marx-lenínista, sem vegsamaði hann sem hetju verkalýðsins og sósíalismans. Stalín nýtur enn þann dag í dag vinsælda í Rússlandi og Georgíu fyrir að leiða landið til sigurs í seinni heimsstyrjöldinni og treysta stöðu Sovétríkjanna sem alþjóðlegs stórveldis. Aftur á móti hefur alræðisstjórn hans víða verið fordæmd fyrir pólitíska kúgun, þjóðernishreinsanir, stranga ritskoðun, nauðungarflutninga, hundruð þúsunda aftaka og hungursneyðir sem drápu milljónir fólks.

Æviágrip

Ljósmynd af Stalín frá árinu 1902.

Æska

Jósef Stalín fæddist í bænum Gori í Georgíu sem þá tilheyrði Rússlandi. Hans rétta nafn var Íoseb Besaríonís dze Dzjúghasjvílí (იოსებ ბესარიონის ძე ჯუღაშვილი) en hann tók upp eftirnafnið „Stalín“ árið 1912, það merkir „úr stáli“ eða „stálmaðurinn“. Faðir hans var skósmiðurinn Besaríon Dzjúghasjvílí frá Ossetíu en móðir hans var þvottakona og var frá Georgíu. Faðir hans vildi að Jósef yrði skósmiður en það vildi móðir hans ekki. Hún hafði miklar væntingar til sonar síns og vildi að hann yrði prestur. Stalín sótti grunnskólann í heimaborg sinni en árið 1894 fluttist fjölskyldan til Tbilisi, höfuðborgar Georgíu, og hóf Stalín þar nám við prestaskóla.[1]

Þegar Jósef var ungur gerðist faðir hans mjög drykkfelldur og barði bæði hann og móður hans. En móðir hans elskaði soninn út af lífinu og lagði allt í sölurnar fyrir frama hans. Ekaterína kallaði son sinn oft Soso. Birti hann kvæði og ljóð undir því dulefni þegar hann varð eldri (en þó löngu áður en hann náði völdum) og var virt skáld í Georgíu. Móðir hans sagði að Soso hafi alltaf verið góður strákur.

Upphaf afskipta af stjórnmálum

Í Tíblisi komst hinn ungi Stalín í kynni við kenningar Marx og gekk til liðs við sósíaldemókrataflokk Rússlands. Keisarastjórnin hafði bannað þann flokk og Stalín var rekinn úr prestaskólanum þegar upp komst að hann væri félagi í þeim flokki.

Eftir að hafa verið rekinn úr skólanum hóf Stalín störf fyrir sósíademókrataflokkinn og vann að ýmiss konar áróðursstarfsemi fyrir flokkinn og skipulagði meðal annars verkföll. Þegar sósíaldemókrataflokkurinn klofnaði árið 1903 í hreyfingar mensévíka og bolsévíka gekk Stalín til liðs við bolsévika.

Hann hélt áfram að vinna að byltingu og tók þátt í fjáröflun fyrir flokkinn, meðal annars með bankaránum, og var margsinnis tekinn fastur af lögreglunni.

Árið 1912 tók Stalín sæti í miðstjórn Bolsévikaflokksins.

Byltingin og borgarastríðið

Eftir febrúarbyltingina studdi Stalín til að byrja með samstarf við ríkistjórn Kerenskíj, en snerist seinna á sveif með Lenín sem hafnaði samstarfi við Kerenskíj. Eftir októberbyltinguna vann Stalín með nýrri ríkisstjórn bolsévíka. Hann vann mikið að málefnum tengdum þjóðernisminnihlutahópum sem bjuggu innan Rússlands, enda sjálfur Georgíumaður og málið honum því hugleikið. Í borgarastríðinu var hann liðsforingi í Rauða hernum.

Ljósmynd af Lenín (til vinstri) og Stalín (til hægri) frá árinu 1922.

Aukin völd innan flokksins

Árið 1922 var Stalín kjörinn aðalritari miðstjórnar kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Við fráfall Leníns, sem hafði verið óumdeildur leiðtogi flokksins, hófst mikil barátta um völdin í flokknum. Höfuðfjandmaður Stalíns í þeirri baráttu var Lev Trotskíj, sem hafði lengst af verið álitinn sennilegasti arftaki Leníns. Hugmyndafræðilegur ágreiningur þeirra snerist sér í lagi um það hvort kommúnistum bæri að breiða byltinguna út fyrir landsteina Sovétríkjanna, svokallaða stöðuga byltingu, eins og Trotskíj kallaði hana. Stalín var mótfallinn slíkum fyrirætlunum og lagði áherslu á að rétt væri að einbeita sér að innanríkismálum og ná fram „sósíalisma í einu landi“ áður en haldið yrði lengra.[1]

Eftir fráfall Leníns myndaði Stalín fyrst þremenningabandalag ásamt þeim Lev Kamenev og Grígoríj Zínovjev. Samanlögð völd þeirra nægðu til að stýra öllu því helsta um stefnu flokksins og smám saman tókst þeim að ýta Trotskíj til hliðar. Trotskíj var þvingaður til að segja af sér sem hermálafulltrúi í ríkisstjórn Sovétríkjanna árið 1925 og var síðan rekinn úr stjórnmálanefnd Kommúnistaflokksins næsta ár.[1]

