María Ástríður, Hinrik af Lúxemborg, Jóhann, Margrét, Vilhjálmur
Jóhann (5. janúar 1921 – 23. apríl 2019) var stórhertogi Lúxemborgar frá 1964 þar til hann sagði af sér árið 2000.
Jóhann var elsti sonur stórhertogaynjunnar Karlottu og eiginmanns hennar, Felix prins. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar flúði hann land ásamt móður sinni og öðrum ættingjum undan innrás nasista. Hann gegndi herþjónustu í breska hernum í stríðinu ásamt föður sínum og tók þátt í innrásinni í Normandí og frelsun Lúxemborgar undan hernámi Þjóðverja árið 1944.[1][2][3]
Í apríl árið 1953 kvæntist Jóhann Jósefínu Karlottu, dóttur Leópolds 3. Belgíukonungs.[3] Jóhann tók við ríkinu af móður sinni þegar hún ákvað að segja af sér árið 1964. Gott orð fór af Jóhanni sem stórhertoga Lúxemborgar og á ríkisárum hans naut landið bæði efnahagslegrar farsældar og pólitísks stöðugleika. Georges Pompidou, forseti Frakklands, sagði í kímni um Jóhann: „Ef Evrópa ætti að kjósa sér arfgengan forseta yrði það vafalaust stórhertoginn af Lúxemborg.“[4]
Jóhann ákvað að afsala sér völdum eftir 36 ára valdatíð árið 2000 til elsta sonar síns, Hinriks. Hann lést tæpum nítján árum síðar, þann 23. apríl 2019.[2]