Juan Ramón Jiménez fæddist í Andalúsíu. Hann lagði stund á myndlist og lögfræði við Háskólann í Sevilla en uppgötvaði fljótlega að köllun hans væri ljóðlistin. Hann sendi frá sér fyrstu tvær bækur sínar einungis átján ára að aldri, en um svipað leyti missti hann föður sinn leiddi til alvarlegs þunglyndis. Í lækningaskyni var hann sendur á heilsuhæli í Madríd sem stýrt var af nunnum. Síðar samdi Jiménez fjölda lostafullra kvæða sem vísa til eldheitra ástarleikja með starfsstúlkum á heilbrigðisstofnun, en óvíst er hvort um raunverulegar lýsingar var að ræða.
Glíman við andlegu veikindin tók langan tíma en árið 1916 tók hann saman við skáldkonuna Zenobiu Camprubí sem varð stoð hans og stytta það sem eftir var ævinnar. Þegar spænska borgarastyrjöldin braust út flúði parið til Bandaríkjanna og settust síðar að í Puerto Rico þar sem Jiménez varð áhrifamikill kennari í bókmenntum.
Hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1956 en það varpaði skugga á þau að kona hans lést tveimur dögum síðar úr krabbameini. Jiménez jafnaði sig aldrei eftir fráfall hennar og dó sjálfur tveimur árum síðar.