Filippus 2. (21. ágúst1165 – 14. júlí1223) eða Filippus Ágústus var konungur Frakklands frá 1180 til dauðadags. Hann var einn áhrifamesti konungur Frakka á miðöldum, stækkaði ríki sitt verulega og jók völd konungsins. Undir stjórn hans jókst velmegun í Frakklandi og hann var vinsæll meðal þegna sinna.
Uppvöxtur
Filippus var sonur Loðvíks 7. og þriðju konu hans, Adelu af Champagne. Áður hafði faðir hans eignast fjórar dætur í tveimur hjónaböndum, hafði verið kvæntur Adelu í fimm ár og var orðinn 45 ára, sem var nokkuð hár aldur á 12. öld, svo að hann var orðinn langeygur eftir erfingja. Filippus var líka framan af oft kallaður Dieudonné (guðsgjöf). Þegar hann var þrettán ára villtist hann frá félögum sínum á veiðum og lá úti í skógi heila nótt. Hann veikist af volkinu og var talinn í lífshættu. Loðvík fór í pílagrímsferð til Kantaraborgar til að biðja fyrir lífi sonar síns.
Heilsufar Loðvíks fór hraðversnandi og hann lét krýna Filippus meðkonung sinn í Reims1. nóvember1179 og 28. apríl vorið eftir giftist Filippus svo Ísabellu af Hainaut, sem var nýorðin tíu ára. Hún færði honum greifadæmið Artois í heimanmund. Í raun fékk Filippus öll völd í sínar hendur strax eftir krýninguna því faðir hans varð smátt og smátt elliær. Það líkaði móður hans og bræðrum hennar fjórum (tveir þeirra voru jafnframt tengdasynir Loðvíks) illa því þau höfðu ráðið afar miklu síðustu stjórnarár Loðvíks. Hann dó svo 18. september1180 og Filippus varð konungur, fimmtán ára að aldri.
Filippus og Hinrik 2.
Filippus hóf stríð við Filippus greifa af Flæmingjalandi 1181 vegna yfirráða yfir Vermandois-héraði og náði hluta þess á sitt vald við friðarsamninga. Árið 1183 dó svo Hinrik ungi, elsti sonur Hinriks 2. Englandskonungs. Hann hafði verið giftur Margréti systur Filippusar, sem krafðist þess að heimanmundi hennar yrði skilað þar semþau voru barnlaus. Hinrik var tregur til en Filippus fylgdi kröfunni fast eftir, einkum þegar Bela 3. Ungverjalandskonungur bað um hönd ekkjunnar, og Hinrik lét að lokum undan.
Filippus og Geoffrey Plantagenet, hertogi af Bretagne, fjórði sonur Hinriks 2., voru miklir vinir og stundum í bandalagi gegn Hinrik. Hann var raunar á stundum góðvinur allra sona Hinriks og notaði þá gegn föður þeirra þegar honum hentaði, en vinátta þeirra Geoffreys hélst sterk allt þar til Geoffrey dó óvænt í París 1186. Þá krafðist Hinrik þess að fá forræði yfir Arthúr syni hans, sem fæddist eftir lát hans. Filippus taldi sig hins vegar réttan forráðamann drengsins þar sem Bretagne var hluti af Frakklandi og Arthúr því lénsmaður Filippusar. Hann krafðist þess líka að Ríkharður ljónshjarta, sonur Hinriks, giftist Alísu systur hans, en þau höfðu verið heitbundin frá barnsaldri og Alísa ólst upp við ensku hirðina.
Þessar deilur urðu tilefni styrjaldar og gerði Filippus í fyrstu bandalag við Ríkharð og Jóhann landlausa, syni Hinriks, sem voru í uppreisn gegn föður sínum. Árið 1189 fóru þeir Ríkharður og Filippus í herför gegn Hinrik 2. og unnu sigur á her hans 4. júlí1189. Tveimur dögum síðar dó Hinrik og Ríkharður varð konungur Englands.
Þriðja krossferðin
Filippus og Ríkharður fóru saman í Þriðju krossferðina1190. Þeir höfðu vetursetu í Messína á Sikiley og sigldu þaðan til Landsins helga um vorið. Filippus kom þangað á undan og hóf umsátur um Akkó. Ríkharður kom svo í júníbyrjun og Akkó gafst upp 12. júlí en þá var Filippus illa haldinn af blóðkreppusótt. Hann varð líka ósáttur við Ríkharð vegna framkomu hans eftir fall Akkó og ákvað að snúa heim til Frakklands. Hann skildi þó eftir tíu þúsund manna herlið undir stjórn Húgós 3. hertoga af Búrgund.
