Jafnaðarmannaflokkurinn eða Sósíaldemókrataflokkurinn (danska: Socialdemokratiet; áður Socialdemokraterne frá 2002 til 2016[1]) er sósíaldemókratískurstjórnmálaflokkur í Danmörku. Flokkurinn var stofnaður árið 1871, komst fyrst á danska þingið árið 1884 og hefur orðið stærsti flokkurinn á þinginu í flestum kosningum frá árinu 1924. Jafnaðarmannaflokkurinn er svipaður norska Verkamannaflokknum og sænska Jafnaðarmannaflokknum í stefnumálum.
Fyrir þingkosningar árið 2011 lagði flokkurinn áherslu á að efla einkageirann, byggja upp nauðsynlega innviði, styrkja opinberar heilsugæslur, fjölga námsstyrkjum ásamt því að draga úr skrifræði.[2] Frá árinu 2015 hefur flokkurinn færst til vinstri í efnahagsmálum en hefur um leið orðið gagnrýninn í garð alþjóðavæðingar og hefur stutt strangar reglur gegn aðflutningi innflytjenda til Danmerkur.
Mette Frederiksen hefur verið formaður flokksins frá árinu 2015. Varaformaður flokksins er verslunarráðherrann Mogens Jensen. Þingflokksformaður Jafnaðarmanna er Henrik Dam Kristensen. Flokkurinn situr nú við stjórn minnihlutastjórnar í Danmörku með Frederiksen sem forsætisráðherra.
Stefna og skipulag
Í byrjun stefnuskrár flokksins stendur: „Áherslumál Jafnaðarmannaflokksins er að vinna að útbreiðslu lýðræðislegra, sósíalískra hugsjóna, að fá viðurkenningu á stefnumálum flokksins og að efla efnahags-, menningar- og stjórnmálahagsmuni í samræmi við stefnuskrána.“[3]
Jafnaðarmannaflokkurinn telur til sín 57.000 meðlimi og á kjörtímabilinu 2014-17 voru 33 af 98 borgarstjórum landsins meðlimir í flokknum. Flokkurinn telur jafnframt til sín 2 af 5 héraðsstjórum Danmerkur, í Norður-Jótlandi, Mið-Jótlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Aðalritari flokksins er Jan Juul Christensen. Ungliðahreyfing Jafnaðarmannaflokksins er Danmarks Socialdemokratiske Ungdom (DSU) og formaður hennar er Frederik Vad Nielsen.
Jafnaðarmannaflokkurinn hefur jafnan átt mestu fylgi að fagna í verkamannahverfum, í kringum Kaupmannahöfn, í stórborgunum á Jótlandi, í vesturhluta Sjálands og á eyjunum á Stórabeltistengingunni.
Saga
Jafnaðarmannaflokkurinn var stofnaður árið 1871 að undirlagi Louis Pio, Haralds Brix og Pauls Geleff. Ásetningur þeirra var að sameina hina ört vaxandi verkalýðsstétt Danmerkur í einn sósíalískan flokk. Fyrsta stefnuskrá flokksins var samþykkt á flokksþingi í Frederiksberg þann 8. júní árið 1876. Flokkurinn átti erfitt uppdráttar á fyrstu árum sínum og fékk enga kjörna þingmenn fyrr en eftir aldamótin. Stofnun Danska alþýðusambandsins (LO) árið 1898 hjálpaði flokknum að ná undir sig fótunum.
Stefnuskrá flokksins frá árinu 1913 var síðasta marxíska grunnstefnan, en hún stóð óbreytt til ársins 1961. Þegar kosningaréttur kvenna var samþykktur í Danmörku árið 1915 jókst verulega stuðningur við Jafnaðarmannaflokkinn, sem hafði þá lengi stutt útvíkkun kosningaréttarins. Flokksformaðurinn Thorvald Stauning gekk árið 1916 í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar en þetta var undantekning á annars stöðugri setu flokksins í stjórnarandstöðu.
Straumhvörf urðu í sögu flokksins á flokksþingi árið 1923, þegar flokksmenn lýstu yfir vilja til að mynda ríkisstjórn í miðri kreppunni sem þá geisaði. Í kosningum árið 1924 varð Jafnaðarmannaflokkurinn stærsti flokkurinn á þingi með um 36,6 prósentum atkvæða og fékk í fyrsta sinn að mynda eigin ríkisstjórn með Thorvald Stauning sem forsætisráðherra. Ríkisstjórn Venstre leysti stjórn Jafnaðarmanna af hólmi árið 1926 en eftir niðurskurð þeirrar stjórnar í félagsútgjöldum komust Jafnaðarmenn undir stjórn Stauning aftur til valda árið 1929, með sagnfræðinginn P. Munch sem utanríkisráðherra.
