Klemens fæddist á Akureyri og voru foreldrar hans Jón Borgfirðingur, lögregluþjónn og fræðimaður, og kona hans Anna Guðrún Eiríksdóttir. Hann tók stúdentspróf við Lærða skólann 1883 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1888. Hann var aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn 1889-1891 en var þá skipaður sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri. Hann þótti röggsamt yfirvald og var forgöngumaður í ýmsum umbótum og framkvæmdum, ekki síst í samgöngumálum og skólamálum, auk þess sem hann beitti sér fyrir því að lögð var vatnsveita um bæinn.
Hann flutti til Reykjavíkur 1904 og varð landritari og þar með í raun næstvaldamesti maður landsins á eftir ráðherranum og staðgengill hans á ýmsum sviðum. Því embætti gegndi hann þar til það var lagt niður 1917 en eftir það vann hann að ritstörfum og rannsóknum. Hann var í stjórn Sögufélagsins frá 1906 til æviloka og skrifaði ýmis rit um sagnfræði og persónusögu, þar á meðal Sögu Reykjavíkur I-II, bók um sögu prentlistarinnar og bók um Grund í Eyjafirði. Einnig tók hann saman Lögfræðingatal og hóf útgáfu landsyfirréttar- og hæstaréttardóma. Hann skrifaði einnig fjölda greina um sagnfræðileg og lögfræðileg efni í ýmis blöð og tímarit.
Bróðir Klemensar var Finnur Jónsson málfræðingur í Kaupmannahöfn.
Alþingismaður og ráðherra
Klemens var kjörinn alþingismaður Eyfirðinga 1892 og sat á þingi til 1904, var þó ekki á þinginu 1894 því þá var hann settur amtmaður í norður- og austuramti. Á þinginu beitti hann sér einkum í samgöngumálum og lagði meðal annars til að smíðað yrði gufuskip til strandferða og að sími yrði lagður til Íslands. Hann þótti einn frjálslyndasti þingmaðurinn á Alþingi og fylgdi ekki alltaf eigin flokki, sem var Heimastjórnarflokkurinn.
Klemens sat jafnframt í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908-1914 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var meðal annars formaður heilsuhælisfélagsins sem stóð fyrir því að reisa Vífilsstaðahæli og var formaður stjórnar holdsveikraspítalans í Laugarnesi. Hann sat einnig í bankaráði Íslandsbanka 1924-1930.
Fjölskylda
Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þorbjörg Stefánsdóttir (3. júní 1866 – 30. jan. 1902) og áttu þau þrjú börn, þar á meðal Önnu Guðrúnu, konu Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn. Síðari kona Klemensar var Anna María Jónsson Schiöth (1. júní 1879 – 8. nóv. 1961) og áttu þau tvö börn; sonur þeirra var Agnar Klemens Jónsson sendiherra og ráðuneytisstjóri.
Systkini Klemensar voru þau Guðrún Borgfjörð húsfreyja og rithöfundur, Finnur Jónsson prófessor, Guðný Jónsdóttir Bjarnarson húsfreyja, Vilhjálmur Jónsson og Ingólfur Jónsson.