Ólafur Elíasson (fæddur 5. febrúar 1967 í Kaupmannahöfn í Danmörku) er dansk-íslenskur listamaður. Ólafur er þekktastur fyrir skúlptúra og umsvifamiklar innsetningar þar sem hann notar fyrirbæri eins og ljós, vatn og lofthita til að auka reynslu áhorfandans af verkinu. Árið 1995 stofnaði hann Studio Ólafs Elíassonar í Berlín sem er tilraunastofa fyrir rýmisrannsóknir. Ólafur Elíasson var fulltrúi Danmerkur á Feneyjatvíæringnum árið 2003 og síðar það ár setti hann upp The Weather Project í The Turbine Hall í Tate Modern, London.
Ólafur Elíasson hefur tekið þátt í fjölda verkefna á opinberum stöðum, þar á meðal íhlutuninni Green River sem fór fram í ýmsum borgum á árunum 1998–2001, í Serpentine Gallery Pavilion 2007, London, tímabundið Pavilion sem hann hannaði með norska arkitektinum Kjetil Thorsen, New York City Waterfalls árið 2008 sem var á vegum Public Art Fund árið 2008.
Ævi
Ólafur Elíasson er fæddur í Kaupmannahöfn árið 1967 og á íslenska foreldra. Hann stundaði nám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1989–1995.
Árið 2004 sagði Ólafur Elíasson í viðtali við tímaritið Berlin Magazine 032c að faðir hans væri einnig listamaður. Í sama viðtali sagði hann einnig að hann áliti sín fyrstu listaverk vera breikdans frá miðjum níunda áratugnum. Árið 1990 fékk hann ferðastyrk frá Konunglegu listaakademíunni og fór til New York þar sem hann vann sem aðstoðarmaður á vinnustofu listamanns.
Hann útskrifaðist frá skólanum árið 1995 eftir að hafa flutt til Kölnar í eitt ár og eftir það til Berlínar þar sem hann hefur verið með vinnustofu síðan. Hún var upphaflega staðsett í vöruhúsi við hliðina á Hamburger Bahnhof en árið 2008 flutti hann vinnustofuna í gamalt brugghús í Prenzlauer Berg.
Árið 1996 hóf Ólafur Elíasson samstarf með Einari Þorsteini arkitekti og sérfræðingi í rúmfræði. Einar Þorsteinn er 25 árum eldri en Ólafur Elíasson og gamall vinur Buckminster Fuller sem var bandarískur kenningasmiður, arkitekt og hönnuður.
Fyrsta verk þeirra Ólafs Elíassonar og Einars Þorsteins kölluðu þeir 8900054, það var ryðfrí stálhvelfing sem var 9,1 metri á breidd og 2,1 metra há. Verkið var hannað þannig að það leit út fyrir að vaxa úr jörðinni. Þar sem áhrif verksins eru sjónhverfing á mannshugurinn erfitt með að trúa því að mannvirkið sé ekki hluti af stærra og meira ferli djúpt í iðrum jarðar.
Kunnátta Einars Þorsteins á rúmfræði og rými er samofin listrænni framleiðslu Ólafs Elíassonar, þessi áhrif eru auðséð á rúmfræðilegum verkum hans með ljós jafnt sem hvelfingar, göng og verkefnum hans tengd myndavélum. Mörg verkefni vinnur listamaðurinn í samvinnu við sérfræðinga á ýmsum sviðum, þeirra á meðal eru arkitektarnir Einar Þorsteinn og Sebastian Bechmann (báðir hafa verið reglulegir samtarfsmenn Ólafs Elíassonar), rithöfundurinn Svend Åge Madsen (The Blind Pavilion), landslagsarkitektinn Gunther Vogt (The Mediated Motion), Cedric Price hugmyndasmiður í arkitektúr (Chaque matin je me sens différent, chaque soir je me sens le même) og norski arkitektinn Kjetil Thorsen (Serpentine Gallery Pavilion, 2007). Studio Ólafs Elíassonar í Berlín er í dag tilraunastofa fyrir rýmisrannsóknir þar vinnur teymi sem inniheldur 30 arkitekta, verkfræðinga, iðnaðarmenn og aðstoðarfólk sem prófa, búa til og byggja upp innsetningar, skúlptúra, umsvifamikil verk og sjá um skipulagningu.
