Mauno Koivisto

Mauno Koivisto
Koivisto árið 1992.
Forseti Finnlands
Í embætti
27. janúar 1982 – 1. mars 1994
ForsætisráðherraKalevi Sorsa
Harri Holkeri
Esko Aho
ForveriUrho Kekkonen
EftirmaðurMartti Ahtisaari
Forsætisráðherra Finnlands
Í embætti
26. maí 1979 – 26. janúar 1982
ForsetiUrho Kekkonen
ForveriKalevi Sorsa
EftirmaðurKalevi Sorsa
Í embætti
22. mars 1968 – 14. maí 1970
ForsetiUrho Kekkonen
ForveriRafael Paasio
EftirmaðurTeuvo Aura
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. nóvember 1923
Turku, Finnlandi
Látinn12. maí 2017 (93 ára) Helsinki, Finnlandi
ÞjóðerniFinnskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiTellervo Kankaanranta (g. 1952)
Börn1
Undirskrift

Mauno Henrik Koivisto (25. nóvember 1923 – 12. maí 2017) var finnskur stjórnmálamaður sem var níundi forseti Finnlands frá 1982 til 1994. Hann var fyrsti meðlimur Jafnaðarmannaflokksins til að ná kjöri á forsetastól. Koivisto var einnig forsætisráðherra Finnlands í tvígang, árin 1968–1970 og 1979–1982.

Æviágrip

Koivisto fæddist í Turku þann 25. nóvember árið 1923.[1] Hann vann á unga aldri sem trésmiður í höfn borgarinnar og samdi á þeim tíma ritgerð um þjóðfélagsstöðu hafnarverkamanna.[2] Koivisto barðist í framhaldsstríðinu á árunum 1941 til 1944 og var meðlimur í herflokki við fremstu víglínur undir stjórn Lauri Törni.[3]

Koivisto gekk í finnska Jafnaðarmannaflokkinn árið 1946.[2] Hann tók doktorspróf í heimspeki árið 1956 og var tveimur árum síðar skipaður forstjóri sparisjóðs verkamanna í Helsinki.[4]

Árið 1966 varð Koivisto fjármálaráðherra í ríkisstjórn Rafaels Paasio. Hann fylgdi þar mjög strangri stefnu í peningamálum, sem leiddi til þess að hann varð kallaður „nirfillinn“. Á embættistíð hans var hins vegar komið á jafnvægi í efnahagsmálum og dregið úr verðbólgu í Finnlandi. Koivisto var skipaður bankastjóri Finnlandsbanka árið 1968.[4]

Koivisto varð forsætisráðherra Finnlands í fyrsta sinn á árunum 1968 til 1970 og tók aftur við því embætti árið 1979. Vinsældir Koivistos jukust verulega árið 1981 þegar hann neitaði að segja af sér sem forsætisráðherra þrátt fyrir að Urho Kekkonen, forseti Finnlands, hefði farið fram á það. Koivisto gerði forsetanum ljóst að ríkisstjórn hans myndi eingöngu biðjast lausnar ef vantraust yrði samþykkt á hana af finnska þinginu. Óhlýðni Koivistos við Kekkonen, sem hafði verið nær allsráður í finnskum stjórnmálum í þrjá áratugi, þótti til marks um að Kekkonen-tímabilið væri senn á enda.[4]

Koivisto tók við völdum forsetaembættisins til bráðabirgða þegar Urho Kekkonen veiktist í september 1981. Á þessum tíma var ljóst að Koivisto hafði mikinn meðbyr til að taka við af Kekkonen sem forseti lýðveldisins.[5] Þegar kosið var í kjörmannaráð til að velja næsta forseta Finnlands í janúar 1982 hlaut Koivisto 43,3 prósent greiddra atkvæða og 146 kjörmenn af 301.[2] Mótframbjóðendur Koivisto viðurkenndu í kjölfarið ósigur. Eftir sigur sinn í forsetakjörinu gaf Koivisto út að á stjórnartíð hans myndi Finnland halda óbreyttri stefnu í utanríkismálum, sem fælist í því að reyna að varðveita vestrænt þjóðfélags- og stjórnskipulag en viðhalda um leið vinsamlegu sambandi við Sovétríkin.[4]

