Eduard Sjevardnadse fæddist í þorpinu Mamati, vestan við Tíblisi á milli Svartahafs og Kákasusfjalla, og var kominn af ætt voldugra stjórnmálamanna. Hann varð virkur í ungliðahreyfingu Georgíudeildar sovéska kommúnistaflokksins og starfaði í tvö ár sem leiðbeinandi hjá þeim áður en hann fékk formlega aðild að flokknum árið 1948. Hann var ráðinn til starfa sem lögreglumaður í sovéska innanríkisráðuneytinu (MVD) og náði þar hershöfðingjatign.[1]
Valdaferill í Sovétríkjunum
Árið 1958 varð Sjevardnadse aðalfulltrúi í miðstjórn georgíska sovétlýðveldisins og árin 1965 til 1972 varð hann innanríkisráðherra þess. Sem innanríkisráðherra varð Sjevardnadse frægur fyrir baráttu gegn spillingu, sér í lagi fyrir rannsókn sína á mesta mútuhneyksli í sögu lýðveldisins. Málið snerist um Otari Lazishvili, vin fyrrverandi saksóknara, sem hafði notað sambönd sín til að hylma yfir ólögleg viðskipti. Rannsókn Sjevardnadse á málinu leiddi til þess að Vasil Mzhavanadze, formaður Georgíudeildar kommúnistaflokksins, var settur af og Sjevardnadse tók við embætti hans.[1]
Sem leiðtogi georgíska sovétlýðveldisins varð Sjevardnadse áfram kunnur fyrir aðgerðir gegn spillingu. Hann gerði auk þess tilraunir til að bæta efnahagslífið með því að auka frumkvæði og valddreifingu og koma á samvinnu milli landbúnaðar og iðnaðar. Hann reyndi jafnframt að virkja áhuga Georgíumanna á sjálfstæðum atvinnurekstri með því að leyfa einkarekstur veitingahúsa og annarra fyrirtækja.[1]
Eftir fráfall Leoníds Brezhnev árið 1982 studdi Sjevardnadse Konstantín Tsjernenko sem eftirmann hans í embætti aðalritara kommúnistaflokksins en Júríj Andropov varð hins vegar fyrir valinu. Andropov lést eftir aðeins rúmt ár við stjórnvölinn og Tsjernenko tók þá við árið 1984, aftur með stuðningi Sjevardnadse. Tsjernenkó varð einnig stuttlífur í embætti og lést árið 1985. Eftir að Míkhaíl Gorbatsjov tók við embætti aðalritara var Sjevardnadse útnefndur utanríkisráðherra Sovétríkjanna í stað hins þaulsætna Andrej Gromyko, sem gerðist forseti forsætisnefndar Æðstaráðs Sovétríkjanna.[1]
Sjevardnadse átti sem utanríkisráðherra nokkurn þátt í að bæta ímynd Sovétríkjanna á alþjóðavettvangi samhliða umbótastefnu Gorbatsjovs heima fyrir. Hann tók meðal annars þátt í að skipuleggja fyrsta fund Gorbatsjovs með Ronald Reagan Bandaríkjaforseta í Genf árið 1985 og frekari viðræður sem leiddu til þess að Bandaríkin og Sovétríkin undirrituðu Samninginn um meðaldrægar kjarnaeldflaugar í lok 1987. Sjevardnadse átti jafnframt þátt í að bæta samskipti Sovétríkjanna við Kína og skipuleggja fund Gorbatsjovs með Deng Xiaoping árið 1989. Á utanríkisráðherratíð hans kölluðu Sovétmenn jafnframt um 100.000 hermenn frá Afganistan, stuðluðu að friðarsamkomulagi í sunnanverðri Afríku um brottför kúbverskra hermanna frá Angóla og sjálfstæði Namibíu og knúðu á Víetnama að draga hermenn sína frá Kambódíu.[2]
Í desember árið 1990 tilkynnti Sjevardnadse að hann hygðist segja af sér sem utanríkisráðherra.[3] Hann kvaðst hafa sætt ofsóknum af hálfu afturhaldsafla innan Sovétríkjanna sem andmæltu umbótastefnu Gorbatsjovs og sagðist óttast að harðlínumenn myndu brátt brjótast til valda í landinu á ný og koma á einræði. Harðlínukommúnistar og herforingjar höfðu margoft vænt Gorbatsjov og Sjevardnadse um að grafa undan öryggi Sovétríkjanna með slökunarstefnu sinni og höfðu sér í lagi gagnrýnt Sjevardnadse fyrir hrun Varsjárbandalagsins og sameiningu Þýskalands.[2] Sjevardnadse sneri aftur í embætti utanríkisráðherra í nóvember 1991 en Sovétríkin voru þá þegar að hruni komin.[4] Hann gegndi ráðherraembættinu þar til Sovétríkin voru formlega leyst upp þann 26. desember 1991.
Valdaferill í Georgíu
Eftir upplausn Sovétríkjanna varð heimaland Sjevardnadse, Georgía, sjálfstætt ríki og Zviad Gamsakhurdia varð fyrsti forseti þess. Gamsakhurdia var hins vegar steypt af stóli í desember 1991 og margir úr röðum valdaránsmanna fóru að líta til Sjevardnadse sem eina mannsins sem gæti viðhaldið stöðugleika í Georgíu.[5] Sjevardnadse sneri heim til Georgíu og var útnefndur leiðtogi ríkisins í mars 1992. Þegar hann tók við völdum logaði Georgía í borgarastyrjöld milli stjórnarinnar, stuðningsmanna Gamsakhurdia og aðskilnaðarsinna í Abkasíu.[6] Með hernaðaraðstoð Rússa tókst stjórn Sjevardnadse að vinna bug á stuðningsmönnum Gamsakhurdia en stjórnin missti hins vegar tök á héruðunum Abkasíu og Suður-Ossetíu, sem klufu sig í reynd frá Georgíu og hafa ráðið sér sjálf upp frá því.[7]
Sjevardnadse var formlega kjörinn forseti Georgíu árið 1995. Samband Georgíustjórnar við Rússa varð fremur stirt á valdatíð hans þar sem Rússar áttu í stríði gegn téténskum aðskilnaðarsinnum við landamæri Georgíu og töldu Sjevardnadse ekki gera nóg til að uppræta téténska skæruliða sem komu sér upp búðum í Pankisi-fjalllendinu innan georgísku landamæranna.[7]
Hagvöxtur var töluverður í Georgíu á fyrstu valdaárum Sjevardnadse en alþýðan naut hans ekki nema að takmörkuðu leyti vegna spillingar og óskilvirkni innan georgísku stjórnarinnar. Þetta leiddi til þess að Sjevardnadse glataði smám saman trausti Georgíumanna. Sjevardnadse var endurkjörinn forseti árið 2000 en eftir þingkosningar sem þóttu einkennast af kosningasvikum missti hann tökin á þjóðinni.[8] Sjevardnadse var steypt af stóli árið 2003 í friðsamlegri byltingu sem kölluð var rósabyltingin.[9]Mikheil Saakashvili, einn af leiðtogum byltingarinnar, var í kjölfarið kjörinn nýr forseti Georgíu.
Eduard Sjevardnadse lést þann 7. júlí árið 2014.[10]