Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: Þarf að uppfæra
iPad er spjaldtölva frá bandaríska tölvuframleiðandanum Apple. Tækið er meðal annars notað til að skoða stafrænar bækur (frá iBookstore), myndir og myndbönd, hlusta á tónlist, vafra um á Internetinu og spila tölvuleiki. Stærð og þyngd tækisins er mitt á milli snjallsíma og fartölvu. Stýrikerfi iPad, iOS, er sama stýrikerfið og það sem iPod touch og iPhone nota. Hægt er að nota forrit skrifuð fyrir iPhone á iPad. Án breytinga getur iPad aðeins notað forrit frá App Store, hugbúnaðarveitu Apple. Forritið iWork fæst fyrir iPad, en fylgir ekki með henni.
Eins og iPod Touch og iPhone er iPad með fjölsnertiskjá, ólíkt eldri spjaldtölvum sem þá höfðu þekkst. Þeim var stýrt með stílum og flestar voru með áföstu lyklaborði. Eina lyklaborðið á iPad er á snertiskjá og birtist aðeins þegar það er notað. iPad styður Wi-Fi-samband til að tengjast Internetinu en sumar útgáfur geta notað SIM-kort til að tengjast farsímaneti. Hægt er að sækja gögn eins og tónlist og kvikmyndir fyrir iPad með efnisveitunni iTunes úr tölvu í gegnum USB-kapal. iPad er með örgjörva sem þróaður hefur verið og framleiddur af Apple, Apple A4.
Apple kynnti fyrstu iPad-tölvurnar í janúar 2010. Yfir 3 milljón tæki seldust fyrstu 80 dagana.[1] Árið 2010 seldust 14,8 milljónir iPad-tölva í heiminum,[2][3][4] sem var um 75% af öllum spjaldtölvum sem seldar voru það ár.[5] Eftir að iPad 2 var kynnt í mars 2011 seldust yfir 15 milljón eintök.[6] Búist var við að markaðshlutdeild iPad á spjaldtölvumarkaðinum í Bandaríkjunum yrði um 83% árið 2011.[7]
Saga
Forsaga
Fyrsta spjaldtölvan sem Apple setti á markað var lófatölvan MessagePad 100,[8][9] sem kynnt var árið 1993. Þróun MessagePad 100 fylgdi þróun örgjörvans ARM6 í samstarfi við breska fyrirtækið Acorn Computers. Apple þróaði líka spjaldtölvufrumgerð sem byggð var á PowerBook Duo og hét PenLite, en hætt var við að markaðssetja hana til að minnka ekki sölutekjur af MessagePad.[10] Apple kynnti nokkrar aðrar Newton-lófatölvur, en síðasta tölvan í þeirri línu, MessagePad 2100, var tekin af markaðnum árið 1998.
Apple fór aftur inn á fartækjamarkaðinn árið 2007 með farsímanum iPhone. iPhone er snjallsími sem er smærri en iPad, en með myndavél og farsímavirkni. iPhone var fyrsta tækið frá Apple með fjölsnertiskjá og stýrikerfinu iOS (nefnt iPhone OS á þeim tíma). Orðrómur um að Apple hygðist gefa út spjaldtölvu hafði gengið í nokkur ár fyrir árið 2009. Giskað var á að nafnið á þessari spjaldtölvu gæti verið iTablet eða iSlate.[11] Talið er að nafnið iPad sé tilvísun í tæki úr sjónvarpsþáttunum Star Trek sem heitir PADD og lítur mjög svipað út. Steve Jobs kynnti iPad 27. janúar2010 á blaðamannafundi í Yerba Buena Center for the Arts í San Francisco.[12][13]
Síðar sagði Jobs að þróun á iPad hefði byrjað áður en þróun iPhone, en ákveðið var að setja hana á hilluna þegar hann áttaði sig á að hugmyndin gæti líka gengið fyrir farsíma.[14]
Fyrsta kynslóð
Forpantanir á iPad hófust í Bandaríkjunum 12. mars 2010. Eini munurinn á iPad sem var kynnt og þeirri sem var seld var að tilgangi rofans vinstri megin á tækinu hafði verið breytt: hann slökkti ekki lengur á hljóði heldur á snúningi skjásins. Sölur á iPad með Wi-Fi hófust í Bandaríkjunum þann 3. apríl 2010. Útgáfan með Wi-Fi og 3G kom út 30. apríl sama ár. Farsímafyrirtækið AT&T bauð upp á 3G-þjónustu í Bandaríkjunum og í fyrstu voru tveir áskriftarvalkostir: einn með ótakmarkaðri gagnanotkun og einn með 250 Mb gagnamagni á mánuði. Hægt var að gerast áskrifandi beint á iPad.
Í fyrstu var iPad seld aðeins í Apple Store-verslunum og í netverslun fyrirtækisins. Síðan hún var kynnt hefur iPad fengist í mörgum verslunum meðal annars Amazon, Walmart, Best Buy, Verizon og AT&T. iPad var sett á markað í Ástralíu, Frakklandi, Japan, Kanada, Sviss, Þýskalandi, og á Bretlandi, Ítalíu og Spáni þann 28. maí 2010.[15] Forpantanir hófust á þessum löndum þann 10. maí. iPad var kynnt í Austurríki, Belgíu, Hollandi, Hong Kong, Lúxemborg, Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Singapúr, og á Írlandi þann 23. júlí. Innflutningur tækisins inn í Ísrael var bannaður í stuttan tíma vegna þess að fólk hafði áhyggjur af því að Wi-Fi-kubburinn í iPad gæti truflað önnur tæki. iPad var kynnt opinberlega í Kína þann 17. september 2010.[16]
Tækið var mjög vinsælt en 300.000 stykki seldust fyrsta daginn. Fyrir 3. maí 2010 höfðu milljón iPad-tölvur selst á um helmingi styttri tíma en milljón iPhone höfðu selst á. Á símafund 18. október 2010 tilkynnti Steve Jobs að Apple hefði selt fleiri iPad-tölvur en Macintosh á þeim ársfjórðungi. Samtals seldust um 15 milljónir iPad áður en tilkynnt var um útgáfu iPad 2.
Steve Jobs kynnti iPad 2, aðra kynslóð iPad, þann 2. mars 2011 á blaðamannafundi þótt hann væri í veikindaleyfi á þeim tíma.[17][18] iPad 2 var 33% þynnri en fyrsta iPad, og í henni var hraðari tvíkjarna örgjörvi: Apple A5. Samkvæmt Apple var þessi örgjörvi tvöfalt hraðari en sá sem var í fyrstu iPad-tölvunni. Í nýju útgáfunni voru innbyggðar myndavélar bæði að aftan og framan, hannaðar fyrir FaceTime-vídeósamtöl; og innbyggður snúðnemi. Rafhlaðan í henni entist í 10 klukkustundir, eins og í fyrstu útgáfunni. Verðið var líka svipað.
iPad 2 kom á markað í Bandaríkjunum 11. mars 2011 og fékkst í Apple Store-verslunum og netverslun Apple. iPad 2 var tilkynnt í öðrum löndum 25. mars, meðal annars í Ástralíu, Frakklandi, Kanada, Mexíkó, Þýskalandi, Bretlandi og Íslandi.[19] Kynningu iPad í Japan var frestað vegna hamfaranna í Fúkúsíma 2011.
Að aftan: Vídeóupptaka, HD (720p) allt að 30 ramma á sekúndu með hljóði; stafræn myndavél með 5x zoom (stafrænt) Að framan: Vídeóupptaka, VGA allt að 30 ramma á sekúndu með hljóði; stafræn myndavél (VGA)