Níu ára stríðið (á þýsku: Pfälzischer Erbfolgekrieg; á ensku: Nine Year’s War; á frönsku: Guerre de la Ligue d’Augsbourg), einnig kallað pfalzíska erfðastríðið, var stórstríð í Evrópu, háð 1688-1697, að mestu leyti á þýskri grundu, þegar Frakkar réðust inn í Heilaga rómverska ríkið og víðar til að ná yfirráðum í þýska héraðinu Pfalz. Þá var einnig barist í Belgíu og Hollandi, Savoja og á Spáni.
Forsaga
Á 17. öld lá þýska héraðið Pfalz sitthvoru megin við Rínarfljót, fyrir norðan markgreifadæmið Baden og hertogadæmið Württemberg, en fyrir sunnan Hessen. Pfalz var kjörfurstadæmi, þannig að furstinn í héraðinu var einn þeirra sem völdu nýjan keisara í Heilaga rómverska ríkinu og var því valdamikill maður. Á ofanverðri 17. öld var Karl 1. kjörfursti í Pfalz, en hann var sonur Friðriks 5. í Prag (sem var kallaður Vetrarkonungurinn). Dóttir Karls 1. var Elísabeta Karlotta (kölluð Liselotta frá Pfalz) og afréð faðir hennar að gifta hana hertoganum Filippusi af Orleans í Frakklandi, bróður sólkonungsins Loðvíks 14. Hjónavígslan fór fram 1671 og bjó parið í Orléans. Karl 1. lést 1680. Þá tók sonur hans, Karl 2. við sem kjörfursti í Pfalz. Árið 1685 lést Karl 2. barnlaus og vantaði þá erfingja í kjörfurstadæmið í karllegg. Þá gerði Loðvík 14. tilkall til valda í Pfalz í gegnum bróður sinn og mágkonu. Eftir hártoganir og orðaskak í nokkur ár við aðra ættingja Karls 1. og Karls 2. réðist Loðvík inn í Heilaga rómverska ríkið til að leggja undir sig Pfalz með vopnavaldi. Á þessum tíma var Leópold 1. keisari Heilaga rómverska ríkisins, en hann sat í Vín og var upptekinn vegna innrásar Tyrkja þar austur frá.
Erfðastríðið í Pfalz
Fyrstu skotunum var hleypt af við þýska virkið Philippsburg í september 1688. Frakkar höfðu yfir 40 þúsund manna her að ráða, en í virkinu voru aðeins 2000 hermenn. Samt tók það Frakka rúman mánuð að hertaka virkið. Strax á eftir sátu Frakkar um borgirnar Mannheim og Frankenthal, sem báðar féllu fljótlega. Þeir höfðu hins vegar litið fyrir að hertaka aðrar borgir, eins og Worms, Kaiserslautern, Heidelberg, Speyer og Mainz. Auk þýskra borga náðu Frakkar að hertaka Elsass og taka borgir eins og Strassborg, sem einnig var þýsk þá. Keisarinn sjálfur var að berjast við Tyrki í austri (umsátrið um Vín var 1683). Í stað hans slógu nokkrir kjörfurstar saman herjum og náðu næstu árin að endurheimta flestar borgir sem Frakkar héldu. Frökkum kom á óvart að Þjóðverjar skyldu ná að koma saman stórum herjum meðan Tyrkjaógnin stóð sem hæst. Þeir ákváðu að berjast ekki við þá á jafnsléttu heldur notfæra sér þau virki sem þeir höfðu tekið og brenna nærsveitir. Eyðileggingin varð því gríðarleg á stóru svæði, ekki bara í Pfalz, heldur einnig í Baden og í Württemberg. Frakkar brenndu og eyðilögðu 20 stærri borgir og aragrúa bæja. Að lokum höfðu kjörfurstarnir betur. Þeim tókst að hrekja Frakka að mestu úr landi, sem við það misstu flest þau landsvæði sem þeir höfðu hertekið, nema Strassborg í Elsass. Auk þess varð til evrópskt bandalag gegn Frökkum (Ágsborgarbandalagið) sem barðist gegn ásælni þeirra gagnvart nágrannalöndum.
