Guðmundur Víðir Reynisson (f. 22. apríl1967) er íslenskur þingmaður fyrir Samfylkinguna.
Hann starfaði áður sem lögreglumaður og yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra.
Víðir er fæddur í Vestmannaeyjum og ólst þar upp til ellefu ára aldurs. Hann var ungur meðlimur í Hjálparsveit skáta og nam trésmíði áður en hann varð lögreglumaður.
Lögregluferill
Á ferli sínum í lögreglunni hefur Víðir meðal annars unnið sem deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, sem lögreglufulltrúi á Suðurlandi og öryggisfulltrúi Knattspyrnusambands Íslands. Hann hefur jafnframt tekið þátt í samræmdum aðgerðum gegn ýmsum náttúruhamförum á Íslandi, þar á meðal snjóflóðum á Vestfjörðum 1995, jarðskjálftum á Suðurlandi árin 2000 og 2008, eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og í Grímsvötnum 2011.[1]
Kórónuveirufaraldur
Víðir varð landsþekktur á Íslandi í kórónaveirufaraldrinum árið 2020. Vegna yfirvegaðrar framkomu sinnar á daglegum upplýsingafundum um veiruna vann hann sér inn almennar vinsældir meðal Íslendinga og frasinn „Ég hlýði Víði“ náði talsverðri útbreiðslu til þess að hvetja til fylgni við samkomubannið sem sett var til að hefta útbreiðslu veirunnar.[2]
Víðir hlaut þó gagnrýni fyrir mikinn gestagang á heimili sínu í nóvember 2020 þegar fólk var hvatt að einangra sig. Hann og kona hans smituðust eftir þónokkrar heimsóknir á stuttum tíma.[3]