Ríharður hafði endanlega slitið trúlofun sinni við Alísu systur Filippusar í Messína 1191 og gifst Berengaríu af Navarra. Heimanmundur hennar, sem að hluta til var Vexin, hernaðarlega mikilvægt hérað í Frakklandi, hefði átt að endurgreiðast en til að halda frið milli þeirra í krossferðinni hafði Filippus fallist á að Ríkharður skyldi halda Vexin og það ganga til karlkyns erfingja hans en ef hann eignaðist ekki erfingja skyldi Filippus fá héraðið aftur. En þegar Filippus kom aftur til Frakklands haustið 1191 vildi hann reyna að ná Vexin. Hann hafði þó svarið Ríkharði eið um að láta lendur hans vera á meðan hann væri fjarverandi. Hann sýndi því fulltrúum Ríkharðs gögn sem áttu að sanna að Ríharður hefði fallist á að afhenda honum Vexin á ný en þeir tóku ekki mark á þeim. Hann gerði líka bandalag við Jóhann, bróður Ríkharðs.
Barist um Normandí
Þegar Filippus frétti af því 1193 að Ríkharður hefði verið tekinn höndum á leið heim úr krossferðinni var hann fljótur að ráðast inn í Vexin. Síðan hélt hann áfram og réðist langt inn í Normandí og settist um Rúðuborg í félagi við Baldvin greifa af Flæmingjalandi en jarlinum af Leicester, sem þar var í forsvari, tókst að verjast þeim. Í júlí 1193 samdi Filippus við ráðgjafa Ríkharðs um að hann skyldi halda því landi sem hann hafði náð en skila því ef Ríkharður vottaði honum hollustu sína. Filippus og Jóhann reyndu að múta Hinrik 6. keisara til að hafa Ríkharð lengur í haldi en þar sem búið var að safna saman lausnargjaldi til að greiða fyrir hann neitaði keisarinn. Ríkharður kom heim til Englands 13. mars og þann 12. maí lagði hann af stað í herför til Normandí.
Filippus hafði náð stórum hluta héraðsins á sitt vald en Ríkharði tókst að vinna nokkra sigra á liði hans þótt aldrei kæmi til meiri háttar bardaga. Á næstu árum gekk á ýmsu en smátt og smátt hallaði á Filippus, ekki síst eftir að Baldvin af Flæmingjalandi gekk í lið með Ríkharði 1197 og Ottó 4., systursonur Ríkharðs, varð keisari 1198. Um sumarið réðist Filippus á Vexin en Ríkharður kom að honum óvörum og á flóttanum var Filippus næstum drukknaður þegar brú hrundi undan þunga herliðsins. Um haustið hafði Ríkharður náð aftur nær öllu því landsvæði sem Filippus hafði tekið 1193. Konungarnir tveir hittust í janúar 1199 - Ríkharður stóð á báti úti í Signu, Filippus stóð á árbakkanum og þeir kölluðust á - og í framhaldi af því var samið um fimm ára vopnahlé. En seinna sama ár féll Ríkharður í umsátri um kastala aðalsmanns sem gert hafði uppreisn gegn honum.
Átök við Jóhann landlausa
Jóhann landlausi, yngsti sonur Hinriks 2., varð þá konungur og jafnframt hertogi af Normandí og þeir Filippus skrifuðu undir friðarsamninga í maí árið 1200. Arthúr hertogi af Bretagne, hinn ungi sonur Geoffreys, gerði einnig tilkall til krúnunnar og Filippus hafði stutt hann fyrst í stað en sneri nú við blaðinu og viðurkenndi Jóhann sem konung. Í staðinn var landamærum Normandí breytt svo að hertogadæmið minnkaði verulega og Jóhann samþykkti líka að greiða Filippusi stórfé. Til að innsigla sættina var samið um hjónaband Loðvíks, elsta sonar Filippusar, og einhverrar af dætrum Elinóru Kastilíudrottningar, systur Jóhanns, og varð Blanka fyrir valinu.
Friður komst þó ekki á því mikil óánægja með stjórn Jóhanns á hertogadæminu Akvitaníu leiddi til uppreisnar þar, sem Filippus studdi í laumi og árið 1202 lýsti hann aftur yfir stuðningi við Arthúr hertoga og gekk frá trúlofun hans og sex ára dóttur sinnar, Maríu. En síðar sama ár náði Jóhann Arthúri á sitt vald og fljótlega hvarf hann sjónum og urðu afdrif hans aldrei ljós þótt flestir þættust þess fullvissir að Jóhann hefði látið myrða hann. Þetta jók mjög andstöðu við Jóhann, sem flúði til Englands, og í árslok 1204 hafði Filippus náð mestöllum löndum hans í Frakklandi á sitt vald.