Árið 1925 snerust Kamenev og Zínovjev gegn kenningu Stalíns um sósíalisma í einu landi og reyndu að mynda bandalag með Trotskíj, sem þeir höfðu hjálpað til við að knésetja, gegn Stalín. Þá hafði Stalín hins vegar nýtt stöðu sína til að fylla stjórnmálanefnd flokksins af stuðningsmönnum sínum og því höfðu andstæðingar hans ekki lengur bolmagn til að hreyfa við honum. Eftir margra ára baráttu tókst Stalín að koma því til leiðar að á flokksþingi 1927 voru Trotskíj, Kamenev, Zínovjev og fleiri andstæðingar hans reknir úr flokknum.[1] Árið 1929 lét Stalín síðan reka Níkolaj Búkharín, sem hafði hjálpað honum á móti Kamenev og Zínovjev, úr flokknum. Var Stalín þá orðinn allsráðandi innan Kommúnistaflokksins.[2]

Iðnvæðing og endurskipulagning

Eftir að hafa haft sigur í innanflokksátökunum var Stalín orðinn valdamesti maður Sovétríkjanna. Stalín var þeirrar skoðunar, að ef Sovétríkin ættu að eiga sér framtíð yrðu þau að iðnvæðast. Fyrir byltinguna var Rússland skammt á veg komið í iðnvæðingu og margra ára borgarastyrjöld hafði veikt efnahag landsins enn meira. Árið 1928 leit fyrsta fimm ára áætlunin dagsins ljós.

Ennfremur var ákveðið að endurskipuleggja landbúnaðinn í samyrkjubú. Sú stefna mætti víða mótspyrnu í sveitum landsins, en yfirvöld gengu fram af mikilli grimmd gegn andstæðingum endurskipulagningarinnar.

Fimm ára áætlanirnar reyndust vel til að auka iðnframleiðslu Sovétríkjanna, en þær leiddu ekki til mikilla kjarabóta fyrir almenning, því höfuðáhersla var lögð á auknar fjárfestingar í iðnaði framyfir einkaneyslu. Sér í lagi jókst framleiðslan í þungaiðnaði mikið.

Stalín beitti sér af grimmd og miskunnarleysi gegn þeim, sem hann taldi andstæðinga sína. Komið var á fót kerfi fangabúða sem meintir andstæðingar hans voru sendir í. Milljónir manna og jafnvel heilar þjóðir voru sendar í slíkar búðir, flestir án saka eða fyrir afskaplega litlar sakir. Meðal þeirra sem lentu í hreinsunum Stalíns á 4. áratugnum voru fjölmargir yfirmenn Rauða hersins, þar á meðal Míkhaíl Túkhatsjevskíj, hershöfðingi, sem herdómstóll dæmdi til dauða í júní 1937. Hreinsanir Stalíns innan hersins veiktu stjórn Rauða hersins og átti það eftir að hafa alvarlegar afleiðingar þegar innrás Þjóðverja hófst árið 1941.[3]

Seinni heimsstyrjöldin

Árið 1939 höfðu Sovétmenn og Þjóðverjar gert með sér samning um að ráðast ekki hvorir á aðra. Margir kommúnistar sáu þess konar samstarf við nasista sem svik við kommúnismann.

Í júní 1941 brutu Þjóðverjar samninginn og réðust á Sovétríkin. Sovétmenn nefndu stríðið „föðurlandsstyrjöldina miklu“. Enda þótt Stalín hefði átt von á að til átaka gæti komið við Þjóðverja bjóst hann ekki við innrásinni árið 1941 og voru Sovétríkin bæði hernaðarlega og iðnaðarlega illa búin undir stríðið. Stalín var yfirmaður herafla Sovétríkjanna og stjórnaði sjálfur stríðinu gegn Þjóðverjum. Þjóðverjar unnu til að byrja með mikla sigra, en voru að lokum yfirbugaðir.

Seinustu árin og tíminn eftir fráfall Stalíns

Eftir seinni heimsstyrjöldina stóðu Sovétríkin uppi sem annað risaveldanna tveggja. Tíminn frá lokum seinni heimsstyrjaldar til dauða Stalíns markaðist að miklu leyti af upphafi kalda stríðsins.

5. mars 1953 lést Stalín. Hann var í fyrstu hylltur sem hetja og líki hans komið fyrir í grafhýsi við hlið grafhýsis Leníns. Í leynilegri ræðu á flokksþingi kommúnistaflokksins 1956 fordæmdi Níkíta Khrústsjov, sem þá var orðinn leiðtogi flokksins, Stalín. Eftir það flokksþing var stefnu flokksins gangvart Stalín breytt og hann fordæmdur sem harðstjóri.

Stalínismi

Stalín lagði lítið af mörkum til kommúnískrar hugmyndafræði (eða í það minnsta marx-lenínismans). Stalín samdi þó ritgerðirnar „Marxismi og þjóðarspurningin“, sem Lenín hreifst mjög af, og „Trotskíismi eða lenínismi“. Heildarútgáfa ritverka Stalíns kom út í þrettán bindum árið 1949.

