Jón Páll Bjarnason (f. 6. febrúar 1938, d. 16. ágúst 2015) var íslenskur gítarleikari. Hann fæddist á Seyðisfirði, sonur hjónanna Önnu G. Jónsdóttur hjúkrunarfræðings og Gunnars Bjarnasonar verkfræðings og skólastjóra Vélskóla Íslands.[1]
Hann tók kornungur að leika með bestu hljómsveitum landsins fyrir dansi, fyrst hér á landi en sótti síðar á svipuð mið í Danmörku og Svíþjóð og um skeið lék hann með erlendum tónlistarmönnum á skemmtiferðaskipum á Karíbahafi. Síðar á ævinni fór hann í framhaldsnám í list sinni í Los Angeles í Bandaríkjunum og lék þar m.a. með Buddy Rich's big band.[2]
Hann stundaði gítarkennslu í einkatímum og kenndi bæði við tónlistarskóla FÍH og grunnskólann á Akranesi.
Jón Páll var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Elly Vilhjálms söngkona. Þau skildu en áttu dótturina Hólmfríði Ástu. Önnur kona Jóns Páls var Erna Haraldsdóttir flugfreyja, sem fórst í flugslysinu mikla á Sri Lanka í nóvember 1978. Þriðja eiginkona hans var Roberta Ostroff rithöfundur í Bandaríkjunum, en hún lést 2004. [1]
Neðanmálsgreinar