Eric Arthur Blair (25. júní 1903 – 21. janúar 1950), betur þekktur undir höfundarheitinu George Orwell, var enskur rithöfundur og blaðamaður. Þekktustu ritverk hans eru Dýrabær og Nítján hundruð áttatíu og fjögur sem gagnrýndu alræðisstefnu og sérstaklega stalínisma.
Ævi
Orwell fæddist á Indlandi, þar sem faðir hans var lágt settur starfsmaður bresku nýlendustjórnarinnar. Móðir hans fór með hann til Englands þegar hann var eins árs og hann ólst upp í Henley-on-Thames með móður sinni og systrum. Föður sinn sá hann ekki aftur fyrr en 1912, að undanskilinni einni snöggri heimsókn. Átta ára að aldri var hann sendur í heimavistarskólann St. Cyprians. Þar leið honum ekki vel. Hann skrifaði seinna minningar sínar frá skólaárunum, Such, Such Were the Joys, en bókin var ekki gefin út fyrr en eftir lát hans og þá var flestum nöfnum breytt til að draga úr líkum á málssókn fyrir meiðyrði. Flestir ævisagnaritarar Orwells telja þó að frásagnir hans af skólalífinu og líðan hans séu ýktar og gefi ekki rétta mynd af raunveruleikanum.
Hann fékk skólavist í Eton og skólastyrk en hafði ekki efni á háskólanámi. Þess í stað fékk hann stöðu í bresku nýlendulögreglunni og var sendur til Burma, þar sem hann var frá 1922-1927. Þá hafði hann einsett sér að gerast rithöfundur, sagði upp starfi sínu og settist að í London. Þar ákvað hann að kynna sér líf og kjör fátæklinga og utangarðsmanna, klæddist tötrum og duldi uppruna sinn og menntun. Seinna flutti hann til Parísar og lifði þar bóhemlífi, starfaði sem blaðamaður en einnig við uppþvott og fleira. Reynslu sína nýtti hann meðal annars í bókinni Down and Out in Paris and London. Bókin kom út í ársbyrjun 1933 og var vel tekið. Næstu árin gaf Orwell út nokkrar bækur en starfaði einnig við kennslu og bóksölu.
Hann gekk að eiga Eileen O'Shaughnessy sumarið 1936. Skömmu síðar hófst spænska borgarastyrjöldin og í árslok ákvað Orwell að fara til Spánar og berjast með lýðveldissinnum. Kona hans fór þangað einnig nokkru síðar. Vorið 1937 var hann skotinn í hálsinn af leyniskyttu og munaði litlu að það yrði bani hans. Hann bjargaðist þó en var dæmdur óhæfur til herþjónustu. Þau hjónin sneru heim til Englands um sumarið en Orwell var heilsuveill. Næstu ár starfaði hann við ritdóma og greinaskrif, svo og hjá BBC, en vorið 1944 lauk hann við Dýrabæ (Animal Farm). Bókin fékkst ekki gefin út strax því að Bretar vildu ekki styggja Sovétmenn, bandamenn sína. Hún var þó gefin út skömmu eftir stríðslok, í ágúst 1945.
Eileen kona Orwells gekkst undir skurðaðgerð 29. mars 1945 og dó á skurðarborðinu, fáeinum mánuðum eftir að þau höfðu ættleitt ungan dreng. Næstu ár dvaldist Orwell öðru hverju á eynni Jura á Suðureyjum og það var að mestu leyti þar sem hann skrifaði Nítján hundruð áttatíu og fjögur. Heilsa hans fór þó síversnandi og hann reyndist kominn með berkla. Bókin kom út í júní 1949 og hlaut þegar mjög góðar viðtökur. Orwell var lagður inn á sjúkrahús um haustið og átti ekki afturkvæmt þaðan. Þann 13. október giftist hann á sjúkrabeði ungri konu, Soniu Bronwell, sem hann hafði þekkt um nokkurra ára skeið, og 21. janúar lést hann.
Stjórnmál
Skoðanir Orwells á stjórnmálum breyttust eftir því sem leið á ævina en alltaf fylgdi hann þó vinstri stefnu. Þjóðfélagsgagnrýni er megininntak bóka hans en hann ræðst ýmist á borgaraleg gildi eða sósíalista og alræðisvald. Dvöl hans í Burma gerði hann að andstæðingi heimsvaldastefnu. Á Spáni varð hann sannfærður sósíalisti en jafnframt and-stalínisti. Hann barðist gegn gyðingahatri en var um leið and-zíonisti.
Skáldsögur
- Down and Out in Paris and London (1933)
- Burmese Days (1934)
- A Clergyman's Daughter (1935)
- Keep the Aspidistra Flying (1936)
- The Road to Wigan Pier (1937)
- Lofgjörð til Katalóníu (Homage to Catalonia) (1938)
- Coming Up for Air (1939)
- Dýrabær (Animal Farm) (1945)
- Nítján hundruð áttatíu og fjögur (Nineteen Eighty-Four) (1949)
Smásögur
- The Spike (1931)
- A Hanging (1931)
- Shooting an Elephant (1936)
- Inside the Whale (1940)
- The Lion and The Unicorn: Socialism and the English Genius (1941)
- Politics and the English Language (1946)
- A Nice Cup of Tea(1946)
- Why I Write(1946)
- Such, Such Were the Joys(1946)
- The Moon Under Water(1946)
- Shooting an Elephant and Other Essays (1950)
Heimild
Tenglar