Árið 1936 lýsti Stalín því yfir að sovéskt samfélag mynduðu tvær stéttir sem væru ekki í andstöðu hvor við aðra: verkamenn og bændur. Stéttirnar endurspegluðu tvenns konar eignarhald á framleiðsluöflum í Sovétríkjunum: ríkiseign annars vegar (á vinnustöðum verkafólksins) og sameign hins vegar (á samyrkjubúum bændanna). Auk þessara tveggja stétta viðurkenndi Stalín stétt menntamanna. Hugmyndin um stéttir sem ekki væru í andstöðu hver við aðra var nýlunda sem þekktist ekki úr kenningum Leníns.

Heimildir og ítarefni

  • Brent, Jonathan og Naumov, Vladimir Pavlovich. Stalin's Last Crime: The Plot Against the Jewish Doctors 1948–1953 (New York: HarperCollins, 2003).
  • Broekmeyer, Marius. Stalin, the Russians, and Their War, 1941–1945 (Madison, WI: University of Wisconsin Press, 2004).
  • Bullock, Alan. Hitler and Stalin: Parallel Lives (London: HarperCollins, 1991).
  • Courtois, Stéphane o. fl. Svartbók kommúnismans (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2009).
  • Davies, Sarah og Harris, James R. Stalin: A New History (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
  • Deutscher, Isaac. Stalin: A Political Biography (New York: Oxford University Press, 1967).
  • Gellately, Robert. Lenin, Stalin, and Hitler: The Age of Social Catastrophe (Knopf, 2007).
  • Gill, Graeme. Stalinism (2. útg.) (New York: Palgrave Macmillan, 1998).
  • Jonge, Alex de. Stalin and the Shaping of the Soviet Union (New York: William Morrow, 1986).
  • Kuromiya, Hiroaki. Stalin (Harlow, UK: Longman, 2006).
  • Laqueur, Walter. Stalin: The Glasnost Revelations (New York: Scribner, 1990).
  • Mawdsley, Evan. The Stalin Years: The Soviet Union, 1929–53 (Manchester: Manchester University Press, 2003).
  • McDermott, Kevin. Stalin: Revolutionary in an Era of War (New York: Palgrave Macmillan, 2006).
  • Medvedev, Roy A. og Medvedev, Zhores A. The Unknown Stalin: His Life, Death, and Legacy (London: I.B. Tauris, 2003).
  • Montefiore, Simon Sebag. Young Stalin (London: Weidenfeld & Nicolson, 2007).
  • Murphy, David E. What Stalin Knew: The Enigma of Barbarossa (New Heaven, CT: Yale University Press, 2005).
  • Overy, Richard. Dictators: Hitler's Germany and Stalin's Russia (Allen Lane, 2004).
  • Priestland, David. Stalin and the Politics of Mobilization: Ideas, Power, and Terror in Inter-war Russia (New York: Oxford University Press, 2006).
  • Rayfield, Donald. Stalin and His Hangmen: The Tyrant and Those Who Killed for Him (New York: Random House, 2004).
  • Ree, Erik van. The Political Thought of Joseph Stalin: A Study in Twentieth-Century Revolutionary Patriotism (London: Routledge, 2002).
  • Roberts, Geoffrey. Stalin's Wars: From World War to Cold War, 1939–1953 (New Heaven, CT: Yale University Press, 2006).
  • Service, Robert. Stalin: A Biography (Cambridge, MA: Belknap Press, 2005).
  • Tucker, Robert C. Stalin as Revolutionary, 1879–1929: A Study in History and Personality (New York: W.W. Norton, 1973).
  • Tucker, Robert C. Stalin in Power: The Revolution from Above, 1928–1941 (New York: W.W. Norton, 1990).
  • Ulam, Adam Bruno. Stalin: The Man and His Era (Boston: Beacon Press, 1989).

Tenglar

  • Jón Ólafsson (19. september 2016). „Hver var Jósef Stalín?“. Vísindavefurinn. Sótt 5. apríl 2024.
  • Valur Freyr Steinarsson (4. mars 2004). „Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því?“. Vísindavefurinn. Sótt 5. apríl 2024.

Neðanmálsgreinar

  1. Fyrir árið 1946 hét embættið „formaður þjóðfulltrúaráðsins“.

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Jósef Stalín“. Samvinnan. 1. desember 1967. bls. 10-16.
  2. Guðmundur Halldórsson (12. janúar 1992). „Skuggi Stalíns“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
  3. „Þegar Stalín drekkti andspyrnu í blóðbaði“. Morgunblaðið. 19. september 1980. bls. 12-13.


Fyrirrennari:
Vjatsjeslav Molotov
(sem ábyrgðarritari)
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
(3. apríl 192216. október 1952)
Eftirmaður:
Níkíta Khrústsjov
Fyrirrennari:
Vjatsjeslav Molotov
Formaður ráðherraráðs Sovétríkjanna
(6. maí 19415. mars 1953)
Eftirmaður:
Georgíj Malenkov