England
Á Englandi ríkti Jakob 2., sem Frakkar studdu. Jakob var illa liðinn af Englendingum, þar sem hann reyndi að koma kaþólskri trú aftur á þar í landi. Einnig leysti hann þingið upp og olli löndum sinum miklum áhyggjum. Ýmsir aðalsmenn ákváðu því að senda eftir Vilhjálmi frá Óraníu til Hollands, sem var giftur inn í ensku konungsættina og gat því gert tilkall til krúnunnar í gegnum eiginkonu sína. Árið 1688, þegar Frakkar réðust inn í Pfalz, notaði Vilhjálmur tækifærið og fór með lítinn her manna yfir til Englands og hrifsaði til sín krúnuna (Dýrlega byltingin). Jakob 2. flúði til Frakklands, en Loðvík 14. gat lítið gert að svo stöddu. Árið 1689 réðist Jakob 2. inn í Írland með aðstoð Frakka og náði að hertaka meginhluta landsins. Til Englands komst hann ekki því enski flotinn sigraði þann franska í nokkrum sjóorrustum. Vilhjálmur réðist svo sjálfur inn í Írland og Jakob flúði þá aftur til Frakklands. Enska krúnan var því örugg í höndum Vilhjálms. Franski flotinn fór í skæruhernað gegn enskum skipum og náði að ræna alls um 4000 skip.
Önnur lönd
Loðvík 14. leit á það sem stríðsyfirlýsingu við Frakkland að Vilhjálmur skyldi dirfast að taka enska konungsstólinn. Hann réðist inn í Belgíu og Holland og náði að sigra í nokkrum orrustum þar. Mikilvægasta borgin sem hann náði þar var Namur í Flæmingjalandi. Enski herinn var að mestu fastur á Niðurlöndum. Einnig réðust Frakkar inn i Savoja, sem þá var sjálfstætt ríki, og hertóku hafnarborgina Nice. Frakkar tóku ennfremur Barcelona og Girona á Spáni.
Ameríka
Strax og enskir og franskir landnemar í Ameríku vissu um stríðið í Evrópu tóku þeir til við að ráðast á hvora aðra. Aðallega voru það franskir landnemar sem réðust á enskar nýlendur við Atlantshaf. Á móti hertóku Englendingar Port Royal í frönsku nýlendunni Akadíu (núverandi Nova Scotia). Englendingar fóru einnig í stóran leiðangur upp St. Lawrence-fljót og réðust á borgina Québec. Sá leiðangur misheppnaðist algjörlega. Frakkar hröktu Englendinga á brott og tóku Port Royal aftur.
Friðarsamningar í Rijswijk
Þegar friðarsamningarnir fóru fram í hollensku borginni Rijswijk 1697 stóðu Frakkar höllum fæti. Þar af leiðandi samþykkti Loðvík 14. að draga her sinn út öllum þeim löndum sem hann hafði hertekið (Niðurlönd, Savoja, Pfalz, Norður-Spánn). Loðvík viðurkenndi Vilhjálm af Óraníu sem konung Englands og hann hætti öllu tilkalli til Pfalz eða annarra héraða sem hann ásældist. Eina svæðið sem Frakkar fengu að halda var Strassborg og Elsass.
Eftirmálar
Tæknilega séð var staðan eftir friðarsamningana eins og hún var fyrir stríð. Allir töpuðu þó á stríðinu nema fáeinir furstar. Eyðileggingin í þýska ríkinu var gífurleg af völdum frönsku herjanna. Einnig var nokkur eyðilegging í Belgíu og öðrum borgum þar sem Frakkar fóru um. Frakkar fengu þó í sinn hlut héraðið Elsass sem hefur verið franskt síðan (fyrir utan árin 1871-1918). Á móti komu gríðarleg fjárhagsleg vandræði í Frakklandi. Stríðið hafði kostað óhemju mikla peninga. Eftirmálinn var sá að þar voru þungbærari skattar settir á almenning sem kvartaði undan okinu. Aðstæður í Frakklandi voru svo erfiðar næstu áratugi að innan við öld eftir friðarsamningana hófst franska byltingin. Frakkar höfðu ekki ráðrúm til að safna nýju liði og blása til sóknar á ný þar sem næsta stórstyrjöld í Evrópu, Spænska erfðastríðið, brast á árið 1700.