Sem prófessor í Universität der Künste Berlin, setti Ólafur Elíasson á laggirnar stofnun fyrir tilraunir með rými (Institut für Raumexperimente, IfREX) sem opnaði á sama stað og vinnustofa hans árið 2009.
Verk og verkefni
Ventilator
Eitt af fyrri verkum Ólafs Elíassonar felur í sér sveiflubundnar og rafdrifnar viftur sem hanga niður úr loftinu. Ventilator (1997) sveiflast fram og aftur og í hringi um leið og það hringsnýst um eigin möndul. Quadrible light ventilator mobile (2002–2007) er rafdrifinn órói sem snýst og er ljóskastari og fjórar viftur sem blása lofti um sýningarsalinn og skanna það með ljóskeilu.
Ólafur notaði rakatæki til að búa til fíngerðan úða í loftinu blandaðan sykri og vatni ásamt hálf-kringlóttum diski gerðum úr hundruðum einlitum lömpum sem gáfu frá sér eina tíðni af gulu ljósi. Loftið í salnum var þakið stórum speglum þar sem gestir gátu séð sjálfa sig sem örlitla svarta skugga gagnvart massa af rauðgulu ljósi. Margir gestir brugðust við sýningunni með því að leggjast á bakið og veifa handleggum og fótleggjum. Verkið var sýnt í hálft ár og um tvær milljónir gesta sáu það, þar af margir oftar en einu sinni.
Ljósasýningar
Ólafur hefur þróað ýmsar tilraunir með þéttleika andrúmsloftsins í sýningarsölum. Í Room for one colour (1998), gangur sem var lýstur upp með gulum eintíðnis túbum, upplifði þátttakandinn herbergi fyllt af ljósi sem hafði áhrif á skynjun hans á öllum öðrum litum. Önnur sýning, 360 degrees Room for all colours (2002), sýndi hringlaga ljós-skúlptúr þar sem þátttakendur misstu rýmisskynjun og áttavit, ásamt því að finnast þeir vera hluti af mjög áköfu ljósi. Seinna verk Ólafs, Din blinde passager (2010), umbeðið af Arken nýlistasafninu, er 90 metra löng göng. Þegar gestur gengur inn í göngin er hann umkringdur þéttri þoku. Gestir safnsins geta aðeins séð einn og hálfan meter frá sér og þurfa því að reiða sig á önnur skilningarvit en sjónina til að átta sig á kringumstæðum. Í Feelings are facts, vann Ólafur í fyrsta sinn með kínverska arkitektinum Yansong Ma, þetta var einnig hans fyrsta sýning í Kína. Þar setur Ólafur þétta þokubakka líða um Samtímalistasafn Ullens í Peking. Hundruðum flúorljósa var komið fyrir í lofti safnsins í formi grinda með rauð, græn og blá svæði.
Your black horizon
Þetta verkefni, ljósasýning umbeðin af Samtímalistasafni Thyssen-Bornemisza fyrir Feneyjatvíæringinn í samstarfi við breska arkitektinn David Adjaye, var sýnt frá 1. ágúst til 31. október 2005. Verkið var sýnt á eyjunni San Lazzaro í lóni í grennd við Feneyjar á Ítalíu. Sýningartjald var sett upp á lóð klausturs San Lazzaro til að hýsa sýninguna. Tjaldið samanstóð af svartmáluðu ferhyrningslaga rými, eina lýsingin í rýminu var þunn ljóslína sem lág inni í öllum fjórum veggjum rýmisins í augnhæð sýningargesta. Lýsingin átti að tákna lárétta skiptingu á milli þess sem er fyrir ofan og neðan. Tjaldið var opnað aftur frá júní 2007 þar til í október 2008 á eyjunni Lopud undan ströndum Króatíu, nálægt borginni Dubrovnik.
Your Mobile Expectations: The BMW H2R project
Ólafur Elíasson var ráðinn af BMW til að hanna sextánda bílinn í verkefninu BMW Art Car. Byggt á hugmyndafræði BMW H2R ökutækisins, tóku Ólafur og teymi hans málmblöndu bílsins af grindinni og settu í stað þess nýja burðargrind sem er samtvinnuð af stálstöngum og möskva. Lög af ís voru gerð með því að spreyja um það bil 2000 lítrum af vatni á nokkrum dögum á smíðina. Þegar bílinn er sýndur glóir skúlptúrinn innan frá. Your mobile expectations: BMW H2R verkefnið var til sýnis í hitastýrðum sal í Nýlistasafni San Francisco frá 2007–2008 og í Pinakothek der Moderne í München árið 2008.
