Suður-Múlasýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueining á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins. Íbúar eru kallaðir Sunnmýlingar.
Margir staðir í sýslunni eru farnir í eyði og á það sérstaklega við inndali og annnes. Þá er mestallur Mjóifjörður í eyði, suðurbyggð Norðfjarðar, Kálkur í Eskifirði og suðurdalir Berufjarðar. Á Héraði er enn mikil byggð. Þar er einna mesta undirlendið í sýslunni sem og í Breiðdal.
Ströndin er vogskorin og firðirnir margir. Þeir eru (taldir að sunnan):
Út af ströndinni eru eyjarnar Seley fyrir mynni Reyðarfjarðar, Andey og Skrúður fyrir utan Fáskrúðsfjörð og Papey fyrir Hamarsfirði.
Í sýslunni eru að minnsta kosti 35 tindar yfir 1.100 metra hæð þó nær hún hvergi inn að miðhálendinu. Þessi tindar eru að mestu úr basaltlagastafla sem myndaðist fyrir 4-13 milljón árum síðan. Þá eru elstu berglögin austast, þ.e. í sjávarmáli við Gerpi, en þau yngstu á Hraununum við Vatnajökul. Margar þekktar megieldstöðvar eru innan sýslunnar og er ein þeirra út af Norðfjarðarflóa, ein í Reyðarfirði, ein í Skriðdal, sú næsta í Breiðdal, tvær í Álftafirði og fleiri þar í suðurfjörðunum. Þá hafa roföfl jökla smám saman sorfið af þessum fjöllum og mynduðu meðal annars dældina þar sem Lagarfljót er í dag. Á nokkrum stöðum er að finna surtarbrand í jarðlagastaflanum sem og geislasteina (zeolíta) í Berufirði. Þá var silfurberg um langan aldur unnið úr Helgustaðanámu í Reyðarfirði.
Fjöll í sýslunni eru gróðurlítil en dalirnir gróskumiklir. Stærsta samfellda gróðursvæðið er Hérað en þar er líka stærstu skógar landsins s.s. Hallormsstaðaskógur.
Stjórnsýsla
Í sýslunni eru þrír kaupstaðir; Egilsstaðir, Neskaupstaður og Eskifjörður. Þá eru þéttbýlismyndanir á Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Búðakaupstaður í Fáskrúðsfirði, Búðareyri eða Reyðarfjörður í Reyðarfirði, Brekka í Mjóafirði og í Berufirði. Núverandi Sýslumaður á Eskifirði heitir Inger Linda Jónsdóttir.
Sýslumaður situr á Eskifirði en sýslan öll er lögsagnarumdæmi. Þá er hún öll eitt prófastsdæmi, Austfjarðaprófastsdæmi, utan tveggja prestakalla á Héraði sem tilheyra Múlaprófastsdæmi. Prestaköllin eru:
Norðfjarðarprestakall; með kirkjum að Norðfirði og Brekku
Eskifjarðarprestakall; með kirkjustöðunum Eskifirði og Reyðarfirði
Kolfreyjustaðarprestakall með kirkjum á Kolfreyjustöðum og Búðum
Heydalaprestakall; með kirkjum að Heydölum og Stöðvarfirði
Djúpavogsprestakall; með kirkjustöðunum Djúpavogi, Berunesi, Berufirði og Hofi í Álftafirði
Þá eru í Múlaprófastsdæmi Vallanesprestakall, með kirkjum að Vallanesi, Þingmúla og Egilsstaðabæ, og Eiðaprestakall, með kirkjum á Eiðum, Hjaltastað, Kirkjubæ og Sleðbrjót í Norður-Múlasýslu.
Sveitarfélög
Í Suður-Múlasýslu eru eftirtalin sveitarfélög (fyrrverandi innan sviga):