Breiðdalur

Breiðdalsvík við mynni Breiðdals.

Breiðdalur er dalur í Suður-Múlasýslu, upp af Breiðdalsvík, og er landmestur dala á Austfjörðum. Um hann rennur Breiðdalsá, allgóð veiðiá. Dalurinn skiptist um fjallið Kleifarháls í tvo dali, Norðurdal, sem er þrengri, og Suðurdal, en um hann liggur Þjóðvegur 1 upp á Breiðdalsheiði. Umhverfis Breiðdal eru há og tignarleg fjöll og eru þau hæstu yfir 1100 metrar á hæð, mörg litauðug af líparíti, einkum fjöllin sunnan dalsins, milli Berufjarðar og Breiðdals.

Breiðdalur er grösug sveit og víða má sjá skógarkjarr. Sauðfjárrækt er einn helsti atvinnuvegur hreppsbúa, auk þess sem fiskvinnsla er stunduð í þorpinu Breiðdalsvík. Þekktasti bærinn í Breiðdal er kirkjustaðurinn Heydalir eða Eydalir. Þekktastur presta þar var Einar Sigurðsson í Eydölum.

Stefán Einarsson prófessor fæddist á Höskuldsstöðum í Breiðdal.

Tengill