Katrín Thoroddsen (7. júlí1896 - 11. maí1970) var íslenskur læknir, alþingismaður og bæjarfulltrúi í Reykjavík. Katrín var þriðja konan sem kosin var á Alþingi og fyrst íslenskra kvenna til að gegna stöðu héraðslæknis.
Fjölskylda og menntun
Katrín fæddist á Ísafirði og ólst þar upp til fimm ára aldurs en þá flutti fjölskyldan til Bessastaða á Álftanesi. Þegar Katrín var 12 ára gömul flutti flutti fjölskyldan að Vonarstræti 12 í Reykjavík. Foreldrar Katrínar voru hjónin Skúli Thoroddsen (1859-1916) lögfræðingur, sýslumaður, ritstjóri og alþingismaður og Theódóra Thoroddsen (1863-1954) skáld og kvenréttindakona og var Katrín sjöunda í röð þrettán systkina.[1] Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1915, prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1921 og stundaði framhaldsnám á sjúkrahúsum erlendis, m.a. í Noregi, Danmörku og Þýskalandi á árunum 1921-1923. Síðar fór hún í námsferðir til Evrópu og Kína og kynnti sér heilsugæslu og heilsuvernd barna. Hún varð viðurkenndur sérfræðingur í barnasjúkdómum árið 1927.
Katrín var héraðslæknir í Flateyjarhéraðssókn frá 1924–1926 en varð síðan heimilislæknir í Reykjavík og jafnframt læknir ungbarnaverndar og heilsuverndarstöðvar Líknar, síðar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur 1927–1940. Hún var yfirlæknir stöðvarinnar til ársins 1955, yfirlæknir barnadeildar frá 1955 - 1961 og staðgengill yfirlæknis barnadeildarinnar í sumarleyfum frá 1962 til æviloka árið 1970.[2] Samhliða öðrum störfum rak Katrín um tíma ljóslæknastofu á Laugavegi 11 ásamt Unni systur sinni.[1]
Katrín skrifaði fjölda greina í Læknablaðið og sendi frá sér töluvert efni um almenna heilsuvernd, barnasjúkdóma og meðferð ungbarna. Hún mætti fyrst kvenna á aðalfund Læknafélags Íslands árið 1927.[1]
Getnaðarvarnir og þungunarrof
Meðal baráttumála Katrínar var notkun getnaðarvarna og takmarkanir barneigna eins og það var orðað á þeim tíma. Hún taldi mikilvægt að auka umræðu og fræðslu á meðal almennings um kynheilbrigði en mikill þagnarmúr var um þessi málefni á þessum tíma.[3] Árið 1931 hélt hún fyrirlestur á vegum Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur um takmarkanir barnaeigna. Fyrirlesturinn þótti marka þáttaskil í að opna umræðu um þessi málefni og síðar fóru fleiri félög þess á leit við hana að hún héldi erindi sitt á fundum þess. Fór svo að fyrirlestrinum var útvarpað í Ríkisútvarpinu og síðar gefinn út á bók undir heitinu: Frjálsar ástir. Erindi um takmarkanir barnseigna. Fyrirlesturinn vakti mikla athygli og varð Katrín landsþekkt í kjölfar hans.[1] Katrín taldi þungunarrof ekki eiga rétt á sér nema líf og heilsa móðurinnar væri að veði eða um nauðgun hafi verið að ræða. Til að sporna gegn óvelkomnum þungunum vildi hún að getnaðarvarnir yrðu aðgengilegar og fólk yrði frætt um notkun þeirra. Hún taldi mikilvægt að auka kynfrelsi kvenna og tryggja þeim sjálfsákvörðunarrétt og aukin völd yfir eigin lífi. Árið 1934 samdi Vilmundur Jónsson landlæknir frumvarp til laga um þungunarvarnir og fóstureyðingar sem síðar var samþykkt sem lög frá Alþingi og tók það í flestu mið af sjónarmiðum Katrínar.[3]
Stjórnmálakonan
