Alkibíades fyrri eða Alkibíades I er samræða sem er eignuð forngríska heimspekingnum Platoni. Í samræðunni ræðir Sókrates við Alkibíades um gagnsemi heimspekinnar. Í fornöld var Alkibíades fyrri vinsæl samræða og talin besti inngangurinn að platonskri heimspeki.
Yfirlit
Í Alkibíadesi fyrri lýsir Sókrates ást sinni á Alkibíadesi í stuttum formála en ræðir svo allar helstu ástæður þess að Alkibíades þarfnast hans. Tilraunir Sókratesar til þess að lokka Alkibíades frá stjórnmálum yfir í heimspeki takast ekki en heilla þó Alkibíades.
Ósvikin samræða?
Í fornöld var aldrei dregið í efa að Alkibíades fyrri væri réttilega eignuð Platoni. Árið 1836 lýsti þýski fræðimaðurinn Friedrich Schleiermacher því yfir að samræðan væri ranglega eignuð Platoni.[1] Í kjölfarið dvínuðu vinsældir hennar. Stílfræðilegar rannsóknir benda hins vegar til þess að samræðan sé ósvikin,[2] og sumir fræðimenn hafa haldið því fram að Platon hafi raunverulega samið hana.[3]
Ritunartími
Alkibíades fyrri er venjulega talin hafa verið rituð snemma á ferli Platons. Sumir fræðimenn hafa þó haldið því fram að samræðan hafi verið samin mun seinna, ef til vill á 5. áratug 4. aldar f.Kr.[4]
Tilvísanir
- ↑ Denyer (2001): 15.
- ↑ Young (1998): 35-36.
- ↑ Denyer (2001): 14-26.
- ↑ Denyer (2001): 11 ff. Cf. 20-24
Heimildir
*Denyer, Nicholas, "introduction", in Plato,
Alcibiades, Nicholas Denyer (ed.) (Cambridge: Cambridge University Press, 2001): 1-26.
- Young, Charles M., "Plato and Computer Dating", in Nicholas D. Smith (ed.), Plato: Critical Assessments volume 1: General Issues of Interpretation (London: Routledge, 1998): 29-49.