Víkingaöld er tímabil í sögu Norður-Evrópu sem nær frá árinu 793 til 1066. Tímabilið einkenndist af mikilli útrás sæfara frá Norðurlöndum sem bæði stunduðu verslun og strandhögg (ránsferðir) og síðar landnám í mismiklum mæli. Upphaf víkingaaldar er miðað við fyrstu skjalfestu árás víkinga á England, árásinni á Lindisfarne árið 793, og henni lauk með ósigri Haraldar harðráða Noregskonungs á Englandi 1066.
Á fyrri hluta þessa tímabils skiptust Norðurlönd í litlar stjórnsýslueiningar undir stjórn höfðingja eða smákonunga. Um 1000 fara að myndast stærri yfirráðasvæði eða ríki sem síðar festu sig í sessi.
Víkingaöldin er hluti af miðöldum í Evrópu, en á Norðurlöndum teljast miðaldir hefjast við lok víkingaaldar.