Stjórn flokksins á kreppuárunum á fjórða áratugnum varð honum til enn frekari vinsælda og í kosningum árið 1935 hlaut flokkurinn 46,2 prósent atkvæða. Eftir innrás nasista í Danmörku í seinni heimsstyrjöldinni reyndi ríkisstjórn Jafnaðarmanna að vinna með hernámsliði Þjóðverja. Í kosningum sem haldnar voru árið 1943, á meðan á hernáminu stóð, hlutu Jafnaðarmenn 44,5 prósent atkvæða og stjórn þeirra hélt velli. Samstarf stjórnarinnar við þýska hernámsliðið varð hins vegar mjög óvinsælt og leiddi til þess að stuðningur við Jafnaðarmenn skrapp verulega saman. Borgaralegir hægriflokkar tóku völdin á ný eftir kosningar árið 1945.
Jafnaðarmanninum Hans Hedtoft tókst að mynda nýja ríkisstjórn árið 1947 og á stjórnartíð hans gerðust Danir stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Á sjötta áratugnum kynnti stjórn flokksins almannatryggingar til sögunnar í Danmörku. Jafnaðarmannaflokkurinn sat við stjórn Danmerkur með fáum undantekningum til ársins 1982. Niðurskurður í opinberum útgjöldum árið 1967 leiddi til þess að Sósíalíski þjóðarflokkurinn klauf sig úr Jafnaðarmannaflokknum og til þess að borgaralegir hægriflokkar tóku völdin árin 1967 til 1971. Lengstu setur flokksins í stjórnarandstöðu síðan þá hafa verið stjórnarár Pouls Schlüter frá 1982 til 1993 og stjórnartíð Venstre í ráðherratíðum Anders Fogh Rasmussen og Lars Løkke Rasmussen frá 2001 til 2011.
Poul Nyrup Rasmussen var forsætisráðherra fyrir Jafnaðarmannaflokkinn frá 25. janúar 1993 til 27. nóvember 2001. Hann hvatti til þess að Danir samþykktu Maastrichsáttmálann, sem var gert þegar 57% kjósenda greiddu atkvæði með honum í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 18. maí árið 1993.
Á 21. öld
Flokkurinn tapaði verulegu fylgi í byrjun 21. aldar og árið 2001 glataði hann í fyrsta sinn frá árinu 1924 stöðu sinni sem stærsti flokkurinn á danska þinginu. Flokkurinn bað ósigur í kosningum árið 2005 fyrir ríkisstjórn Venstre og Anders Fogh Rasmussen. Þegar Rasmussen boðaði til nýrra kosninga árið 2007 vonuðust margir Jafnaðarmenn til þess að nýji flokksformaðurinn, Helle Thorning-Schmidt, myndi auka fylgi þeirra, en í kosningunum brugðust vonir þeirra og flokkurinn hlaut aðeins um fjórðungsfylgi.
Á næstu árum þurfti flokkurinn að aðlagast nýjum pólitískum veruleika þar sem hryðjuverkaógnin og vinnuaflsskortur hafa erfiðað flokkum að marka skýra stefnu í innflytjendamálum.[4] Í mars árið 2008 mældist Sósíalíski þjóðarflokkurinn með um 20-22 % fylgi í skoðanakönnunum en Jafnaðarmannaflokkurinn aðeins með um 18-22 % eftir að hinir fyrrnefndu gengu lengra í því að gagnrýna íslamska öfgatrúarmenn í kjölfar deilu um skopmyndir af Múhameð spámanni.[5]
Jafnaðarmannaflokkurinn náði að rétta úr kútnum fyrir kosningar árið 2011, þar sem hann hélt um fjórðungsfylgi og tókst að stofna ríkisstjórn ásamt Sósíalíska þjóðarflokknum og Róttæka vinstriflokknum með Helle Thorning-Schmidt sem forsætisráðherra. Jafnaðarmannaflokkurinn jók lítillega við fylgi sitt í kosningum árið 2015 en fylgi hinna vinstriflokkanna nægði ekki til að halda stjórninni við. Flokkurinn fór því aftur í stjórnarandstöðu, Thorning-Schmidt sagði af sér sem flokksformaður og Mette Frederiksen settist á formannsstólinn.
Í formannstíð Frederiksen hefur flokkurinn færst lengra til vinstri í efnahagsmálum en hefur um leið tekið harðari afstöðu í garð innflytjenda og hælisleitenda og hefur í síauknum mæli gagnrýnt alþjóðavæðingu. Flokkurinn viðhélt svipuðu fylgi eftir kosningar árið 2019 en vinstriblokkin náði meirihluta á ný og Frederiksen tókst að stofna minnihlutastjórn sem tók við völdum þann 27. júní.[6] Eftir kosningar í nóvember 2022 myndaði Jafnaðarmannaflokkurinn stjórn yfir miðju ásamt Venstre og Moderaterne.[7][8]