Julie Payette (f. 20. október 1963) er kanadískurverkfræðingur og geimfari sem var landstjóri Kanada frá 2017 til 2021. Hún hefur farið í tvær ferðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, árin 1999 og 2009. Árið 2017 skipaði Elísabet 2. drottning Payette í embætti landstjóra Kanada samkvæmt meðmælum Justins Trudeau forsætisráðherra landsins. Payette sagði af sér í janúar 2021 vegna ásakana um einelti á vinnustað.
Payette starfaði hjá Kanadadeild raftækjafyrirtækisins IBM frá 1986 til 1988 og gerðist síðan aðstoðarmaður á rannsóknastofu í Háskólanum í Torontó frá 1988 til 1990. Hún var gestarannsakandi við rannsóknarstofu IBM í Zürich árið 1991 og var rannsóknarverkfræðingur á fjarskiptafyrirtækinu Bell-Northern Research í Montréal árið 1992.[2]
Í júní árið 1992 var Payette ráðin ásamt þremur öðrum til starfs hjá kanadísku geimferðastofnuninni (CSA).[2] Þar starfaði hún við verkefni tengd Alþjóðlegu geimstöðinni. Hún hlaut flugmannsréttindi og lærði rússnesku til þess að undirbúa sig fyrir geimferðina.
Eftir að hafa lokið geimfaraþjálfun hjá Johnson-geimmiðstöð NASA í Houston var Payette árið 1999 send, fyrst Kanadamanna, með geimskutlunni Discovery til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.[2] Dvöl hennar á sporbaug um jörðina varði frá 27. maí til 6. júní 1999. Payette var höfuðgeimfari kanadísku geimferðastofnunarinnar frá 2000 til 2007.[2]
Payette fór í annað skipti út í Alþjóðlegu geimstöðina árið 2009. Í þetta sinn ferðaðist hún þangað með geimskutlunni Endeavour. Í þetta sinn var hún á sporbaug frá 15. til 31. júlí árið 2009. Alls hefur Payette dvalið rúmlega 611 klukkustundir úti í geimnum.[2]
Frá 2013 til 2016 starfaði Payette við Vísindamiðstöð Montréal og var varaforseti ríkisrekna fasteignafyrirtækisins Canada Lands Company.[2] Payette hefur jafnframt verið meðlimur í stjórn Þjóðbanka Kanada og í stjórn Drottningarháskólans í Kingston.[2]
Payette sagði af sér sem landstjóri þann 21. janúar árið 2021 eftir að skýrsla var birt þar sem fjöldi embættismanna sakaði hana um einelti á vinnustað.[4]
Viðurkenningar
Payette hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga á ferli sínum. Árið 2002 var hún sæmd þjóðarorðu Québec og þjóðarorðu Kanada árið 2010.[2] Árið 2001 hlaut Payette La Pléiade-orðuna frá Samtökum frönskumælandi ríkja. Hún hlaut Montréal-orðuna árið 2013 og var gerð að yfirmanni hennar árið 2016.
Árið 2010 var nafn Payette fært inn í frægðarsal kanadískra flugmanna.[2] Payette er heiðursdoktor við 27 háskóla og menntastofnanir.[5] Sem landstjóri Kanada er Payette yfirmaður og orðuveitandi kanadískra heiðursorða.[6]