Katrín fór fyrst í framboð í alþingiskosningunum árið 1937 og var þá í fjórða sæti á lista Kommúnistaflokks Íslands. Hún náði ekki kjöri en listinn fékk þrjá fulltrúa kjörna. Árið 1942 voru haldnar tvennar alþingiskosningar og í þeim fyrri var Katrín í sjötta sæti á lista Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavík. Hún talaði meðal annars fyrir hönd flokksins í útvarpsumræðum og var ætlað að höfða sérstaklega til kvenna. Í seinni kosningunum árið 1942 var Katrín í fimmta sæti á lista flokksins í Reykjavík en tókst ekki að ná þingsæti þrátt fyrir stórsigur flokksins. Hún tók þó sæti sem varaþingmaður Einars Olgeirssonar árið 1945.[1]
Sósíalistar lögðu mikið kapp á að tryggja Katrínu þingsæti í alþingiskosningunum árið 1946 en þá hafði engin kona setið sem kjörinn þingmaður frá árinu 1938. Katrín náði kjöri og varð þriðja konan til að taka sæti á þingi á eftir þeim Ingibjörgu H. Bjarnason og Guðrúnu Lárusdóttur. Hún var meðal annars 2. varaforseti sameinaðs þings árið 1946 og sat í félags- og heilbrigðismálanefnd og barðist fyrir þau sem minna mega sín með sérstakri áherslu á málefni kvenna. Á þingi lagði hún fram breytingartillögu um hærra fjárframlag til Kvenréttindafélags Íslands og var flutningsmaður frumvarps til laga um dagheimili fyrir börn en málið náði ekki fram að ganga og hlaut dræmar undirtektir starfsbræðra Katrínar á þingi. Sömu sögu var einnig að segja um frumvarp hennar um breytingu á lögum um tekju- og eignaskatt en þar lagði hún til að tekjur hjóna væru ekki taldar fram saman og ekki skattlagðar sem heild. Hún bar einnig fram tillögu um aukinn innflutning á ávöxtum með það fyrir augum að almenningur hefði betra aðgengi að slíkri hollustufæðu. Tillagan var samþykkt á Alþingi en komst ekki til framkvæmda og bar Emil Jónsson forsætisráðherra því við að ástæðan væri gjaldeyrisskortur sem hamlaði innflutningi. Katrín lagði einnig fram breytingartillögu um að viðbótargjald af innflutningsleyfum á raftækjum til heimilisnota yrði fellt niður svo verð myndi lækka og þannig ættu fleiri húsmæður þess kost að eignast raftæki sem létt gætu þeim heimilisstörfin.[3]
Í alþingiskosningunum árið 1949 tapaði Katrín þingsæti sínu en hún hafði færst niður um eitt sæti frá fyrri kosningum til að skapa pláss á lista fyrir Brynjólf Bjarnason. Katrín sagðist sjálf hafa hafa óskað eftir að færast neðar á listann og taldi að fimmta sætið gæti orðið baráttusæti. Margar konur í röðum sósíalista urðu afar ósáttar við þessa ráðstöfun en Katrín stappaði stálinu í þær og lagði áherslu á mikilvægi baráttu kvenna innan flokksins til að tryggja henni áframhaldandi setu á þingi.
Nokkrum mánuðum eftir að þingferli Katrínar lauk skipaði hún annað sæti á lista sósíalista í bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Hún náði kjöri í bæjarstjórn og flutti þar margar tillögur í þágu barna og fátækra. Meðal tillagna hennar var að ráðinn skyldi lögreglulæknir til að tryggja föngum læknishjálp þegar á þyrfti að halda. Einnig flutti hún tillögu um að gerð yrði úttekt á högum þeirra sem bjuggu í bröggum og skúrum. Katrín sat í bæjarstjórn til ársins 1954 og að þeim tíma loknum einbeitti hún sér alfarið að læknisstörfum.[1]
Félagsstörf
Katrín tók virkan þátt í ýmsum félagasamtökum kvenna. Hún var virk í Kvenréttindafélagi Íslands og var meðal annars formaður Menningar- og minningarsjóðs kvenna frá 1945 til æviloka árið 1970 en sjóðnum var ætlað að styðja ungar konur til náms.[4] Hún var fyrsti formaður Félags háskólakvenna sem síðar varð Kvenstúdentafélag Íslands en það var stofnað árið 1928. Hún var í félaginu Friðarvinir en félagið reyndi að aðstoða gyðinga sem voru á flótta undan nasistum í Þýskalandi að fá landvistarleyfi á Íslandi á árunum fyrir síðari heimstyrjöldina.[1]