Viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Kúbu er viðskiptabann sem Bandaríkin settu á viðskipti við Kúbu 1962 og er enn í gildi. Eftir að uppreisnarmenn á Kúbu undir stjórn Fidels Castro steyptu ríkisstjórn Fulgencio Batista af völdum, sem var hlynnt Bandaríkjunum, versnaði samband Bandaríkjanna og Kúbu. Eftir valdatöku Castros fyrirskipaði Kennedy Bandaríkjaforseti bann við viðskiptum Bandaríkjamanna við Kúbu og var sú ákvörðun mikilvægur hluti af forleiknum að kúbudeilunni.
Bandaríkjamenn útvíkkuðu bannið á tíunda áratug 20. aldar með því að banna fyrirtækjum, sem ekki eru bandarísk, en stunda viðskipti við Kúbu að eiga viðskipti í Bandaríkjunum. Sú nýja stefna var víðast hvar um heiminn gagnrýnd og Bandaríkjamenn hafa ekki fylgt henni hart.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur margsinnis ályktað gegn viðskiptabanninu og hefur mælst til þess að Bandaríkjamenn láti af því. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem mótmæla viðskiptabanninu. Á samkomu árið 2008 var hvatt til þess að viðskiptabanninu væri aflétt og var það samþykkt 17. árið í röð. 185 ríki greiddu með ályktuninni; Palau, Bandaríkin, Ísrael voru andvíg henni og Marshalleyjar sátu hjá
[1]
Heimildir
- ↑ mbl.is: SÞ vill aflétta viðskiptabanni á Kúbu