Eftir að Koivisto tók við af Kekkonen voru völd finnska forsetaembættisins skert verulega og þau færð til þingsins og ríkisstjórnarinnar. Koivisto skipti sér ekki eins mikið af innanlandsmálum Finnlands og Kekkonen hafði gert og lét Kalevi Sorsa forsætisráðherra að mestu um að stýra þeim.[6] Koivisto varð virkur talsmaður þess að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskrá Finnlands til þess að auka þingræði í landinu þannig að ríkisstjórnin yrði eingöngu háð vilja þingsins en ekki forsetans.[7]

Koivisto var endurkjörinn af kjörmannaráði til annars sex ára kjörtímabils árið 1988.[8] Í forsetatíð sinni var Koivisto sagður hafa leitt Finnland nær vesturlöndum og undan áhrifum Sovétríkjanna, sem liðuðust í sundur á valdatíma hans árið 1991. Árið 1990 lét Koivisto færa til bókar á fundi ríkisráðs að ríkisstjórnin teldi Finnland ekki lengur bundið af vináttu-, samstarfs- og aðstoðarsamningi sem landið hafði skrifað undir ásamt Sovétríkjunum árið 1948.[9] Finnar sóttu um og hlutu inngöngu í Evrópusambandið á stjórnartíð hans.[10]

Eiginkona Koivisto, Tellervo Koivisto, greindi frá því í janúar 2017 að eiginmaður hennar hefði greinst með Alzheimer-sjúkdóm.[11] Koivisto lést þann 12. maí sama ár. Sauli Niinistö, þáverandi forseti Finnlands, minntist Koivisto í kjölfarið og sagði að með honum væri gengin kynslóð þeirra Finna sem börðust í seinna stríði og byggðu landið upp eftir það.[10]

Heimildir

  • Borgþór Kjærnested (2017). Milli steins og sleggju: Saga Finnlands. Reykjavík: Skrudda. ISBN 9789935458728.

Tilvísanir

  1. Áslaug Ragnars (20. október 1982). „Mauno Koivisto“. Morgunblaðið. bls. 33–35.
  2. 2,0 2,1 2,2 Þórarinn Þórarinsson (23. janúar 1982). „Verður Koivisto valinn einróma?“. Tíminn. bls. 5.
  3. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 379.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Vinsældir Koivisto tryggðu sigurinn“. Morgunblaðið. 21. janúar 1982. bls. 12.
  5. Gunnlaugur A. Jónsson (23. janúar 1982). „Koivisto styrkir stöðu sína í forsetaslagnum“. Dagblaðið. bls. 8.
  6. Jan-Magnus Jansson (9. mars 1985). „Fyrri hálfleikur Koivistos“. Alþýðublaðið. bls. 4.
  7. Lars Lundsten (3. febrúar 1988). „Valdsvið forseta og samskipti Finna við EB í brennidepli“. Morgunblaðið. bls. 42.
  8. Lars Lundsten (2. mars 1988). „Koivisto tekur við embætti á ný“. Morgunblaðið. bls. 32.
  9. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 380.
  10. 10,0 10,1 Anna Kristín Jónsdóttir (13. maí 2017). „Mauno Koivisto látinn“. RÚV. Sótt 4. apríl 2024.
  11. Atli Ísleifsson (4. janúar 2017). „Fyrrverandi forseti Finnlands með Alzheimer“. Vísir. Sótt 4. apríl 2024.


Fyrirrennari:
Urho Kekkonen
Forseti Finnlands
(27. janúar 19821. mars 1994)
Eftirmaður:
Martti Ahtisaari