The New York City Waterfalls
Ólafur Elíasson var ráðinn af The Public Art Fund til að skapa fjóra manngerða fossa, sem kallaðir eru The New York City Waterfalls, hæð þeirra er frá 27,4-36,6 metrar í New York Harbor. Uppfærsla þeirra var á tímabilinu 26. júní til 13. október 2008. Kostnaðurinn sem var 15,5 milljónir bandaríkjadala gerði þetta að dýrasta listaverkinu síðan Christo og Jeanne-Claude settu upp The Gates í Central Park.
The Parliament of Reality
Vígður þann 15. maí 2009, stendur þessi varanlegi skúlptúr við Bard College, Annandale-on-Hudson, NY. Uppsetningin er byggð á hinu upprunalega íslenska Alþingi, einum fyrsta lýðræðislega vettvanginum í heiminum. Listamaðurinn sér verkefnið sem stað þar sem nemendur og gestir geta safnast saman til að slaka á, ræða hugmyndir eða til rökræðna. Parliament of Reality leggur áherslu á að viðræður séu kjarni alls menntaumhverfis. Manngerða eyjan er umkringd 9 metra hringlaga stöðuvatni, 24 trjám og villtum gróðri. Eyjan sem er 30 metrar að þvermáli er sett saman af skornum blásteini, gólfi sem lítur út eins og áttaviti (byggt á lengdarbaugslínum og siglingakortum), ásamt 30 vatnsbörðum hnullungum sem mynda útisæti fyrir nemendur og almenning til að koma saman. Eyjan er gerð aðgengileg með sex metra rimlatjaldi úr ryðlausu stáli sem skapar þá mynd að gestir séu að ganga inn á svið eða útifund. Froskar safnast saman í þessum vírmöskva á næturna sem skapar ánægjulega hljómkviðu.
Harpa
Ólafur Elíasson hannaði hjúpinn sem umlykur Hörpu, hina nýju tónleikahöll og ráðstefnumiðstöð Reykjavíkur sem var tilbúinn árið 2011. Í náinni samvinnu við vinnustofuteymi sitt, Henning Larsen Architects og Batteríið arkitekta hönnuði byggingarinnar, hefur Ólafur hannað einstakan hjúp sem er myndaður úr stórum tólfhliða staflanlegum mótum af stáli og gleri. Hjúpurinn mun endurspegla borgarlífið og mismunandi birtu sem er blanda af hreyfingum sólarinnar og fjölbreytilegu veðri. Á kvöldin eru glersteinarnir lýstir af LED ljósum af mismunandi litum. Byggingin var vígð 13. maí 2011.
Your rainbow panorama
Árið 2007 var hugmynd Ólafs að listaverki sem fullgera átti ARoS Aarhus-listasafnið í Árósum valin ásamt fimm öðrum tillögum af dómnefnd. Listaverk Ólafs, Your rainbow panorama, samanstendur af rúmlega 45 metra löngum og tæplega eins metra breiðum hringlaga gangi úr gleri í öllum regnbogans litum. Hið litríka meistaraverk er 52 metrar í þvermál og stendur á grönnum súlum þrjá og hálfan metra ofan við þak safnsins. Á kvöldin og nóttunni er verkið lýst upp að innan af kösturum í gólfinu. Bygging verksins kostaði 60 milljónir danskra króna. Hún hófst í maí 2009 og lauk í maí 2011.
Önnur verkefni
Árið 2006 var listaverk eftir Ólaf pantað af Louis Vuitton; lampar sem nefndir voru Eye See You og var þeim komið fyrir í jólagluggum verslana hönnuðarins. Lampi sem nefndur var You See Me var settur í varanlega sýningu í einni verslananna sem staðsett er á Fifth Avenue í New York. Þær fjárhæðir sem söfnuðust af verkinu voru ánafnaðar 121Ethiopia.org, góðgerðarstofnun sem Ólafur kom á laggirnar ásamt konu sinni.