Áburðarverksmiðjan í Gufunesi

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var vígð 22. maí 1954 en það ár hófst framleiðsla áburðar. Verksmiðjan var stofnuð árið 1952. Hún fékk rafmagn til framleiðslunnar úr Írafossvirkjun í Sogi. Á þeim tíma var ekki markaður fyrir alla þá raforku sem framleidd var nema til kæmi stóriðja. Sú stóriðja varð að áburðarverksmiðju í Gufunesi sem framleiddi köfnunarefnisáburð sem fékk nafnið Kjarni.

Bygging Írafossvirkjunar og Áburðarverksmiðjunnar var fjármögnuð með Marshall-aðstoðinni. Stofnað var fyrirtækið Áburðarsala ríkisins sem hafði einkarétt á innflutningi og sölu áburðar. Þetta fyrirtæki flutti inn steinefnaáburð, þrífosfat og kalí til að blanda með hinum íslenska Kjarna en köfnunarefnið í áburðinum var unnið úr andrúmsloftinu.

Rekstur Áburðarverksmiðjunnar og Áburðarsölunnar var fljótlega sameinaður og hafði verksmiðjan einkaleyfi á sölu á áburði á Íslandi til ársins 1995.

Framleiðsla

Í fyrstu framleiddi verksmiðjan aðeins eina tegund áburðar og framleiðslugetan var 24 þús. tonn á ári. Árið 1999 var framleiðslugetan orðin 65 þús. tonn á ári og framleiðslutegundir alls 20 talsins.

Framleiðsla tilbúins áburðar hjá Áburðarverksmiðjunni fór árið 1999 fram í þessum fimm einingum sem allar eru staðsettar í Gufunesi: vetnisverksmiðju, köfnunarefnisverksmiðju, ammoníaksverksmiðju, sýruverksmiðju og blöndun. Verksmiðjan seldi þá því nær eingöngu í heildsölu til kaupfélaga og verslunarfyrirtækja. Efnaframleiðsla í verksmiðjunni var lögð niður í október árið 2001 og var þá hráefni flutt inn í kornaformi og blandað saman í verksmiðjunni og áburðurinn sekkjaður.

Mengun og umhverfi

Eldur kom upp í ammoníaksgeymi í verksmiðjunni 15. apríl 1990. Í kjölfar þess lýstu íbúar í Grafarvogi áhyggjum sínum á staðsetningu verksmiðjunnar svo nálægt íbúðarhverfi. Borgarráð samþykkti í apríl 1990 að krefjast þess að rekstri verksmiðjunnar yrði hætt. Öflug sprenging varð í verksmiðjunni 1. október 2001. Fimm starfsmenn verksmiðjunnar voru að störfum en engan sakaði. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent á staðinn og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Sagt var „að hús í Grafarvogi [hafi nötrað] og margir íbúar [hafi fundið] loftþrýstibylgju“. Þetta varð til þess að framleiðslu þar var hætt fyrr en ella.[1]

Í febrúar 2010 dæmi Hæstiréttur Íslands konu sem býr skammt frá áburðarverksmiðjunni 4,2 milljónir kr. í skaðabætur fyrir líkamstjón og örorku vegna mengunar frá verksmiðjunni.[2]

Eigendur og eignarhald

Áburðarverksmiðjan var í fyrstu hlutafélag að meirihluta í eigu ríkisins en árið 1969 keypti ríkið meðeigendur sína út og nafni verksmiðjunnar var breytt í Áburðarverksmiðja ríkisins. Árið 1994 var rekstrinum breytt í hlutafélag og heimilað í lögum nr. 89/1994 að selja allt hlutaféð. Í ársbyrjun 1995 var einkaréttur Áburðarverksmiðjunnar til framleiðslu og sölu áburðar afnuminn og innflutningur á áburði varð þá frjáls. Það var nauðsynlegt vegna ákvæðis í EES samningnum um að samningsaðilar skuldbundu sig til þess að sjá til þess að ríkiseinokun á hvers konar verslun mismuni ekki samkeppnisstöðu annarra aðildarlanda. 49% hlutur Áburðarverksmiðjunnar var auglýstur til sölu árið 1997. Tvö tilboð bárust en þau voru undir áætluðu upplausnarverði fyrirtækisins og var hafnað.

Áburðarverksmiðjan var seld í mars 1999 fyrir 1.257 milljónir króna til einkaaðila. Fyrirtækið velti miklum fjármunum og verðmæti birgða var metið á 750 milljónir. Því var haldið fram að innan við 500 milljónir hafi verið greiddar fyrir sjálfa verksmiðjuna og aðstöðuna.[3] Reykjavíkurborg samdi árið 2002 við hluthafa Áburðarverksmiðjunnar hf. um stöðvun efnaframleiðslu og kaup borgarinnar á fasteignum og aðstöðu fyrirtækisins fyrir 1.280 milljónir króna. Áburðarverksmiðjan hafði starfsleyfi til ársins 2019 og var lóðin sem hún leigði af Reykjavíkurborg 20 hektarar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í framtíðinni á þessu svæði og landfyllingum út í sjó.

Orkunotkun

Áburðarverksmiðjan var eitt af fjórum stóriðjufyrirtækjunum á Íslandi árið 2000 og þá voru orkukaup verksmiðjunnar frá Landsvirkjun 93 GWh en til samanburðar var raforkunotkun hinna stóriðjufyrirtækjanna þessi: Íslenska álfélagið (ÍSAL) 2.718 GWh, Íslenska Járnblendifélagið 984GWh og Norðurál 887 GWh. Áburðarverksmiðjan notaði að jafnaði um 140 Gwh á ári frá 1970 en notaði áður 70 GWh á ári.

Tilvísanir

  1. „Engan sakaði í öflugri sprengingu“. Morgunblaðið. 2. október 2001. Sótt 21. maí 2007.
  2. „Dæmdar fjórar milljónir í bætur vegna loftmengunar“. Vísir.is. 25. febrúar 2010. Sótt 25. febrúar 2010.
  3. Þingræða (Ögmundur Jónasson)

Heimildir

Tenglar