Búrbónar (franska: Maison de Bourbon) eru mikilvæg konungsætt í Evrópu. Þeir eru grein af Kapetingum sem tóku við af Karlungum sem konungsætt Frakklands árið 987. Búrbónar komust fyrst til valda í Navarra og síðan í Frakklandi á 16. öld. Eftir Spænska erfðastríðið á 18. öld voru Búrbónar einnig við völd á Spáni, Napólí, Sikiley og Parma. Núverandi Spánarkonungur og hertoginn af Lúxemborg eru af ætt Búrbóna.