Sir Moses I. Finley (Moses Israel Finkelstein) (20. maí 1912 – 23. júní 1986) var bandarískur og breskur fornfræðingur og sagnfræðingur.
Finley fæddist árið 1912 í New York borg. Foreldrar hans voru Nathan Finkelstein og Anna Katzenellenbogen. Hann lést árið 1986 sem breskur ríkisborgari. Finley hlaut menntun sína við Syracuse University og Columbia University. Hann hlaut M.A. gráðu í lögfræði en flest útgefin rit hans fjalla um fornaldarsögu, einkum félagslegar og hagsögulegar hliðar klassískrar fornaldar.
Finley kenndi við Columbia University og City College of New York, þar sem hann varð fyrir áhrifum frá meðlimum Frankfurt skólans, sem störfuðu í útlegð í Bandaríkjunum. Árið 1952, meðan á kalda stríðinu stóð, var Finley rekinn frá kennslustöðu sinni við Rutgers University; árið 1954 var hann kallaður fyrir þjóðaröryggisnefnd bandaríska þingsins og spurður hvort hann hefði verið meðlimur í kommúnistaflokki. Hann skýldi sér á bakvið fimmta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar og neitaði að svara.
Í kjölfarið átti Finley erfitt með að finna vinnu í Bandaríkjunum og því fluttist hann til Bretlands, þar sem hann kenndi fornfræði við Cambridge University árum saman, fyrst sem fyrirlesari í félagslegri og hagsögulegri fornaldarsögu við Jesus College (1964–1970), síðan sem prófessor í fornaldarsögu (1970–1979) og að lokum sem skólameistari við Darwin College (1976–1982). Hann víkkaði umfang fornfræðinnar frá því að fást eingöngu við textafræði til þess að fjalla einnig um menningu og samfélag. Finley varð breskur þegn árið 1962 og meðlimur í bresku akademíunnni árið 1971. Hann var sleginn til riddara árið 1979.
Helstu ritverk
- The Ancient Greeks (1963).
- The Ancient Economy (1973).
- Ancient Slavery and Modern Ideology.
- The World of Odysseus (1954).
- Politics in the Ancient World (1983).
- Aspects of Antiquity (1968).
Heimild