Karl 10. Frakkakonungur

Skjaldarmerki Búrbónaætt Konungur Frakklands
Búrbónaætt
Karl 10. Frakkakonungur
Karl 10.
Ríkisár 16. september 18242. ágúst 1830
SkírnarnafnCharles-Philippe de France
Fæddur9. október 1757
 Versalahöll, Versölum, Frakklandi
Dáinn6. nóvember 1836 (79 ára)
 Görz, austurríska keisaradæminu
GröfKostanjevica-klaustur, Slóveníu
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Loðvík erfðaprins
Móðir María Jósefa af Saxlandi
DrottningMaría Teresa af Savoju
BörnLouis, Sophie, Charles Ferdinand

Karl 10. (9. október 17576. nóvember 1836) var konungur Frakklands. Hann tók við völdum árið 16. september 1824 en stóð sig ekki vel. Í stað þess að slaka á klónni hafði hann uppi tilburði til að hrifsa öll völd í sínar hendur. Parísarbúar gripu til vopna og reistu götuvígi. Eftir þriggja daga götubardaga neyddist konungurinn til að flýja land. Valdatíð hans lauk 2. ágúst 1830. Karl lést 1836 úr kóleru.

Karl var síðasti konungurinn af aðalgrein Búrbónaættar og síðasti franski einvaldurinn sem ríkti með titlinum „konungur Frakklands“ (Loðvík Filippus var „konungur Frakka“ og Napóleon 3. var Frakkakeisari).

Æviágrip

Karl var fimmti sonur Loðvíks erfðaprins og Maríu Jósefu af Saxlandi og yngsti sonarsonur Loðvíks 15. Frakklandskonungs. Hann var sá þriðji úr bræðrahópnum sem varð konungur Frakklands, á eftir eldri bræðrum sínum, Loðvík 16. og Loðvík 18.. Karl var mjög hændur að siðum og gildum gamla franska konungsríkisins og hafði ýtt á eftir endurreisn óskoraðs einveldis á valdaárum Loðvíks 18. Hann vildi færa Frakkland í sama horf og það hafði verið fyrir daga frönsku byltingarinnar og var sama hvernig fólk brygðist við.

Þegar Karl tók við völdum eftir dauða Loðvíks 18. var hans helsta stefnumál að standa vörð um stjórnarskrána sem bróðir hans hafði samþykkt tíu árum fyrr.[1] Þessi stjórnarskrá var frábrugðin nútímalegum hugmyndum um stjórnarskrár þar sem hún skilgreindi réttindi fólksins sem gjöf frá konungnum fremur en náttúruleg réttindi þjóðarinnar. Karl var mjög trúrækinn og hlynntur því að ríkinu væri stýrt á kristilegan hátt en þetta leiddi til þess að hann var oft á öndverðum meiði við franska þingið og aðrar borgaralegar ríkisstofnanir Frakklands. Nokkrum sinnum kom til árekstra milli Karls og þingsins, sérstaklega eftir afsögn forsætisráðherrans Villèle árið 1827, og Karl ógilti nokkrum sinnum ákvarðanir þingsins með konunglegum tilskipunum. Karl var vinsæll meðal íhaldsmanna á frönsku landsbyggðinni og meðal andstæðinga gamla franska lýðveldisins (sérstaklega í Vendée-héraði, sem hafði orðið illa fyrir barðinu á lýðveldissinnum í frönsku byltingarstríðunum). Karl var hins vegar mjög óvinsæll meðal Parísarbúa.

Á valdatíð Karls voru sett lög sem greiddu fólki sem hafði flúið frá Frakklandi og glatað eignum sínum á byltingarárunum skaðabætur. Jafnframt fóru Frakkar á þessum tíma að hafa afskipti af Grikklandi (1827) og Alsír (1830).

Afturhaldssemi Karls og tilraunir hans til að auka við konunglegt vald sitt leiddi til þess að júlíbyltingin braust út árið 1830. Þingmenn Parísar buðu frænda konungsfjölskyldunnar, Loðvík Filippusi, hertoganum af Orléans, að gerast þjóðhöfðingi í stað Karls. Karl sagði af sér svo sonarsonur hans, Hinrik af Artois, gæti gerst konungur. Hann bað Loðvík Filippus að gerast ríkisstjóri fyrir Hinrik þar til Hinrik yrði lögráða en Loðvík Filippus, sem hafði verið settur á valdastól af þinginu, fór ekki eftir fyrirmælum Karls. Þess í stað þáði hann titilinn Frakkakonungur og tók við völdum viku síðar. Karl, börn hans og barnabörn, neyddust til að halda í útlegð.

Tilvísanir

  1. Jean Sévillia (2013). Histoire passionnée de la France (franska). Perrin. bls. 286.


Fyrirrennari:
Loðvík 18.
Konungur Frakklands
(16. september 18242. ágúst 1830)
Eftirmaður:
Loðvík Filippus


  Þetta æviágrip sem tengist sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.