Tvíkvæni konungs
Ísabella drottning dó af barnsförum árið 1190 og lét eftir sig einn son, Loðvík. Filippus giftist Ingibjörgu, dóttur Valdimars mikla Danakonungs, 15. ágúst1193, og var hún nefnd Isambour í Frakklandi. En af einhverri ástæðu fylltist Filippus óbeit á henni þegar eftir brúðkaupið. Hann vildi ekki láta krýna hana drottningu. Þremur mánuðum eftir brúðkaupið lét Filippus kalla saman prestastefnu og lagði þar fram falsað ættartré sem sýndi að Ingibjörg hefði verið of skyld fyrri konu hans til að þau mættu eigast. Var því hjónaband þeirra dæmt ógilt.
Þegar það rann upp fyrir Ingibjörgu hvað var að gerast fann hún sér athvarf í klaustri og leitaði síðan liðsinnis hjá Selestínusi III páfa og Knúti bróður sínum. Sendinefnd sem fór frá Danmörku til Rómar tókst að sannfæra páfa um að ættartréð væri falskt og páfinn lýsti ógildingu hjónabandsins ógilda og bannaði Filippusi að ganga í hjónaband að nýju. Hann lét það sem vind um eyru þjóta og fann sér nýja brúði, Margréti af Genf, en þegar hún ferðaðist til Parísar til að giftast honum rændi Tómas 1. af Savoja henni og giftist henni sjálfur.
Filippus giftist svo Agnesi af Meraníu (Dalmatíu) 7. maí 1196 og átti með henni tvö börn. Innósentíus III lýsti hjónaband þeirra ógilt þar sem Filippus væri enn giftur Ingibjörgu. Hann skipaði Filippusi að losa sig við hana og þegar hann varð ekki við því lýsti hann landið í bann1199. Því var aflétt 7. september1200, eftir að Filippus hafði sent Agnesi frá sér. Hann fékk því þó framgengt að börn þeirra voru lýst skilgetin. Hann tók heldur ekki Ingibjörgu til sín, heldur hafði hana í haldi í köstulum og klaustrum víða í Frakklandi.
Herför til Flæmingjalands
Árið 1212 átti Jóhann í hörðum deilum við páfastól og Filippus sá sér þá leik á borði og ákvað að gera innrás í England. Til að fá stuðning páfa sættist hann við Ingibjörgu árið 1213 eftir að hafa í tuttugu ár reynt að losa sig við hana. Jóhann sættist að vísu einnig við páfa og samþykkti að England og Írland skyldu vera lénsríki páfastóls. Þá lét Innósentíus III Filippus vita að hann yrði að hætta við innrásina en Filippus réðist þá á Flæmingjaland í staðinn og settist um Gent. Þangað frétti hann að enski flotinn hefði lokað þann franska inni í höfninni í Dam. Hann flýtti sér þangað en þegar hann sá að hann gæti ekki bjargað skipum sínum lét hann brenna þau frekar en að þau féllu í óvinahendur - og lét svo brenna borgina Dam í leiðinni. Hann kenndi íbúum Flæmingjalands um þennan ósigur og þegar hann hélt heim lét hann brenna og eyða öllum flæmskum bæjum og þorpum á leiðinni og drepa íbúana eða selja þá í þrældóm.
Orrustan við Bouvines
Jóhanni steig sigurinn á franska flotanum til höfuð svo að hann fór að undirbúa innrás í Frakkland til að vinna aftur lönd sín. Hann hélt til La Rochelle í febrúar 1214. Jafnframt komu bandamenn hans, Ottó 4. keisari og greifinn af Flanders, úr norðri og mættu her Filippusar við Bouvines-brú. Filippus hafði um 15.000 manna her en andstæðingar hans samtals um 25.000 menn. Bardaginn var harður; Filippusi var hrundið af hesti sínum en hertygin björguðu lífi hans. Ferdínand greifi af Flæmingjalandi særðist illa og féll í hendur Frakka og særður hestur Ottós keisara hljóp með hann af vígvellinum. Þá lögðu menn þeirra á flótta og Filippus hélt í sigurför heim til Parísar en Jóhann sneri heim til Englands með skottið milli fótanna.
Sigur Filippusar var afar afdrifaríkur. Jóhann hafði veikst svo mjög að skömmu síðar neyddist hann til að láta undan kröfum aðalsmanna og undirrita Magna Carta. Sigurinn styrkti hins vegar mjög konungsvaldið í Frakklandi.
Eftirmæli og ævilok
Filppus 2. stóð fyrir margvíslegum framförum í ríki sínu. Hann lét helluleggja helstu götur í París og reisa markaðinn Les Halles. Hann hélt áfram byggingu Notre Dame, sem faðir hans hafði byrjað að reisa 1163, byggði Louvre-kastala og gaf Parísarháskóla stofnskrá árið 1200. Verslun og viðskipti efldust mjög á stjórnarárum hans, sem voru almennt velmegunarár í Frakklandi.
Filippus 2. dó 14. júlí 1223 og tók Loðvík 8., sonur hans og Ísabellu fyrstu konu hans, við ríkjum eftir hann.