Óskar Halldórsson

Óskar Halldórsson (17. júní 1893 - 15. janúar 1953) var íslenskur útgerðarmaður og síldarspekúlant. Foreldrar Óskars voru Halldór Guðbjarnarson formaður á Akranesi og Guðný Jónsdóttir Ottesen ættuð úr Rúfeyjum. Óskar fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur árið 1903. Hann varð búfræðingur frá Hvanneyri árið 1910 og dvaldi í Danmörku við garðyrkjustörf og á lýðháskóla árið 1911-1913. Árin 1913 til 1914 var hann við garðyrkjustörf á Reykjum íMosfellssveit og var þá sá fyrsti á Íslandi til að rækta tómata við hverahita. Árið 1915 fór hann um Suðurland og keypti hross til útflutnings. Árið 1916 hóf hann lifrarbræðslu í Herdísarvík en fór víðar með lifrarbræðsluáhöld sín. Árið 1917 kom hann til Siglufjarðar, keypti þar lóð og setti upp lýsisbræðslu. Hann hóf svo síldarsöltun í stórum stíl árið 1919. Óskar var einn aðalhvatamaður að stofnuð var Síldarverksmiðja Ríkisins. Hann var umsvifamikill í síldarsöltun og útgerð, komst fjórum sinnum í greiðsluþrot en byggði upp rekstur aftur. Óskar keypti að lokinni heimsstyrjöldinni síðari 14 stór steinker sem notuð voru við innrásina í Normandí og voru þau mörg notuð til hafnargerðar á Íslandi svo sem í Keflavík, Hafnarfirði og á Skagaströnd.

Hann var kvæntur Guðrúnu Ólafsdóttur og voru börn þeirra Guðný (1916-1922), Theódór Óskar (1918-1941), Þóra (1919-2001), Guðný (1921 -1993),Ólafur, (1922-1995), Erna (1924-2006), Halldóra (1925-1993), Guðrún (Hamelý) (1930-2006). Önnur börn Óskars voru Harald E. Gunnarsson og Erna Halldórsdóttir. Guðrún kona Óskars lést árið 1939. Óskar kvæntist árið 1946 Ebbu Sophie Kruuse listmálara en hún lést eftir skamma sambúð.

Óskar og börn hans gáfu íslenska ríkinu Vaxmyndasafnið til minningar um son Óskars Theódór Óskar. Vaxmyndasafnið er varðveitt í Þjóðminjasafninu en er ekki haft til sýnis.

Heimildir