Jón Espólín lýsir Skúla þannig að hann hafi verið „...hár meðalmaður á vöxt og ei mjög gildur, kvikur mjög, skarpeygur og nokkuð varaþykkur, mikill rómurinn og sem hann beit á vörina þá hann talaði.“ Skúli fékk bólusótt á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og var eftir það nokkuð öróttur í andliti. Stytta af Skúla er í Fógetagarðinum í miðborg Reykjavíkur.
Skúli Magnússon var sýslumaður í Skagafirði og hann var fyrsti Íslendingurinn til að verða landfógeti á Íslandi. Kerfið var þannig á 18. öld að æðsti embættismaður Dana á Íslandi var stiftamtmaðurinn en landfótgetinn sá um fjarmálin.
Á unglingsárum var Skúli innanbúðarmaður hjá dönskum kaupmanni og kynntist þá gildandi verslunarháttum. Kaupmaður kallaði oft til Skúla: „Vigtaðu rétt, strákur“, en það þýddi að hann ætti að snuða viðskiptamennina, vigta laklega og hafa þannig ranglega af fátækum mönnum. Er sagt að honum hafi runnið í skap og strengt þess heit að verja kröftum sínum og lífi til þess að reka úr landi einokunarkaupmenn og bæta verslun landsmanna og lífskjör.
Magnús faðir hans drukknaði í ársbyrjun 1728, þegar hann var að sækja rekavið, en tveimur árum síðar giftist móðir Skúla séra Þorleifi, sem útskrifaði hann svo með stúdentspróf 1731. Hann stundaði svo nám við háskólann í Kaupmannahöfn1732-34 án þess þó að ljúka prófi.
Á fyrstu árum hans í embætti strönduðu hollenskar duggur í Skagafirði. Á þessum tíma höfðu Danir einokun á verslun á Íslandi en er skipsmenn urðu uppvísir að því að versla við landsmenn gerði sýslumaður skútuflökin upptæk ásamt farmi þeirra. Sagt er að bærinn sem hann reisti á Ökrum og enn stendur að hluta hafi verið gerður úr skútuviðnum.[1]
Skúli hafði forsjá Hólastóls eftir að Steinn Jónsson biskup dó árið 1739 og þar til Halldór Brynjólfsson tók við embætti 1746. Í úttektargerð kemur fram að hann hafi unnið gott starf, skilað af sér betra búi en hann tók við, látið byggja upp töluvert af húsum staðarins og útvegað nýtt letur til prentverksins, útvegað lærðan prentara og látið prenta bæði sumar og vetur. Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum var annar þeirra sem samdi úttektina en tveimur árum seinna sneri hann þó við blaðinu og kærði Skúla fyrir vanskil. Á endanum var Skúli þó hreinsaður af allri sök.
Skúli auðgaðist vel í Skagafirði og tókst á við einokunarkaupmenn. Til eru skjöl í einkaskjalasafni hans þar sem fram kemur andúð hans á viðurlögum þeim sem sett voru fyrir brot á lögunum um einokunarverslun. Hann kærði Pétur Ovesen, danska kaupmanninn á Hofsósi, meðal annars fyrir að selja ónýtt járn og mjöl sem blandað var mold, selja vöru hærra verði en leyft var og fleira. Urðu mikil málaferli út af þessu og var Bjarni Halldórsson málsvari kaupmannsins en Skúli hafði betur í málinu og aflaði þetta honum mikilla vinsælda meðal almennings. Hann var mikill stórbokki og héraðsríkur en jafnframt gestrisinn og gjöfull við þurfamenn og áhugamaður um framfarir, lét meðal annars smíða marga rokka og vefstóla.
Landfógeti
Árið 1749 var Kristjáni Drese landfógeta vikið úr embætti fyrir drykkjuskap, sukk og sjóðþurrð og í desember sama ár var Skúli skipaður í hans stað, fyrstur Íslendinga. Skúli fékk meðmæli Johans Pingels, amtmanns í embættið. Um það segir hann sjálfur í ævisögu sinni: „Allir urðu forvirraðir, því áður höfðu þeir þeinkt, að so illur djöfull sem landfógetinn gæti ómögulega verið íslenskur." Hann fluttist suður sumarið 1750 og settist fyrst að á Bessastöðum.
Hann hóf þegar að berjast fyrir ýmsum framfaramálum og helst fyrir stofnun framfarafélags sem skyldi standa að ýmsum umbótum í landbúnaðarmálum og iðnaði. Hann vildi líka að Íslendingar eignuðust þilskip svo þeir gætu sótt á djúpmið. Félagið Innréttingarnar var stofnað af Skúla ásamt íslenskum embættismönnum á Þingvöllum 17. júlí1751 til að vinna að viðreisn íslenskra landshaga. Innréttingunum var valinn staður í Reykjavík og meðal annars þess vegna hefur Skúli oft verið kallaður faðir Reykjavíkur. Þótt gengi Innréttinganna væri misjafnt eins og margra aðra framfaramála sem Skúli lét til sín taka var hann óþrjótandi baráttumaður fyrir framförum og var einn helsti boðberi upplýsingastefnunnar á Íslandi.
Skúli var valdamesti maður landsins um áratuga skeið en átti oft í deilum, bæði við aðra embættismenn og valdamenn og einnig við kaupmenn, einkum Hörmangara á árunum kringum 1755 en þá var hungursneyð í landinu og Skúli lét brjóta upp búðir kaupmanna og dreifa úr þeim matvælum sem þar voru til. Af þessu spruttu málaferli en þetta varð ásamt öðru til þess að Hörmangarar misstu einokunarverslunina úr höndum sér 1758.
Skúli fékk Viðey til ábúðar þegar hann varð landfógeti og bjó þar síðan. Viðeyjarstofa var reist sem embættisbústaður á árunum 1753-55. Hann lét af embætti fyrir aldurs sakir árið 1793 og lést ári síðar úti í Viðey. Hann er grafinn í Viðey.
Kona Skúla var Steinunn Björnsdóttir prests í Görðum á Álftanesi. Á meðal barna þeirra voru Jón Skúlason aðstoðarlandfógeti og Rannveig, kona Bjarna Pálssonar landlæknis. Skúli er sagður hafa verið mjög trúrækinn.[2]