Vance ólst upp í stáliðnaðarbænum Middletown í Ohio. Móðir hans var fíkill og Vance segist sumpart hafa alið sig upp sjálfur þegar ástand hennar var með versta móti. Þegar hann var í tíunda bekk flutti hann til ömmu sinnar. Hann gekk í landgöngulið Bandaríkjahers til þess að geta átt efni á námi við Ríkisháskólann í Ohio. Hann útskrifaðist þaðan með glæsibrag og lærði síðan lögfræði við Yale-háskóla.[3]
Vance varð frægur í Bandaríkjunum árið 2016 þegar hann gaf út sjálfsævisöguna Hillbilly Eligy. Í bókinni lýsti Vance uppvexti sínum við fátæklegar aðstæður í Ohio. Bókin var síðar gerð að kvikmynd af streymiveitunni Netflix.[3]
Á námsárum sínum í Yale kynntist Vance auðmanninum og frjálshyggjumanninumPeter Thiel, sem er gjarnan talinn hafa komið Vance til metorða. Thiel réð Vance í vinnu hjá fjárfestingarfyrirtæki sínu árið 2017 og hjálpaði honum að klífa metorðastigann innan Repúblikanaflokksins. Thiel fjármagnaði jafnframt framboð Vance til öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir Ohio árið 2022 og hjálpaði honum að koma sér upp tengslaneti í tæknigeiranum.[4]
Vance var andsnúinn Trump fyrir forsetakosningarnar 2016 og var bendlaður við „Never Trump“-hreyfinguna innan Repúblikanaflokksins. Árið 2016 skrifaði hann skilaboð til vinar síns sem síðar var lekið, þar sem hann sagði: „Ég get ekki ákveðið hvort mér þyki Trump bituryrtur fáviti eins og Nixon, sem væri ekki sem verst (og gæti reynst gagnlegt) eða hvort hann sé Hitler Ameríku.“[5]
Vance fór að styðja Trump eftir að Trump var kjörinn forseti. Honum tókst að fá stuðningsyfirlýsingu Trumps þegar hann bauð sig fram í forvali Repúblikanaflokksins fyrir öldungadeildarþingskosningar í Ohio árið 2022. Vance vann tilnefningu flokksins og var kjörinn á þing í kjölfarið.[3] JD Vance var kjörinn varaforseti í forsetakosningunum 2024 og tekur við embætti af Kamölu Harris þann 20. janúar2025. Hann mun segja af sér þingmennsku áður en hann tekur við embætti varaforseta.[6]
Vance hefur ítrekað gagnrýnt fólk, sér í lagi konur, sem velur að eignast ekki börn. Í viðtali árið 2020 sagði hann að barnleysi gerði fólk siðspillt og drægi úr stöðugleika samfélagsins. Vance hefur jafnframt viðrað þá skoðanir að atkvæði barnafjölskyldna ættu að vega þyngra en barnlauss fólks í kosningum.[4] Árið 2021 lét hann þau orð falla að Demókrataflokkurinn samanstæði af „barnlausum kattarkonum sem lifi í eymd“ og vilji gera annað fólk óhamingjusamt vegna óánægju þeirra með líf sitt og val. Vance hefur í seinni tíð sagt ummælin hafa verið í kaldhæðni, en hefur þó ítrekað að hann telji stefnu Demókrataflokksins fjandsamlega barneignum.[7]