Sigurður S. Thoroddsen

Sigurður Skúlason Thoroddsen
Fæddur24. júlí 1902(1902-07-24)
Dáinn29. júlí 1983 (81 árs)
MenntunPolyteknisk Læreanstalt í Kaupmannahöfn.
Störf Byggingaverkfræðingur, sem rak eigin verkfræðistofu, VST, sem síðar gekk inn í Verkís.
Þekktur fyrirHönnun vatnsaflsvirkjana og falleg málverk
FlokkurSósíalistaflokkurinn og arftakar hans.
Maki1. Jakobína Margrét Tulinius
2. Ásdís Sveinsdóttir
BörnÞrjú með Jakobínu, þar á meðal eru Dagur og Signý móðir Katrínar Jakobsdóttur.
Fjögur með Ásdísi, þar á meðal Ásdís yngri.
ForeldrarSkúli Thoroddsen og Theódóra Thoroddsen

Sigurður S. Thoroddsen (24. júlí 190229. júlí 1983) var íslenskur verkfræðingur, stjórnmálamaður og knattspyrnumaður.

Ævi og störf

Sigurður fæddist á Bessastöðum á Álftanesi, sonur stjórnmálamannsins Skúla Thoroddsen og skáldkonunnar Theódóru Thoroddsen. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1919 og útskrifaðist sem byggingarverkfræðingur frá Polyteknisk Læreanstalt(da) í Kaupmannahöfn árið 1927.

Fyrstu árin eftir útskrift gegndi hann verkfræðistörfum fyrir ýmsa opinbera aðila og sinnti kennslu. Árið 1931 stofnaði hann eigin verkfræðistofu, fyrstu almennu verkfræðistofuna hér á landi. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen kom að fjölda stórframkvæmda, meðal annars á sviði raforkumála og eru Sigurði eignaðar margar af stærstu og metnaðarfyllstu áætlunum á sviði virkjanamála hérlendis, þótt ekki hafi þær allar komið til framkvæmda.

Sigurður var af róttæku fólki kominn og hneigðist snemma til sósíalisma. Hann var kjörinn á Alþingi fyrir Sósíalistaflokkinn árið 1942. Ekki átti þingmennskan þó vel við hann og dró hann sig í hlé eftir eitt kjörtímabil. Systir Sigurðar, Katrín Thoroddsen, sat á þingi sem varamaður um nokkurra vikna skeið árið 1945 og voru þau systkinin því samtíða á þingi.

Á yngri árum lagði Sigurður stund á knattspyrnu og varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari með Knattspyrnufélaginu Fram. Meðan á námsdvöl hans í Danmörku stóð, æfði hann um tíma með Akademisk Boldklub, knattspyrnuliði Kaupmannahafnarháskóla.

Sigurður var tvíkvæntur, eignaðist átta börn, fjögur með hvorri konu, þar á meðal ljóðskáldið Dag Sigurðarson, rithöfundinn Halldóru Kristínu Thoroddsen, leikkonuna Guðbjörgu Thoroddsen, og kvikmyndaleikstjórann Ásdísi Thoroddsen. Hann var afi stjórnmálamannsins Katrínar Jakobsdóttur.

Árið 1982 kom út endurminningabók Sigurðar, Eins og gengur.

Heimildir og ítarefni

  • Sigurður Thoroddsen (1984). Eins og gengur. Endurminningar. Mál og menning, Reykjavík.
  • Sveinn Þórðarson. „Sigurður Skúlason Thoroddsen“. Frumherjar í verkfræði á Íslandi. Verkfræðingafélag íslands, Reykjavík, 2002: bls. 203-207. .
  • Þorsteinn Jónsson (ritstj.). „Sigurður Skúlason Thoroddsen“. Verkfræðingatal 2. bindi. Þjóðsaga, Reykjavík, 1996: bls. 830-831. .