Frakkakeisari

Napoléon Bonaparte í krýningarskrúða á málverki eftir Jean Auguste Dominique Ingres frá 1806

Frakkakeisari (franska: Empereur des Français) var titill þjóðhöfðingja Frakklands þegar Bonaparte-ættin var við völd. Napoléon Bonaparte var fyrstur titlaður Frakkakeisari af frönsku öldungadeildinni 14. maí 1804 og var krýndur 2. desember sama ár í Notre Dame-dómkirkjunni með Napóleonskórónunni. Titillinn var af ásettu ráði látinn vísa til Frakka, þ.e. þjóðarinnar, en ekki Frakklands. Áhersla var lögð á að hið nýja stjórnarfar sem Napoléon kom á varð þannig Fyrsta franska keisaradæmið en ekki endurreisn franska konungdæmisins. Með endurreisn konungdæmis í Frakklandi 1814 leið þetta keisaradæmi undir lok. Ári síðar var keisaradæmið endurreist þegar Napoléon komst aftur til valda og ríkti í 94 daga. Sonur hans, Napóleon 2., varð Frakkakeisari í tvö skipti: fyrst í sex daga í apríl eftir ósigur Napoléons 1814 og síðan í 15 daga eftir orrustuna við Waterloo þar til bandamenn héldu innreið sína inn í París. Hann var þriggja ára í fyrra skiptið og fjögurra ára í það síðara.

Titillinn var aftur tekinn upp af bróðursyni Napoléons, Napóleoni 3., þegar hann, sem forseti Annars lýðveldisins, framdi valdarán og stofnaði Annað franska keisaradæmið árið 1852. Hann ríkti til 1870 þegar Frakkland beið ósigur fyrir Prússum og keisarinn hélt í útlegð til Bretlands.

Höfuð Bonaparte-ættarinnar hafa síðan gert tilkall til titilsins. Núverandi höfuð ættarinnar er Jean-Christophe Napoléon.