Soong Ching-ling (27. janúar 1893 – 29. maí 1981) var kínverskur stjórnmálamaður. Hún var þriðja eiginkona byltingarleiðtogans Sun Yat-sens sem leiddi Xinhai-byltinguna árið 1911. Soong var oft kölluð „frú Sun Yat-sen“ eða „móðir lýðveldisins Kína“. Soong Ching-ling var ein af Soong-systrunum, sem allar voru giftar kínverskum áhrifamönnum og höfðu talsverð áhrif á kínversk stjórnmál fyrir árið 1949. Eldri systir hennar, Soong Ai-ling, var gift auðjöfrinum H. H. Kung og sú yngri, Soong Mei-ling, var gift Chiang Kai-shek, samstarfsmanni Sun Yat-sens og síðar forseta Lýðveldisins Kína á Taívan. Maóstar sögðu um systurnar: „Ein elskaði peninga, önnur völd og sú þriðja landið sitt.“[1]
Soong gegndi ýmsum mikilvægum embættum eftir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína árið 1949. Hún var varaforseti Kína (1949–1975) og varaformaður fastanefndar kínverska þjóðþingsins (1954–1959, 1975–1981). Soong ferðaðist um heiminn snemma á sjötta áratugnum og birtist í umboði Kínverja á ýmsum alþjóðaviðburðum. Í menningarbyltingunni var Soong hins vegar harðlega gagnrýnd.[2] Eftir að Liu Shaoqi forseti var drepinn í hreinsunum Maós árið 1968 gerðust þau Soong og hinn varaforsetinn, Dong Biwu, í reynd þjóðhöfðingjar Kína til ársins 1972,[3] en þá var Dong útnefndur forseti til bráðabirgða. Soong lifði menningarbyltinguna af en birtist æ sjaldnar opinberlega eftir árið 1976. Soong var formlega þjóðhöfðingi Kína sem formaður fastanefndar kínverska þjóðþingsins frá 1976 til 1978. Þegar heilsu Soong hrakaði í maí 1981 var henni veittur titillinn „heiðursforseti Alþýðulýðveldisins Kína“.